Stjórnvöld í Tyrklandi hafa sagt upp 100.000 opinberum starfsmönnum í
stórfelldum hreinsunum.
Stjórnvöld í Tyrklandi hafa sagt upp 100.000 opinberum starfsmönnum í
stórfelldum hreinsunum. Amnesty International telur ákvörðunina vera
geðþóttaákvörðun sem hafa muni hörmuleg áhrif á líf og framfærslu viðkomandi eins
og greint er frá í nýrri skýrslu samtakanna.Skýrslan, sem ber heitið No end in sight:
Purged public sector workers denied a future in Turkey, greinir frá því að
þúsundir einstaklinga, þeirra á meðal læknar, lögreglumenn, kennarar, fræðimenn
og hermenn, hafi verið stimplaðir „hryðjuverkamenn“ og bannað að gegna opinberri
þjónustu. Þetta fólk á nú í mestu erfiðleikum með að láta enda ná saman.Andrew Gardner, rannsakandi Amnesty International í málefnum Tyrklands segir:
„Áhrifin af herferð stjórnvalda í kjölfar valdaránstilraunarinnar í Tyrklandi
eru enn að koma fram. Líf fjölmargra hefur verið lagt í rúst og gríðarlegur
fjöldi fólks hefur ekki einungis misst vinnu sína heldur líka starfsferil sinn
og líf ótal fjölskyldna hefur verið sett í algjört uppnám.“„Þetta fólk hefur verið stimplað sem „hryðjuverkamenn“ og getur ekki lengur
unnið á starfsvettvangi sínum og á í erfiðleikum með að finna aðra vinnu.“Skýrslan byggir á viðtölum við 61 einstakling í Ankara, Diyarbakır og
Istanbúl. Í henni er greint frá aðstæðum opinberra starfsmanna, sem áður bjuggu
við starfsöryggi en búa nú við kröpp kjör og eiga fáa valkosti. Viðmælendur
sögðu frá því að þeir eigi ekki kost á opinberri aðstoð og þurfi að lifa af
sparnaði sínum, þiggja aðstoð vina og fjölskyldna, fá sér svarta vinnu eða lifa
á því smáræði sem þeir geta fengið hjá verkalýðsfélögum sínum.Mörgum þeirra, sem hefur verið sagt upp, er bannað að vinna við störf sem
hið opinbera hefur umsjón með, eins og sem lögfræðingar eða kennarar. Eins geta
lögreglu- eða hermenn ekki fengið sambærileg störf í einkageiranum vegna
tilskipana stjórnvalda sem banna slíkt. Þeir fáu, sem geta leitað sér að starfi
í einkageiranum, til dæmis heilbrigðisstarfsfólk, eiga í erfiðleikum með að fá
sambærileg störf og svipuð laun.Vegabréf opinberra starfsmanna, sem sagt hefur verið upp í tengslum við
aðgerðir stjórnvalda, hafa verið tekin af þeim og þeir geta því ekki sótt um
störf erlendis. Kona, sem áður vann á skrifstofu forseta landsins sagði: „Þeir
leyfa okkur ekki að fara úr landinu, leyfa okkur ekki að vinna… hvað vilja þeir
að ég geri?“ Þó að réttlæta megi brottrekstur sumra, til dæmis hermanna sem tóku þátt í
valdaránstilrauninni, hafa stjórnvöld engin skýr viðmið varðandi það hverjum er
vikið úr starfi og hafa ekki réttlætt brottrekstur einstaklinga í hverju
tilviki fyrir sig. Sú almenna skýring að verið sé að berjast gegn hryðjuverkum
dugar ekki.Brottreksturinn hefur farið fram fyrir opnum tjöldum sem hefur gert lífið
enn erfiðara fyrir viðkomandi. „Þjóðfélagið leit á mig sem hetju. Nú er ég
álitinn hryðjuverkamaður og föðurlandssvikari,“ sagði fyrrum hermaður.
Fræðimaður, sem var rekinn úr starfi í ágúst 2016, sagði Amnesty International:
„Sonur minn vildi ekki fara í skólann, hin börnin réðust gegn honum og sögðu að
móðir hans væri hryðjuverkamaður og föðurlandssvikari.“Engir þeirra sem Amnesty International ræddi við hafa fengið skýringar á
brottrekstri sínum umfram almennar ásakanir um tengsl við hryðjuverkahópa. En
þrátt fyrir greinilegan geðþótta að baki brottrekstrunum er ekkert skilvirkt
áfrýjunarferli fyrir hendi fyrir opinbera starfsmenn sem mótmæla vilja
brottvikningu sinni. Nefnd sem lagt var til í janúar að setja á laggirnar til
að skoða þessi mál skortir sjálfstæði til að meta málin og getu til að grípa
til úrræða. Hún hefur enn ekki tekið til starfa.Fámennur hópur opinberra starfsmanna, sem sætt hafa brottvikningu, hefur
mótmælt opinberlega og verið áreittur af lögreglu, sumir hafa verið handteknir
og jafnvel hlotið illa meðferð. Fræðimaðurinn Nuriye Gülmen og kennarinn Semih
Özakça hafa nú verið í hungurverkfalli á þriðja mánuð til að mótmæla
brottvikningu sinni.Ef lokað er á starfsmöguleika 100.000 manns er slíkt greinilega pólitískar
ofsóknir gagnvart raunverulegum eða ætluðum pólitískum andstæðingum.Stjórnvöld verða að hætta þessum geðþóttabrottvikningum þegar í stað og
veita þeim aftur starf sem ekki hafa verið fundnir sekir um neina glæpi.
Tryggja verður fljótlegt og skilvirkt áfrýjunarferli fyrir þá sem reknir hafa
verið úr starfi svo að þeir geti hreinsað nafn sitt, fengið bætur og farið
aftur í sín fyrri störf.
