Ungliðar Amnesty ganga fyrir mexíkóskar konur í druslugöngunni

Ungliðahreyfing Íslandsdeildar Amnesty International tekur þátt í Druslugöngunni næstkomandi laugardag, þann 23. júlí, líkt og í fyrra. Í ár vekur hún athygli á skelfilegum veruleika mexíkóskra kvenna sem lenda í klóm opinberra öryggissveita sem beita þær kerfisbundnu kynferðisofbeldi til þess að knýja fram játningar við þeim ákærum sem þeir saka þær um.

Ungliðahreyfing Íslandsdeildar Amnesty International tekur þátt í Druslugöngunni næstkomandi laugardag, þann 23. júlí, líkt og í fyrra.
Í ár vekur hún athygli á skelfilegum veruleika mexíkóskra kvenna sem lenda í klóm opinberra öryggissveita sem beita þær kerfisbundnu kynferðisofbeldi til þess að knýja fram játningar við þeim ákærum sem þeir saka þær um. Með játningar kvennanna undir höndum geta meðlimir öryggissveitanna svo státað sig af því að verða ágengt í baráttunni gegn hömlulausri og skipulagðri glæpastarfsemi í landinu. Ný rannsókn Amnesty International leiddi í ljós að af þeim 100 konum sem samtökin ræddu við höfðu 97 orðið fyrir líkamlegu ofbeldi, 72 fyrir kynferðisofbeldi og 33 var nauðgað við yfirheyrslur eða í varðhaldi. 
Konur, sérstaklega á jaðri samfélagsins, eru þannig oft gerðar að skotmörkum vegna kyns síns, líkamar þeirra eru notaðir og gerðir að skotmarki á vissan hátt. Ungliðahreyfing Íslandsdeildar Amnesty International mun standa fyrir undirskriftasöfnun fyrir ákall til mexíkóskra stjórnvalda. Undirskriftasöfnunin fer fram á Austurvelli í kjölfar göngunnar og eru allir hvattir til að skrifa undir ákall samtakanna til mexíkóskra stjórnvalda um að grípa til tafarlausra aðgerða til að takast á við og fyrirbyggja pyndingar eða aðra illa meðferð af hálfu öryggissveita, sérstaklega hvað varðar kerfisbundið kynferðisofbeldi gagnvart konum.
Öllum er velkomið að mæta á skrifstofu Íslandsdeildar Amnesty International, Þingholtsstræti 27, 101. Reykjavík kl 11:30 á laugardag til að taka þátt eða sameinast okkur í göngunni sjálfri.