Ógnvænleg aukning á skráðum aftökum ber vitni um að dauðarefsingin hefur ekki kostað fleiri mannslíf í rúmlega 25 ár

Stóraukning á fjölda skráðra aftaka á heimsvísu árið 2015 ber vitni um að fleiri einstaklingar voru teknir af lífi árið 2015 en nokkurn tíma á síðasta aldarfjórðungi. Í yfirferð sinni á beitingu dauðarefsingarinnar á heimsvísu komst Amnesty International að því að aukninguna mætti að mestu leyti rekja til Íran, Pakistan og Sádi-Arabíu. 

 

Stóraukning á aftökum á heimsvísu – mesti fjöldi sem Amnesty hefur skráð í rúmlega 25 ár
Þrjú lönd – Íran, Pakistan og Sádi-Arabía bera ábyrgð á um 90% allra skráðra aftaka.
Í fyrsta skipti hefur meirihluti ríkja heims fyllilega afnumið dauðarefsinguna eftir að fjögur lönd lögðu dauðarefsingar af árið 2015.

 
Stóraukning á fjölda skráðra aftaka á heimsvísu árið 2015 ber vitni um að fleiri einstaklingar voru teknir af lífi árið 2015 en nokkurn tíma á síðasta aldarfjórðungi. Í yfirferð sinni á beitingu dauðarefsingarinnar á heimsvísu komst Amnesty International að því að aukninguna mætti að mestu leyti rekja til Íran, Pakistan og Sádi-Arabíu.
Að minnsta kosti 1.634 manneskjur voru teknar af lífi árið 2015 sem er meira en 50% aukning frá árinu áður og jafnframt mesti fjöldi sem Amnesty International hefur skráð frá árinu 1989. Þó tekur sú heildartala ekki til aftaka í Kína, þar sem þúsundir til viðbótar voru líklegast teknir af lífi en þar er farið með gögn um dauðarefsingar eins og ríkisleyndarmál.
,,Aukningin á aftökum á síðasta ári er ákaflega óhugnaleg. Ríki heims hafa ekki tekið jafn marga af lífi síðastliðin 25 ár. Árið 2015 héldu stjórnvöld linnulaust áfram að svipta fólk lífi á þeim fölsku forsendum að dauðarefsingin yki öryggi okkar“ segir Salil Shetty, aðalframkvæmdastjóri Amnesty International.
,,Íran, Pakistan og Sádi-Arabía hafa öll viðhaft fordæmalausan fjölda aftaka á fólki, oft eftir frámunalega ósanngjörn réttarhöld. Þessari slátrun verður að linna“
,,Blessunarlega tilheyra þau lönd sem viðhafa aftökur litlum og sífellt einangraðri minnihluta. Meirihluti ríkja hafa snúið baki við dauðarefsingunni og á árinu 2015 afnámu fjögur lönd til viðbótar þessa villimannslegu refsingu, með öllu úr lögum“
Aukning knúin áfram af Íran, Pakistan og Sádi-Arabíu
Aukning aftaka á heimsvísu var aðallega knúin áfram af þremur löndum sem í sameiningu bera ábyrgð á 89% allra aftaka ársins 2015 (ef Kína er frátalið).
Pakistan hélt áfram þeim taumlausu drápum sem ríkið heimilar sem hófust þegar aftökustoppi var aflétt í desember 2014. Yfir 320 manns voru færðir í gálgana árið 2015 sem er hæsta tala sem Amnesty International hefur nokkurn tíma skráð í Pakistan.
Íran tók að minnsta kosti 977 manns af lífi árið 2015 samanborið við að minnsta kosti 743 árið áður,  drjúgan meirihluta þeirra fyrir glæpi tengda eiturlyfjum. Íran er einnig eitt síðasta ríki heims sem enn tekur sakamenn á unglingsaldri af lífi sem er svívirðilegt brot á alþjóðalögum. Í landinu voru að minnsta kosti fjórir teknir af lífi árið 2015 sem voru undir 18 ára aldri þegar glæpurinn sem þeir voru dæmdir fyrir var framinn.
Í Sádi-Arabíu jukust aftökur um 76% miðað við tölur frá 2014, þar sem að minnsta kosti 158 manns voru teknir af lífi á síðasta ári. Flestir voru hálshöggnir en yfirvöld notuðust einnig við aftökusveitir og höfðu svo stundum líkama hinna líflátnu opinberlega til sýnis.
Það var einnig eftirtektaverð aukning á fjölda skráðra aftaka í nokkrum öðrum löndum þar á meðal Egyptalandi og Sómalíu.
Fjöldi landa sem tók fólk af lífi jókst frá 22 árið 2014 upp í 25 árið 2015. Að minnsta kosti 6 lönd sem ekki höfðu tekið neinn af lífi árið 2014 snéru við blaðinu árið 2015, þar á meðal Chad þar sem aftökur fóru fram í fyrsta skipti í meira en áratug.
Fimm afkastamestu böðlar heimsins árið 2015 voru Kína, Íran, Pakistan, Sádi-Arabía og Bandaríkin – í þessari röð.
Nokkur ríki, þar á meðal Kína, Íran og Sádi-Arabía, héldu áfram að dæma fólk til dauða fyrir glæpi eins og dreifingu fíkniefna, spillingu, ,,hórdóm“ og ,,guðlast“, sem samræmast ekki alþjóðlegum stöðlum um alvarlegustu glæpina sem notkun á dauðarefsingum skal takmarkast við samkvæmt alþjóðalögum.
Ár öfga
Þrátt fyrir bakslög á árinu 2015 þá heldur heimurinn áfram vegferð sinni í átt að afnámi dauðarefsingarinnar. Hluti þeirrar þróunar sem átti sér stað á síðasta ári gaf tilefni til vonar og sýndi að lönd sem ríghalda í dauðrefsinguna tilheyra einangruðum minnihluta.
Fjögur lönd felldu dauðarefsinguna algjörlega úr gildi í lögum sínum árið 2015 – Fídjíeyjar, Madagaskar, Lýðveldið Kongó og Lýðveldið Súrínam. Mongolía samþykkti einnig ný hegningarlög sem fella dauðarefsinguna niður og taka gildi síðar á árinu 2016.
Í fyrsta skipti hefur meirihluti landa heims, eða 102, nú lagt dauðarefsinguna af að fullu. Í heildina eru 140 ríki vítt og breitt um heiminn afnámsinnuð í lögum eða framkvæmd.
,,2015 var ár öfga. Við urðum vitni af uggvænlegri þróun en annað gaf tilefni til vonar. Fjögur lönd lögðu dauðarefsinguna algjörlega af, sem þýðir að meirihluti heimsins hefur nú bannað þessa hryllilegustu gerð refsinga,“ segir Salil Shetty.
,,Hvað sem líður skammtíma bakslögum er langtíma stefnan enn skýr: veröldin er að fjarlægjast dauðarefsinguna. Þau lönd sem enn taka fólk af lífi þurfa að átta sig á að þau eru á skjön við söguna og láta af þessari grimmilegustu og ómannúðlegustu gerð refsinga,“
Staðbundnar samantektir
Ameríka
Ameríkuálfa hélt áfram árangri sínum í átt að afnámi dauðarefsinga. Sjöunda árið í röð voru Bandaríkin eina landið sem framfylgdi dauðadómum. Bandaríkin framkvæmdu 28 aftökur, sem er lægsti fjöldi síðan árið 1991. Fjöldi þeirra dauðadóma sem féllu hefur ekki verið skráður lægri síðan 1977. Pennsylvaníuríki lagði á aftökustopp og í heildina hafa 18 ríki innan Bandaríkjanna lagt dauðarefsinguna algjörlega af.
Trínidad og Tóbagó var eina landið í heimshlutanum, að Bandaríkjunum undanskyldum, sem lét dauðadóma falla.
Asía og Kyrrahafsríki
Það varð mikil aukning á aftökum í Asíu og Kyrrahafsríkjunum á árinu 2015, aðallega vegna Pakistan sem stóð á bak við nærri 90% allra aftaka (Kína frátalið) sem skráðar voru af Amnesty International í heimshlutanum. Bangladess, Indland og Indónesía hófu öll aftökur á ný árið 2015. Í Indónesíu voru 14 líflátnir vegna fíkniefnatengdra brota á árinu.
Kína heldur áfram að tróna á toppnum þegar kemur að aftökum og Amnesty International telur að þúsundir hafi verið teknir af lífi og að þúsundir dauðadóma hafi fallið árið 2015. Tákn eru á lofti um að fjöldi aftaka í Kína hafi minnkað síðastliðin ár en sú leynd sem hvílir yfir dauðarefsingunni þýðir að ómögulegt er að staðfesta það.
Evrópa og Mið-Asía
Hvíta-Rússland var eina landið í þessum heimshluta sem viðhafði dauðarefsingar. Þó að enginn hafi verið tekinn af lífi árið 2015 féllu minnst tveir nýir dauðadómar.
Mið-Austurlönd og Norður-Afríka
Notkun dauðarefsinga náði hámarki árið 2015 á landsvæði sem nú þegar veldur miklum áhyggjum. Öll lönd í heimshlutanum, fyrir utan Oman og Ísrael, felldu dauðadóma á meðan átta ríki framfylgdu þeim. Að minnsta kosti 1.196 aftökur voru framkvæmdar, sem er 26% aukning frá þeim tölum sem skráðar voru árið 2014 og er aðallega tilkomin vegna fjölgana í Íran og Sádi-Arabíu. Íran eitt og sér var ábyrgt fyrir 82% allra aftaka sem skráðar voru í heimshlutanum.
Afríka sunnan Sahara
Merkja mátti bæði jákvæða og neikvæða þróun í Afríku sunnan Sahara. Madagaskar og Lýðveldið Kongó lögðu bæði dauðarefsingar fullkomlega af og fjöldi felldra dauðadóma snarminnkaði úr 909 árið 2014 yfir í 443 árið 2015, aðallega vegna samdráttar í Nígeríu.
Fjöldi skráðra aftaka í þessum heimshluta féll örlítið, frá 46 niður í 43, frá því á árinu á undan. Hinsvegar hóf Chad aftökur að nýju eftir meira en 12 ára hlé þegar 10 grunaðir meðlimir Boko Haram voru leiddir fyrir aftökusveit og teknir af lífi í ágúst.
 
Amnesty International er á móti dauðarefsingunni í öllum tilvikum án undantekninga burtséð frá eðli eða kringumstæðum glæpsins; sekt, sakleysi eða öðrum persónueinkennum einstaklingsins; eða aðferðinni sem ríkið beitir við framkvæmd aftökunnar. Það eru engin gögn til staðar sem benda til þess að dauðarefsingin sé áhrifaríkari en aðrar gerðir refsinga þegar kemur að því að fyrirbyggja glæpi.