Argentína hefur nýlega lagt afnámi dauðarefsingarinnar enn frekara lið með tveimur mikilvægum skrefum. Þau skref koma í kjölfar afnáms dauðarefsingarinnar í landinu.
Argentína hefur nýlega lagt afnámi dauðarefsingarinnar enn frekara lið með tveimur mikilvægum skrefum. Þau skref koma í kjölfar afnáms dauðarefsingarinnar í landinu. Með þessum skrefum ryður Argentína brautina fyrir önnur ríki að fylgja á eftir og með því að stíga þau varð Argentína sjötta ríkið til að fullgilda öll mannréttindaákvæði sam-ameríska mannréttindakerfisins.
Þann 2. september 2008 fullgilti Argentína aðra valfrjálsa bókun við alþjóðsamninginn um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi, en bókunin lýtur að afnámi dauðarefsingarinnar.
Í kjölfar þessa fylgdi fullgilding stjórnvalda á bókun við Ameríkusamninginn um mannréttindi um afnám dauðarefsingarinnar þann 5. september 2008, en Argentína varð tíunda ríkið til að fullgilda bókunina. Báðar þessir bókanir voru samþykktar án nokkurra fyrirvara.
Þessi mikilvægu skref koma einungis mánuði eftir að öldungadeild Argentínu samþykkti einróma lög þann 7. ágúst sem afnámu lög frá 1951. Með þeirri lagabreytingu var dauðarefsingin numin úr gildi fyrir alla glæpi, þar á meðal glæpi hermanna á stríðs- og fríðartímum og herréttir lagðir niður.
Aðgerðir argentínskra stjórnvalda á undanförnum mánuðum sýna eindreginn stuðning þeirra við afnám dauðarefsingarinnar um heim allan. Auk þess styðja þær við ákall José Miguel Insulza, framkvæmdastjóra Samtaka Ameríkuríkja til annarra ríkja að fylgja fordæmi Argentínu og afnema dauðarefsinguna í Norður- og Suður-Ameríku. Einungis nokkur ríki í álfunum, Bandaríkin, Gvatemala og nokkur ríki í Karíbahafinu leyfa enn dauðarefsingar.
Bakgrunnsupplýsingar:
Þann 10. september 2008 höfðu 137 ríki heimsins afnumið dauðarefsinguna í lögum eða framkvæmd.
Þessi þróun endurspeglaðist í ályktun 62/149, sem samþykkt var á allsherjarþingi SÞ þann 18. desember 2007, en þar var farið fram á að þjóðir heimsins hættu þegar í stað að taka fólk af lífi.
Önnur valfrjáls bókun við alþjóðasamninginn um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi var samþykkt á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna árið 1989. Bókun við Ameríkusamninginn um mannréttindi um afnám dauðarefsingarinnar var samþykkt á allsherjarþingi Samtaka Ameríkuríkja árið 1990.
Öll ríki sem eru aðilar að viðkomandi samtökum geta fullgilt þessa samninga og afnumið dauðarefsinguna, en leyft aðildarríkjum að beita dauðarefsingunni á stríðstímum ef þau hafa þann fyrirvara á þegar þau fullgilda bókunina.
Argentína fullgilti báða bókanirnar án nokkurra fyrirvara. Önnur ríki sem hafa fullgilt alla mannréttindasamninga Ameríkuríkja eru: Costa Rica, Ekvador, Mexíkó, Panama, Paragvæ og Úrúgvæ
Síðasta aftakan í Argentínu fór fram árið 1916.
