Kúba: Baráttufólki fyrir mannréttindum sleppt úr haldi

Kúbversk yfirvöld hafa sleppt fjórum baráttumönnum fyrir mannréttindum úr fangelsi. Fjórmenningarnir voru handteknir í fjöldahandtökum vegna pólitískrar þátttöku í mars 2003 þar sem alls 75 mótmælendur voru handteknir.

Kúbversk yfirvöld hafa sleppt fjórum baráttumönnum fyrir mannréttindum úr fangelsi. Fjórmenningarnir voru handteknir í fjöldahandtökum vegna pólitískrar þátttöku í mars 2003 þar sem alls 75 mótmælendur voru handteknir. Fjórmenningarnir heita Omar Pernet Hernandez, 62 ára, Pedro Pablo Alvarez Ramos, 59 ára, José Gabriel Ramon Castillo, 50 ára, og óháði blaðamaðurinn Alejandro Gonzalez Raga, 48 ára. Fimmtíu og átta manns sem Amnesty International hefur skilgreint sem samviskufanga eru enn í haldi í fangelsum víða á Kúbu. Amnesty International fagnar lausn fanganna fjögurra, en krefst þess jafnframt að Raúl Castro leysi hina 58 fangana umsvifalaust úr haldi og tryggi málfrelsi á eyjunni. „Lausn kúbversku fanganna fjögurra er mjög jákvætt skref en við megum ekki gleyma hinum 58 sem eru enn í haldi í fangelsum víða á um Kúbu vegna þess eins að hafa tjáð pólitískar skoðanir sínar,“ sagði Kerrie Howard, framkvæmdastjóri bandarísku deildar Amnesty International. „Við vonum að lausn fanganna fyrir skömmu sé merki um væntanlegar breytingar á Kúbu, breytingar í átt að aukinni virðingu fyrir mannréttindum á borð við málfrelsi og félagafrelsi. “