Eskinder Nega, þekktur blaðamaður í Eþíópu, hefur verið fangelsaður níu sinnum fyrir að sinna starfi sínu. Mál hans var tekið upp í alþjóðlegri og árlegri herferð Amnesty International, Bréf til bjargar lífi árið 2012. Hann var leystur úr haldi fyrr á þessu ári. Hann sendi stuðningsfólki Amnesty International bréf þar sem hann fjallar um fangavistina, hvernig hann þraukaði og hvers vegna raddir mannréttinda þurfa að heyrast.
Eskinder Nega, þekktur blaðamaður í Eþíópu, hefur verið fangelsaður níu sinnum fyrir að sinna starfi sínu. Mál hans var tekið upp í alþjóðlegri og árlegri herferð Amnesty International, Bréf til bjargar lífi árið 2012. Hann var leystur úr haldi fyrr á þessu ári. Hann sendi stuðningsfólki Amnesty International bréf þar sem hann fjallar um fangavistina, hvernig hann þraukaði og hvers vegna raddir mannréttinda þurfa að heyrast. Bréfið var birt fyrr á þessu ári í TIME og er hér þýtt í styttri útgáfu.
Kæra stuðningsfólk Amnesty International,
Frá árinu 1993 hef ég verið fangelsaður níu sinnum. Ég hef eytt næstum fimmtung af ævi minni í fangelsi fyrir það eitt að starfa sem blaðamaður. Í ár var ég leystur úr haldi eftir rúm sex ár í fangelsi. Ég var ákærður fyrir hryðjuverk þrátt fyrir að vera friðsamur maður.
Ég hef séð allar hliðar fangelsislífs. Mér hefur verið haldið í dimmum klefa sem var minni en tveir fermetrar að stærð. Þegar ég svaf var líkt og höfuð mitt snerti vegginn og fæturnir hurðina. Það var svo dimmt að ég sá ekki hendur mínar. Mér var hleypt á salerni tvisvar sinnum á dag. Enginn aðgangur var að sturtu.
Nýlega var ég í haldi í alræmda fangelsinu Maekelawi. Aðstæður þar voru hræðilegar. Fangelsið var yfirfullt, erfitt var að finna stað til að sofa á og hreinlæti var skelfilegt. Fangelsisyfirvöld kröfðust þess að ég hætti að skrifa en ég neitaði. Þá var ég til vandræða, erfiður fangi sem þurfti að einangra frá öðrum.
Ég var í fangelsi innan fangelsis. Svæðið mitt var þrír metrar á breidd og níu metrar á lengd. Það var ekki pláss til að ganga. Í rúm fjögur ár reyndu stjórnvöld að stöðva skrif mín. Ég hélt þó áfram að skrifa á pappa, blaðsnifsi eða annað sem ég gat fundið. Á einum tímapunkti skipti ekki máli hvað ég skrifaði, svo lengi sem ég hætti ekki að skrifa. Stjórnvöld reyndu allt til að brjóta mig niður en það tókst ekki.
Þegar mér var haldið í dimmum klefa vissi ég að samtök eins og Amnesty International töluðu fyrir mína hönd. Þessi vitneskja var mér mjög mikilvæg. Ég fékk stuðningskveðjur frá Amnesty International í gegnum fjölskyldu mína. Þær veittu mér styrk og hughreystu fjölskyldu mína. Ég er ánægður að hafa verið hvatning fyrir aðra að skrifa. Ég er stoltur af því. Ekkert sigrar ritað orð.
Árið 2018 var ég leystur úr haldi. Ástæðan var ekki sú að stjórnvöld hefðu skipt um skoðun heldur vegna þess að fólk krafðist þess. Samtakamáttur fólksins í nafni lýðræðis sigraði.
Við eigum að geta tjáð hug okkar án ótta og hefndaraðgerða. Ég hef aldrei efast. Að berjast fyrir mannréttindum er það rétta. Ég mun halda áfram að tjá skoðanir mínar hverjar sem afleiðingarnar verða. Ég verð ávallt þakklátur stuðningsfólki Amnesty International. Haldið áfram ykkar góða starfi. Rödd mannréttinda þarf að heyrast þar til allir eru frjálsir undan oki harðstjórnar.
Ykkar,
Eskinder Nega (fyrrum samviskufangi)
