Íran bindur enda á aftökur barna

Íran hefur skipað öllum dómstólum að hætta að fella dauðadóma yfir barnungum afbrotamönnum.

Frá aðgerð Amnesty International í Þýskalandi gegn aftökum barna

Íran hefur skipað öllum dómstólum að hætta að fella dauðadóma yfir barnungum afbrotamönnum.

Samkvæmt tilkynningu frá Hossein Zabhi aðstoðarríkissaksóknara beinir nýleg tilskipun þeim fyrirmælum til allra dómara að styðjast við tilmæli nefndar, en í tilmælunum er farið fram á að dauðadómar yfir barnungum afbrotamönnum verði fyrst mildaðir í ævilangt fangelsi, og síðan breytt í 15 ára fangelsi.

Í viðtali vísaði Hossein Zabhi til allra glæpa sem dauðadómar liggja við.

Ekki er þó vitað hvort að tilskipunin nær til þeirra, sem dæmdir hafa verið fyrir morð, en þar eru viðurlögin qesas (endurgjöld af sama tagi). Írönsk yfirvöld hafa ætíð haldið því fram að munur sé á qesas og öðrum afbrotum sem refsað er fyrir með dauðadómi.

Forseti hæstaréttar landsins staðfesti þennan greinarmun nýlega, eða þann 13. október. Þessi munur er ekki viðurkenndur að alþjóðalögum, en þau leggja algert bann við að ríkið taki barnunga afbrotamenn af lífi.

Íran er um þessar mundir eina ríkið í heiminum sem vitað er til að hafi tekið barnunga afbrotamenn af lífi árið 2008. Venjulega eru slíkir afbrotamenn ekki teknir af lífi fyrr en þeir hafa náð átján ára aldri en Amnesty International veit dæmi þess að börn allt niður í sextán ára hafi verið tekin af lífi. Samkvæmt upplýsingum samtakanna hafa að minnsta kosti sex barnungir afbrotamenn verið hengdir á þessu ári.

Amnesty International hvetur írönsk yfirvöld til að birta tilskipunina opinberlega og taka af öll tvímæli um að þau ætli að virða alþjóðlegar mannréttindaskuldbindingar sínar með því að láta tilskipunina einnig ná til þeirra sem hafa verið dæmdir fyrir morð. Auk þess ætti íranska þingið að sjá til þess að tilskipunin verði leidd í lög eins fljótt og auðið er. Amnesty International hvetur einnig æðra löggjafarvald landsins, varðráðið, til að styðja þessar breytingar.

Samtökin vona að þetta verði upphafið að algeru afnámi dauðarefsingarinnar í Íran. Amnesty International hvetur einnig til löggjafar í samræmi við ákvæði alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi og samnings um réttindi barnsins, en Íran er aðili að báðum þessum samningum.