Ótrúlegur fjöldi framhaldsskóla, félagsmiðstöðva og sveitarfélaga tóku þátt í Bréfamaraþoninu 2016

Met var slegið í bæði fjölda staða og framhaldsskóla sem tóku þátt í Bréfamaraþoni Íslandsdeildar Amnesty International árið 2016. 

Met var slegið í bæði fjölda staða og framhaldsskóla sem tóku þátt í Bréfamaraþoni Íslandsdeildar Amnesty International árið 2016. Viðburðir fóru fram á tæplega 30 stöðum víðs vegar um landið og að venju átti fjöldi einstaklinga veg og vanda að framkvæmd Bréfamaraþonsins í sínu sveitarfélagi. Á Akureyri, Egilsstöðum, Ísafirði og Höfn í Hornafirði fór Bréfamaraþonið fram á aðventunni, áttunda árið í röð og einstaklingar í Borgarnesi, Stykkishólmi, á Sauðárkróki og Kópaskeri tóku þátt, þriðja árið í röð. Margir stóðu að Bréfamaraþoninu í fyrsta sinn í ár, samanber á Ísafirði, þar sem undirskriftum var safnað í verslunarmiðstöðinni Neista og í Rammagerðinni.   
Fjöldi almenningsbókasafna lagði Bréfamaraþoninu jafnframt lið en Bókasafn Rangæinga og Menningarhús Árbæjar tóku þátt í fyrsta sinn og stóðu sig mjög vel.
Samtals var skrifað undir 11.226 bréf og kort á Bréfamaraþoninu.
Verðlaunavefsíða Íslandsdeildar Amnesty International, Bréf til bjargar lífi, hélt áfram að slá í gegn en samtals söfnuðust 30.553 undirskriftir þar. Langflestar undirskriftir bárust frá nemendum 36 framhaldsskóla og félagsmiðstöðvum eða samtals 25.640 undirskriftir, 19.874 frá framhaldsskólunum og 5766 frá félagsmiðstöðvum.  
Heildarfjöldi undirskrifta, stuðningskorta, sms- og netákallsaðgerða árið 2016 var 62.698.
Á Höfn í Hornafirði söfnuðust 1854 undirskriftir en Guðlaug Úlfarsdóttir á heiðurinn að því, enn eitt árið í röð, ásamt vöskum nemendum í framhaldsskólanum í Austur-Skaftafellssýslu. Í Borgarfirði stóðu Sigursteinn Sigurðsson og Ásta Björk Björnsdóttir fyrir Bréfamaraþoni en þar söfnuðust 1188 undirskriftir. Á skrifstofu samtakanna söfnuðust 1065 undirskriftir og stuðningskveðjur og á Egilsstöðum skipulagði Ragnhildur Rós Sigurðardóttir Bréfamaraþon og fékk 686 undirskriftir. Á Ísafirði söfnuðust 537 undirskriftir en Harpa Guðmundsdóttir stóð fyrir átakinu þar. Á Sauðárkróki stóð Auður Aðalsteinsdóttir fyrir Bréfamaraþoni og safnaði 660 undirskriftum. Frá Akureyri kom 801 undirskrift en Brynhildur Pétursdóttir, Hörður Ingólfsson og systurnar Emilía og Þuríður Baldursdætur stóðu þar fyrir átakinu. Bjarney Inga Sigurðardóttir hleypti Bréfamaraþoninu úr vör í Stykkishólmi og safnaði 485 undirskriftum. Á Kópaskeri stóð Halldóra Gunnarsdóttir fyrir viðburði í versluninni Skerjakollu og safnaði 138 undirskriftum.
Þá er gaman að segja frá því að nemendur í 7. til 9. bekk í Alþjóðaskólanum í Garðabæ tóku þátt í Bréfamaraþoninu á síðasta ári, annað árið í röð, og unnu stórt fræðsluverkefni í tengslum við átakið í samvinnu við kennara sinn, Pamala Hansford. Nemendurnir skrifuðu einnig allir löng stuðningsbréf frá eigin brjósti til þolenda mannréttindabrotanna og handskrifuðu bréf til stjórnvalda. Þau söfnuðu 495 undirskriftum og kveðjum.
Öllu þessu fólki þakkar Íslandsdeild Amnesty International hjartanlega fyrir stuðninginn, atorkuna og fórnfýsina í þágu þolenda mannréttindabrota.