Gríðarleg aukning á fjölda morða sem framin eru af lögreglunni í Ríó de Janeiro í aðdraganda Ólympíuleikanna

Samkvæmt almannaöryggisstofnunni Instituto de Segurança Pública (ISP) hafa 40 manns, í borginni einni, verið felldir af lögregluþjónum við skyldustörf í maímánuði: sem er aukning um 135% miðað við sama tímabil árið 2015.

Sú sláandi aukning sem orðið hefur á fjölda þeirra einstaklinga sem fallið hafa fyrir hendi lögreglunnar í Ríó de Janeiro í aðdraganda Ólympíuleikanna leiðir bersýnilega í ljós þá óhugnalegu lítilsvirðingu sem þeir sem sinna öryggisgæslu bera fyrir réttinum til lífs.
Samkvæmt almannaöryggisstofnunni Instituto de Segurança Pública (ISP) hafa 40 manns, í borginni einni, verið felldir af lögregluþjónum við skyldustörf í maímánuði: sem er aukning um 135% samanborið við þá 17 einstaklinga sem féllu fyrir hendi lögreglu á sama tíma árið 2015. Í Ríó de Janeiro fylkinu öllu jókst fjöldinn frá 44 og upp í 84 einstaklinga sem felldir voru, sem er 90% aukning frá því árinu áður.
„Hin gríðarlega aukning á fjölda dauðsfalla í aðdraganda þessa mikilfenglega íþróttaviðburðar sýnir hvernig yfirvöldum hefur fyrir sitt leyti mistekist fullkomlega að verja þau grundvallarmannréttindi sem felast í réttinum til lífs“ segir Atila Roque, framkvæmdastjóri Amnesty International í Brasilíu.
„Það er fullkomlega óásættanlegt að þessar tölur fari hækkandi þrátt fyrir allar þær aðvaranir og kvartanir sem íbúar Ríó hafa komið á framfæri varðandi óhóflega valdbeitingu af hendi lögreglu. Yfirvöld verða að grípa til aðgerða undir eins til þess að hafa taumhald á verstu ódæðisverkum öryggissveita, sporna við vítahring ofbeldis og ganga úr skugga um að rétturinn til lífs sé tryggður.“