Góðar fréttir: baráttumönnum sleppt úr haldi í Malasíu

Malasísk yfirvöld slepptu þremur baráttumönnum fyrir mannréttindum úr haldi þann 9. maí. Þeir eru allir félagar í Réttindahópi Hindúa (Hindu Rights Action Force (HINDRAF)).

Malasíski þjóðfáninn

Malasísk yfirvöld slepptu þremur baráttumönnum fyrir mannréttindum úr haldi þann 9. maí. Þeir eru allir félagar í Réttindahópi Hindúa (Hindu Rights Action Force (HINDRAF)).

Mennirnir þrír voru meðal fimm baráttumanna úr HINDRAF sem handteknir voru og hnepptir í varðhald í desember 2007 á grundvelli öryggislöggjafar ríkisins fyrir að skipuleggja mótmæli án tilskilinna leyfa. Tveimur hafði áður verið sleppt úr haldi þann 5. apríl 2009.

Fregnir herma að einn hinna handteknu, T Vasanthakumar, hafi verið leystur úr haldi með skilyrðum, þar á meðal að hann ræddi ekki við fjölmiðla og sætti takmörkunum á ferðafrelsi sínu.

Amnesty International fagnar því að mönnunum fimm skuli hafa verið sleppt en telur að þeir hafi verið samviskufangar og að engin rök hafi verið fyrir handtöku þeirra. Rangt er að setja nokkur skilyrði fyrir lausn þeirra.

Óeirðalögregla í Malasíu

HINDRAF er bandalag sem berst fyrir réttindum Malasíubúa af indversku bergi brotnu sem eru jaðarhópur í landinu. Það skipulagði fjöldafund í nóvember 2007 til að leggja fram bænaskjal vegna brota á fólki af indverskum uppruna frá því að landið hlaut sjálfstæði.

Lögreglan, sem hafði neitað að leyfa fjöldafundinn, brást við honum með ofbeldi gegn mótmælendum, þar sem vatnsbyssum og táragasi var beitt og mótmælendur lamdir með kylfum með þeim afleiðingum að margir slösuðust.

Þeir, sem sleppt var, eru lögfræðingarnir Uthayakumar Ponnusamy og Manoharan Malayalam, auk T Vasanthakumar, ritara HINDRAF.

Öryggislöggjöf landsins hefur ekki verið numin úr gildi og enn er óviss fjöldi fólks í haldi án ákæru. Löggjöfin leyfir að fólki sé haldið án ákæru eða réttarhalda.

Amnesty International hefur hvatt til þess að löggjöfin verði numin úr gildi eða breytt.

Yfirvöld virðast láta handtaka fólk fyrir það eitt að tjá pólitískar skoðanir sínar eða halda friðsamlega fundi til að mótmæla aðgerðum yfirvalda. Enn er fólk í haldi fyrir þessar sakir. Amnesty International hefur hvatt malasísk stjórnvöld til að hætta að nota geðþóttahandtökur sem tæki til að bæla pólitískt andóf.

Lestu meira

Malaysian opposition newspapers suspended in ongoing government crackdown (News, 25 March 2009)
Eight charged in Malaysian internet clampdown (News, 17 March 2009)