Löngu tímabær ályktun samþykkt á vettvangi öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna

Langdregið stjórnmálavafstur og tímafrekar samningaviðræður hafa loksins leitt til ályktunar á vettvangi öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna um að hleypa óháðum eftirlitsaðilum Sameinuðu þjóðanna inn í Aleppo.

Langdregið stjórnmálavafstur og tímafrekar samningaviðræður hafa loksins leitt til ályktunar á vettvangi öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna um að hleypa óháðum eftirlitsaðilum Sameinuðu þjóðanna inn í Aleppo.
Ályktunin fylgir í kjölfar krefjandi samningaviðræðna um síðustu helgi þar sem sú vá vofði yfir að Rússar myndu í þriðja sinn á þremur mánuðum beita neitunarvaldi sínu.
„Heimurinn hefur beðið með öndina í hálsinum eftir því hvernig Sameinuðu þjóðirnar myndu bregðast við ástandinu í Aleppo. Þessi mikilvæga aðgerð átti sér stað alltof seint en hundruð þúsunda einstaklinga hafa krafið stjórnvöld í Sýrlandi og Rússlandi um að leyfa brottflutning á íbúum Aleppo og inngöngu óháðra eftirlitsaðila í Sýrland. Þúsundir íbúa sitja enn fastir á hernumdum svæðum í Austur-Aleppo og bíða klukkutímunum saman, í nístingskulda, eftir brottflutningi,“ sagði Sherine Tadros yfirmaður skrifstofu Amnesty International sem fer með málefni Sameinuðu þjóðanna.
„Brottflutningur á íbúum Aleppo hefur staðið yfir í marga daga og á þeim tíma höfum við orðið vitni að árásum á bílalestir – hvers vegna hefur það tekið svona langan tíma að stíga þetta mikilvæga skref? Eftirlitsaðilar á vegum Sameinuðu þjóðanna ættu ekki eingöngu að hafa eftirlit með ástandinu heldur að fá leyfi til að rannsaka stríðsglæpi. Nú þegar öryggisráðið hefur loks samþykkt að grípa til aðgerða í Aleppo verður það að taka frekari skref og senda eftirlitsaðila án tafar til allra þeirra svæða þar sem brottflutningur á fólki á sér stað. Ekki aðeins til Aleppo.“