Sýrlenski flóttamaðurinn og læknirinn Dr. Bashar Farahat stendur að ljósmyndasýningunni, Skilaboð frá flóttamannabúðunum, dagana 25. til 28. október, í samstarfi við Íslandsdeild Amnesty International.
Sýrlenski flóttamaðurinn og læknirinn Dr. Bashar Farahat stendur að ljósmyndasýningunni, Skilaboð frá flóttamannabúðum, dagana 25. til 28. október, í samstarfi við Íslandsdeild Amnesty International. Myndirnar sýna börn sem búa í flóttamannabúðunum í Líbanon þar sem 1,1 milljón flóttamanna frá Sýrlandi dvelur við einkar erfiðar aðstæður. Setningarnar sem prýða hverja mynd eru hluti af afrakstri barnanna sem sóttu smiðju í skapandi skrifum hjá Dr. Bashar Farahat í flóttamannabúðunum. Ljósmyndirnar tók Mohammed Abdullah og Shadi Jaber sá um uppsetningu.
Dr. Bashar Farahat mun opna ljósmyndasýninguna formlega þriðjudaginn 25. október kl. 17:00 í Hafnarborg – menningar og listamiðstöð Hafnarfjarðar og stendur opnunin til kl. 19:00.
Boðið verður upp á léttar veitingar.
Einnig verður gestum sýningarinnar boðið að skrifa skilaboð til barnanna í flóttamannabúðunum í Líbanon. Íslandsdeild Amnesty International í samstarfi við Dr. Bashar Farahat mun tryggja að skilaboðin frá Íslandi rati í réttar hendur.
Afnot af sýningarsal eru í boði Hafnarborgar – menningar og listamiðstöðvar Hafnarfjarðar.
Frítt er inn á sýninguna og allir velkomnir.
„Námskeiðinu var ætlað að veita börnunum svigrúm til að segja sögu sína – sögu sem er mörkuð af stríði og skelfingu, minningum um flótta og leit að hæli og vernd. Ég vildi gefa þeim rými til að deila sársauka sínum en einnig vonum, á þeirra eigin hátt. Börnin sungu, dönsuðu, grétu, brostu, drógu upp mynd af draumum sínum og stundum skrifuðu þau skilaboð frá búðunum. Setningarnar á myndunum valdi ég af kostgæfni úr skrifum barnanna á námskeiðinu,“ segir Dr. Bashar Farahat.
Nánar um Dr. Bashar Farahat.
Dr. Bashar Farahat er 32 ára læknir frá litlu þorpi í norðurhluta Sýrlands. Hann stundaði sérfræðinám í barnalækningum í Aleppo í Sýrlandi og var á þriðja ári af fjórum í starfsnámi á spítala þegar hann var handtekinn í júlí 2012 fyrir að vera andsnúinn stjórnvöldum. Hann var sakaður um þátttöku í mótmælum, fyrir að gera grein fyrir fjölda óbreyttra borgara sem féllu í valinn af völdum stjórnvalda og fyrir að hjálpa mótmælendum á bráðabirgðaspítala. Hann var leystur úr haldi í janúar 2013 en var handtekinn á ný í apríl sama ár. Bashar Farahat sætti margvíslegum pyndingum á meðan hann var í haldi.
„Ég var handtekinn árið 2012 og var í fangelsi í 168 daga. Þeir pynduðu mig en mér fannst lífið innan fangelsins enn erfiðara. Á meðan ég var í haldi sá ég varla til sólar. Það voru um 100-120 manns í haldi í litlum klefa (5m x 6m) svo við urðum að skiptast á að liggja eða standa. Þeir fóru með mig í yfirheyrslur þar sem þeir börðu mig með hnefum og málmstöng og eitt skipti var ég látinn hanga á höndunum. Þeir reyndu að fá mig til að viðurkenna aðild annarra. Ég gerði það ekki.“
Líf hans tók stakkaskiptum vegna handtöku hans. Þegar hann var leystur úr haldi í byrjun árs 2013 fékk hann ekki að snúa aftur í starfsnámið á spítalanum þar sem yfirvöld voru búin að setja hann á svartan lista. Þremur mánuðum síðar var hann handtekinn á ný. „Ég sat á kaffihúsi með hópi af fólki þegar öryggissveit kom til að handtaka blaðakonu sem var með okkur og starfaði á ólöglegri sjónvarpsstöð. Þeir handtóku okkur öll sem voru með henni. Klefinn okkar var jafnvel minni en hinn, hann var um 4 x 3,5m og það voru um 60 einstaklingar í klefanum. Ég var í haldi í 5 mánuði.“ Þegar Bashar var leystur úr haldi í seinna skiptið í september 2013 voru flestir vina hans komnir úr landi og því var lausn hans ekki jafn gleðileg og sú fyrri.
Bashar var síðar kallaður í stjórnarherinn eða ella yrði hann handtekinn í þriðja sinn. Hann neitaði að gangast við því og flúði því til Líbanon. Þar sem hann kom ólöglega inn í landið átti hann alltaf á hættu að vera handtekinn en það var ekki það eina sem hann óttaðist. „Vinir mínir í Sýrlandi voru handteknir og ég sá þá í sjónvarpinu segja að ég og annar vinur værum hryðjuverkamenn sem börðumst gegn stjórnvöldum. Þeir voru líklega neyddir til þess en það er ástæðan fyrir því að jafnvel í Líbanon var ég hræddur um að vera tekinn af lífi. Ég hef misst alla von um að komast aftur til Sýrlands.“
Eftir fimm mánuði í Líbanon leitaði hann til Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna sem aðstoðaði hann til að komast til Bretlands. Í mars árið 2015, eftir 16 mánaða dvöl í Líbanon, fór hann til Bretlands en þar fékk hann dvalarleyfi af mannúðarástæðum til fimm ára.
