Vernd er ekki gjöf til flóttafólks – hún er mannréttindi.

Ghias Aljundi flúði frá Sýrlandi til Bretlands fyrir átján árum en hann er einn af þúsundum sjálfboðaliða sem hafa aðstoðað flóttafólk sem flýr til Grikklands. Ghias grunaði aldrei að einn daginn myndi hann bjarga eigin fjölskyldu úr gúmmíbát.

Ghias Aljundi flúði frá Sýrlandi til Bretlands fyrir átján árum en hann er einn af þúsundum sjálfboðaliða sem hafa aðstoðað flóttafólk sem flýr til Grikklands. Ghias grunaði aldrei að einn daginn myndi hann bjarga eigin fjölskyldu úr gúmmíbát.
Amnesty International ræddi við Ghias. „Þegar ég flaug til Lesbos á Grikklandi hafði ég ekki hugmynd um að fjölskylda mín myndi koma á eyna í litlum gummíbát. Þessi dagur í desember var sólríkur og bjartur en mjög kalt var í veðri. Þetta var einstaklega erfitt augnablik.
Engin vildi flýja Sýrland. Við erum frá Tartus, fallegri borg við Miðjarhafsströndina. Ég var settur í fangelsi í fjögur ár þar sem ég sætti pyndingum vegna vinnu minnar í mannréttindamálum og sem blaðamaður þannig að ég flúði til Bretlands árið 1999.
Bróðir minn Safi rak farsímaverslun í Tartus þar til á síðasta ári þegar verslunin var jöfnuð við jörðu í sprenguárás og orðið var of hættulegt að dvelja áfram í landinu. Frændi minn Mazin flúði þvingaða herskráningu. Hann lagði á flótta til Líbanon og náði til Tyrklands á örfáum dögum. Síðan bárust þau skilaboð að ættingjar mínir hefðu greitt óþekktum aðila fyrir flutning til Lesbos. Ég gerði mitt besta til að koma í veg fyrir að þau færu í hættulega bátsferð og var tilbúin að taka lán til að halda þeim í Tyrklandi. En ákvörðun þeirra var önnur og auðvitað var ég boðinn og búinn til aðstoðar. Ég sagði þeim að ferðast ekki að nóttu til þar sem meiri líkur væru á drukknun ef slys bæri að höndum. Ég upplýsti þau einnig um að flest björgunarvestin væru eftirlíkingar og að gæta þess að klæðast regnfötum og setja plastpoka um fætur sér. Jafnframt varaði ég þau við því að öskra ekki þar sem slíkt gæti hrætt börnin.
Sameinuð eftir 17 ár
Ég vissi nákvæmlega hvar ættingjar mínir myndu koma að eynni því þau höfðu deilt staðsetingunni á WhatsApp. Ferðin frá ströndum Tyrklands tók eina klukkustund og 50 mínútur. Þar sem ég beið leið mér eins og ég væri staddur annars staðar. Ég synti í átt að öldunum þangað sem þær báru bát bróður míns en staðurinn sem bátinn bar að landi var mjög erfiður – hendur mínar voru alþakktar í blóði og þyrnum. Eina manneskjan sem ég þekkti í sjón var frændi minn Safi, jafnvel þó ég hafi ekki litið hann augum í 18 ár. Mágkona mín Nina var grátandi því hún hélt að barnið sem hún bar undir belti væri látið, þar sem bátsfélagar hennar höfðu stigið á kvið hennar þegar skelfing greip um sig á bátnum. Læknar sem voru á staðnum huguðu að Ninu og fundu hjartslátt barnsins sem hún gekk með.
Ég bar svo mörg börn úr bátunum m.a. þriggja ára frænku mína Sirin – ég vissi ekki að þetta væri hún fyrr en síðar. Um kvöldið fór ég með ættingja mína út að borða og að því loknu hélt ég áfram á kvöldvakt. Ég var í losti þetta kvöld.
Ættingjar mínir ferðuðust áfram til Þýskalands þar sem þau fengu öll dvalarleyfi. Þau sækja nú tungumálanám og bíða eftir leikskólaplássi fyrir börnin. Staðarbúar reynast þeim mjög vel. Þetta er ótrúlega jákvætt. Mágkona mín sagði við mig: „Mér líður aftur eins og manneskju“. Hún eignaðist heilbrigðan son sem kom í heiminn í Þýskalandi.
Það erfiðasta við að vera flóttamaður
Að mínu viti er eitt það erfiðasta við að vera flóttamaður að fólk lætur þér líða eins og þú sért óvelkominn, eins og þú hafir komið til landsins þeirra til að ræna það vinnu. Fólk kemur ekki vegna vinnu.
Eitt sinn bjargaði ég sex daga gömlu barni sem skalf vegna kulda. Ég spurði ungu móðurina hvers vegna hún hafi flúið ein. Hún sagði mér að hún og fleiri hafi orðið fyrir loftárás sem grandaði mörgum. Hún hafi komist lífs af og ákvað því að komast á bát með barnið sitt. Maðurinn hennar hvarf þegar hún var gengin þrjá mánuði og ættingjar hennar létu lífið. Hún átti engra annarra kosta völ en að flýja.
Þessi kona er átrúnaðargoðið mitt. Hún komst til Svíþjóðar þar sem hún dvelur enn í tjaldbúðum en hún og barnið hennar eru örugg. Í hvert skipti sem ég spyr hana um líðan hennar svarar hún: „Ég er hamingjusöm – ég er laus við sprengjuregnið“.
Ótalmargir hafa sagt við mig að þeir myndu ekki dvelja einn dag Evrópu ef friður kæmist á í Sýrlandi. Flótti er eina leiðin til að lifa af.
Það skiptir sköpum að upplifa góðar móttökur
Aðstæður á Grikklandi eru miklu, miklu verri nú en þegar fjöldaskylda mín kom þangað. Í mars varð Moria að varðhaldsstöð í kjölfar samnings sem Evrópusambandið gerði við Tyrkland. Fólk er fast á meginlandi Grikklands og býr við hörmulegar aðstæður þar sem stuðningur er lítill. Þegar ég bauð mig fram sem sjálfboðaliði á Grikklandi fyrir skemmstu varð ég vitni að því að þriggja daga gamalt barn var sent af spítala í tjaldbúðir þar sem hitinn var óbærilegur. Örvænting hefur gripið um sig á Grikklandi.
Sjálfboðaliðar og aðgerðasinnar skipta öllu máli í þessum aðstæðum og breyta miklu. Nítíu prósent okkar erum á eigin vegum og sjáum um fjárútlátin.
Ég hef aldrei verið óttasleginn í vinnu minni til aðstoðar flóttafólki og ég hef aldrei rekist á árásargjarnt eða harðsnúið flóttafólk. Þau vita öll að við erum að hjálpa þeim.
Þegar flóttafólk er tekið opnum örmum fyllist það von – það þarfnast vonar meira en nokkurs annars. Það færir fólki aftur mannlega reisn. Þess vegna eru lausnir eins og endurbúseta svo mikilvægar. Við getum ekki skilið fólk eftir. Fólk sem hefur lagt á sig hættulega bátsferð ásamt börnum sínum, er oft í höndum hrottafenginna smyglara eða á stöðum þar sem það hefur verið í fast í áratugi, eins í Kenía eða Pakistan. Það skiptir öllu máli fyrir flóttafólk að geta ferðast á öruggan og lögmætan hátt til landa sem getur veitt þeim vernd og börnunum framtíð. Þú vilt ekki að barnið þitt fæðist inn í aðstæður þar sem óvissa ríkir. Þú vilt geta tryggt börnum þínum skólagöngu og að þau séu örugg.
Vernd er ekki gjöf til flóttafólks – hún er mannréttindi.