Viðræður innan Sameinuðu þjóðanna um samábyrgð ríkja á flóttafólki

 
Amnesty International hefur lengi þrýst á stjórnvöld heims um að gera meira þegar kemur að samábyrgð svo að tryggja megi réttindi flóttamanna og mun nú í september hrinda af stað byltingarkenndri alþjóðlegri herferð um flóttamannavandann
 

Viðræður eiga sér stað innan Sameinuðu þjóðanna til að ná sáttum um samábyrgð ríkja á flóttafólki fyrir árið 2018
Aðeins tæp vika er til stefnu áður en tillagan, sem getur umbylt ástandinu, verður lögð inn fyrir leiðtogafundinn nú í september
Afgerandi niðurstaða myndi gefa 20 milljónum flóttamanna á heimsvísu nýja von
Ríki hætta á að gera söguleg mistök með því að fórna réttindum flóttamanna fyrir sjálfhverfa þjóðarhagsmuni

Nú þegar aðeins nokkrir dagar eru til stefnu varar Amnesty International við því að hópur ólíklegra samherja, þar á meðal Ástralía, Kína, Egyptaland, Indland, Rússland, Pakistan og Bretland, hættir á að spilla einu tilrauninni sem er í burðarliðnum á heimsvísu til að koma á raunhæfum aðgerðum til að takast á við alþjóðlega flóttamannavandann sem hefur áhrif á líf um 20 milljón manns.
Í lok júlí stefna aðildararríki Sameinuðu þjóðanna (SÞ) á að hittast í New York til að leggja lokahönd á texta samnings í átt að alþjóðlegu samkomulagi um flóttamenn svo hægt sé að takast á við núverandi vanda sem og þá sem kunna að koma upp í framtíðinni. Á komandi dögum hafa ríki lokatækifæri til að breyta afstöðu sinni áður en niðurstöðuskjal viðræðnanna er lagt inn til samþykktar á leiðtogafundi SÞ í september.
„Nú þegar tíminn er að renna út til að leggja lokahönd á samning sem gæti gjörbreytt ástandinu, er svo margt sem hangir í lausu lofti. Milljónir flóttamanna um allan heim eru í bráðri þörf á aðstoð – 86% hafast við í fátækari löndum sem eru oft illa til þess búin að veita þeim skjól, á meðan mörg af ríkustu ríkjum heims hýsa fáa og gera minnst. Þessar kringumstæður eru í eðli sínu afar ósanngjarnar,“ segir Salil Shetty, framkvæmdastjóri Amnesty International.
„Þegar fleiri en 150 þjóðhöfðingjar og fulltrúar stjórnvalda safnast saman hjá SÞ nú í september til að leggja grunn að nýjum alþjóðlegum ramma til að finna lausn á flóttamannavandanum, ættum við að vera á barmi sögulegra framfara. Það sem vofir hins vegar yfir eru hugsanlega skammarleg söguleg mistök, þar sem að nokkur ríki fórna réttindum flóttamanna fyrir eigingjarna þjóðarhagsmuni.“
„Enn er þó tími til þess að forðast hengiflugið. Ásamt milljónum stuðningsmanna okkar um allan heim mun Amnesty International láta leiðtoga okkar vita að mistök verði ekki liðin.“
Frá því í nóvember 2015 hefur aðalframkvæmdastjóri SÞ, Ban Ki-moon, kallað eftir nýrri nálgun þegar kemur að því að bregðast við því mikla flæði sem er á flótta- og farandfólki. Í maí 2016 lagði hann fram nokkrar tillögur í skýrslu til allsherjarþingsins, þar á meðal um alþjóðlegt samkomulag um flótta- og farandfólk. Endanleg áætlun mun verða undirrituð á komandi vikum áður en hún verður samþykkt þann 19. september á allsherjarþingi SÞ, á fyrsta háttsetta leiðtogafundinum sem fjallar um flótta- og farandfólk og kynntur hefur verið sem: „Sögulegt tækifæri til þess að gera áætlun um bætt alþjóðleg viðbrögð“.    
Undirstöðuatriði nýja samningsins er samábyrgð á heimsvísu – ekkert land ætti að þurfa að gera meira en það sem er sanngjarnt og öll ríki ættu að viðurkenna þá sameiginlegu lögbundnu skyldu um að uppfylla réttindi fólks sem neyðst hefur til að yfirgefa heimili sín vegna stríðs eða ofsókna. Í stað þess að deila ábyrgðinni eru mörg ríki hins vegar að leyfa sér að halda áfram að koma ábyrgðinni yfir á aðra sem er ekki aðeins skammsýni heldur vinnur á endanum gegn sjálfu sér.
Amnesty International hefur lagt til áætlun í fimm liðum sem aðildarríki SÞ gætu stuðst við þegar kemur að því að taka á móti og hýsa flóttamenn á sanngjarnan hátt – út frá vergri þjóðarframleiðslu, atvinnuleysi og öðrum hlutlægum  mælikvörðum.
Samt sem áður virðast stjórnvöld vera á barmi þess að hafna stefnu leiðtogafundarins um samábyrgð og tína til þess ýmsar ástæður. Jafnvel orðalagið „sameiginleg ábyrgð“ er í hættu. Samkomulaginu um flóttamenn mun nú verða frestað um tvö ár vegna þess að sum ríki krefjast þess að það samsvari fullkomlega samkomulagi um fólksflutninga (e. migration).
Allar þessar afsakanir má rekja til skorts á pólitískum vilja; vilja til þess að halda áfram að reisa girðingar og að halda áfram eins og ekkert hafi í skorist og láta óátalda þá þjáningu sem hægt væri að koma í veg fyrir hjá milljónun manna.
„Tími þess að láta allt ganga sinn vanagang er liðinn. Þegar auðug ríki eru ekki að gera nærri því nóg þegar kemur að því að hýsa og aðstoða flóttamenn, er ljóst að hugmyndin um samábyrgð, sem er undirstöðuatriði alþjóðlega samkomulagsins, er löngu tímabær. Auðug og áhrifamikil ríki verða að hætta að koma með afsakanir og leggja lóð sín á vogarskálarnar,“ segir Salil Shetty.
„Alþjóðasamfélagið hefur komið saman áður til þess að bregðast við flóttamannavanda og SÞ hafa undanfarið samþykkt úrræði við álíka yfirgripsmiklum alþjóðlegum vandamálum. Raunhæft fyrirkomulag um samábyrgð getur bjargað milljónum frá eymd og dauða af völdum drukknunar eða sjúkdóma og boðið flóttamönnum raunverulegar, öruggar og löglegar flóttaleiðir undan stríði og átökum“.
Bakgrunnur:
Amnesty International hefur lengi þrýst á stjórnvöld heims um að gera meira þegar kemur að samábyrgð svo að tryggja megi réttindi flóttamanna og mun nú í september hrinda af stað byltingarkenndri alþjóðlegri herferð um flóttamannavandann.
Meðlimir og stuðningsmenn samtakanna um allan heim munu halda áfram að þrýsta á eigin stjórnvöld um að styðja sanngjarna og fölskvalausa samábyrgð sem gefur flóttamönnum raunverulegt tækifæri til þess að hefja nýtt líf í öryggi og með reisn.