Sýrland: Samviskufangi leystur úr haldi

Sýrlensk yfirvöld slepptu dr. Aref Dalilah óvænt úr haldi þann 7. ágúst eftir að Sýrlandsforseti gaf honum upp sakir. Dalilah er fyrrum deildarforseti hagfræðideildar Aleppo háskóla og kunnur samviskufangi í Sýrlandi.

Dr. Aref Dalilah

Sýrlensk yfirvöld slepptu dr. Aref Dalilah óvænt úr haldi þann 7. ágúst eftir að Sýrlandsforseti gaf honum upp sakir. Dalilah er fyrrum deildarforseti hagfræðideildar Aleppo háskóla og kunnur samviskufangi í Sýrlandi.

Amnesty International fagnar lausn hans, en samtökin telja að slíkt hafi verið löngu tímabært og vona að í kjölfarið verði allir aðrar samviskufangar í Sýrlandi leystir úr haldi.

Dalilah var handtekinn í september 2001 og dæmdur í júlí 2002 fyrir að „reyna að breyta stjórnarskránni með ólögmætum hætti“. Hann hafði afplánað sjö af tíu ára dómi. Mikið af þeim tíma var honum haldið í einangrun í álmu fyrir pólitíska fanga í ‘Adra- fangelsi í Damaskus.

Talið er að heilsa Dalilah eigi þátt í því að honum var sleppt úr haldi, en henni hrakaði mjög meðan hann var í fangelsi.

Hann hefur haft blóðtappa í lungum, segastíflu, hjartabólgur og sykursýki. Hann fékk heilablóðfall í maí 2006 og missti í kjölfarið nokkra tilfinningu vinstra megin í líkamanum.

Dalilah hefur ekki fengið neinar upplýsingar um að lausn hans sé skilyrðum háð og veit ekki hvort ferðafrelsi hans verður takmarkað ef hann reynir að fara erlendis til að leita læknisaðstoðar.

Eftir að honum var sleppt úr haldi sagði Dalilah: „Ég er þakklátur fyrir allt sem Amnesty International hefur gert og öllum þeim sem hafa tekið þátt í aðgerðum í mína þágu. Við sameinumst í baráttunni fyrir réttlæti og lýðræði. Sú barátta heldur áfram“.

Dalilah var einn tíu þjóðþekktra einstaklinga sem voru handteknir fyrir aðild sína að því sem kallað var „Damaskusvorið“. Hann fékk lengstan dóm þeirra tíu. „Damaskusvorið“ vísar til skammvinns skeiðs í kjölfar valdatöku Bashar al-Assad sem forseta í júlí 2000, þegar stjórnvöld sýndu tjáningarfrelsi og umbótaviðleitni nokkurt umburðarlyndi.

Enn eru þó nokkrir þeirra, sem tengdust Damaskusvorinu, enn í fangelsi. Kamal Labwani og Habib Saleh, tveir þeirra sem handteknir voru eftir Damaskusvorið, hafa verið handteknir á nýjan leik. Labwani var dæmdur í 15 ára fangelsi fyrir lýðræðisbaráttu sína og Saleh er nú fyrir dómstólum fyrir að birta pólitískar greinar á netinu. Hundruð pólitískra fanga eru í haldi í Sýrlandi, þeirra á meðal margir samviskufangar.