Útgáfuhóf í tilefni af útgáfu barnabókarinnar IMAGINE – Að hugsa sér

Íslandsdeild Amnesty International býður þér í útgáfuhóf í Listasafni Íslands sunnudaginn 8. október í tilefni af útgáfu barnabókarinnar IMAGINE – Að hugsa sér. Bókin er unnin í samvinnu við bresku deild Amnesty International en það er bókaútgáfan Orrusta sem gefur bókina út hér á landi í samstarfi við Íslandsdeild Amnesty International.

Íslandsdeild Amnesty International býður þér í útgáfuhóf í Listasafni Íslands sunnudaginn 8.
október í tilefni af útgáfu barnabókarinnar IMAGINE – Að hugsa sér. Bókin
er unnin í samvinnu við bresku deild Amnesty International en það er
bókaútgáfan Orrusta sem gefur bókina út hér á landi í samstarfi við Íslandsdeild
Amnesty International. Bókin kemur út í 15 löndum á ýmsum tungumálum á
fæðingardegi John Lennon, þann 9. október næstkomandi.

Í bókinni birtist textinn við hið ódauðlega lag Lennon, Imagine, í íslenskri þýðingu Þórarins Eldjárns. Textinn í laginu er túlkaður í fallegum myndum eftir franska myndlistarmanninn Jean Jullien og segir sögu
dúfu einnar sem heldur af stað í ferðalag til að flytja boðskap friðar og
vináttu um allan heiminn.

Bókin er prýðileg leið fyrir foreldra, forráðamenn og kennara til að opna umræður um frið, gæsku, styrjaldir og þjáningu. Hún fjallar líka um samkennd og von og mikilvægi þess að finna hjá sér hugrekki til að gera
heiminn betri. Yoko Ono, ekkja Lennon, sem skrifar formála að bókinni segir: „Það hefur aldrei verið eins mikil þörf á að koma á friði og einmitt í dag, svo ég held að orðin hans eigi ríkt erindi við
okkur.“

Í tilefni af útgáfunniverður blásið til hófs í Listasafni Íslands, sunnudaginn 8. október kl. 14-16. Þar
býðst yngstu gestunum að taka þátt í að útbúa litríkan fuglahóp sem mun fljúga um safnið og
dreifa skilaboðum um frið og von. Barnakór Ísaksskóla kemur og flytur lagið
fyrir viðstadda ásamt því að kaffihús safnsins verður opið.

Bókin fer í almenna dreifingu í byrjun nóvember en verður fáanleg í forsölu í Safnbúð Listasafns Íslands frá útgáfudegi og á meðan birgðir endast. Íslandsdeild Amnesty International hvetur alla félaga og velunnara, afa og ömmur, pabba og mömmur, frændur og frænkur, vini og vinkonur, að bjóða unga
fólkinu sínu með heimsókn í Listasafn Íslands á sunnudaginn og taka þátt í notalegri fjölskyldustund með okkur.