Flugkennari vann mál fyrir áfrýjunardómstóli í Englandi þann 14. febrúar síðastliðinn. Hann var ranglega ásakaður um að hafa þjálfað ræningja flugvélanna sem notaðar voru í árásunum 11 september árið 2001 í Bandaríkjunum.
Lotfi Raissi Flugkennari vann mál fyrir áfrýjunardómstóli í Englandi 14. febrúar síðastliðinn. Hann var ranglega ásakaður um að hafa þjálfað ræningja flugvélanna sem notaðar voru í árásunum 11. september árið 2001 í Bandaríkjunum. Flugkennarinn, Lotfi Raissi, mun fara fram á bætur í ljósi þess að honum var ranglega haldið í varðhaldi í kjölfar alvarlegra misbresta í starfi bresku lögreglunnar. Lotfi Raissi hefur aldrei verið sakaður um neinn hryðjuverkatengdan glæp. Engu að síður þurfti hann að dvelja í fimm mánuði í Belmarsh-öryggisfangelsinu á meðan bandarísk stjórnvöld reyndu að fá hann framseldan til Bandaríkjanna. Framsalsbeiðnin var byggð á nokkrum minni háttar ákærum sem voru alls ótengdar hryðjuverkaglæpum. Áfrýjunardómstóllinn ályktaði að hin raunverulega ástæða fyrir framsalsbeiðninni væri ekki að koma Lotfi Raissi fyrir dóm á grundvelli þessara ákæra, heldur til þess að tryggja „veru hans í Bandaríkjunum svo hægt sé að rannsaka tengsl hans við árásirnar þann 11. september“. Lotfi Raissi talaði við Amnesty International árið 2006 um þjáningar sínar og réttindabaráttu: „Ég hef verið úthrópaður sem illræmdur hryðjuverkamaður, en það var afsannað fyrir dómstólum. Ég fer fram á opinbera og vel auglýsta afsökunarbeiðni til þess að hreinsa nafn mitt og til að reyna að bæta fyrir þetta misrétti. Ég vil fá líf mitt aftur.“ Bresk stjórnvöld hafa gefið í skyn að þau sé að íhuga hvort þau muni áfrýja úrskurði áfrýjunardómstólsins. Lotfi Raissi bíður enn afsökunarbeiðninnar. Bakgrunnur málsins: Lofti Raissi er breskur ríkisborgari af alsírskum uppruna. Hann var handtekinn 21. september árið 2001 vegna gruns um aðild að hryðjuverkum í tengslum við árásirnar hinn 11. september í Bandaríkjunum. Handtakan var byggð á upplýsingum sem bárust breskum yfirvöldum frá bandarísku ríkisstjórninni. Honum var sleppt eftir sjö daga yfirheyrslur en handtekinn strax aftur. Honum var haldið án ákæru í fimm mánuði í Belmarsh-fangelsinu. Í apríl 2002 skipaði dómari að hann skyldi látinn laus þar sem engar haldbærar sannanir voru fyrir hendi að hann hefði á nokkurn hátt verið viðriðinn hryðjuverk. Áfrýjunardómstóllinn staðfesti þessa niðurstöðu nú á dögunum. Hann hefur barist fyrir bótum og opinberri afsökunarbeiðni æ síðan.
