Stjórnvöld í Tógó ákváðu þann 23. júní síðastliðinn að afnema dauðarefsinguna eftir að þing landsins samþykkti samhljóða frumvarp þess efnis.
Stjórnvöld í Tógó ákváðu þann 23. júní síðastliðinn að afnema dauðarefsinguna eftir að þing landsins samþykkti samhljóða frumvarp þess efnis.
Tógó varð þá 15. ríki Afríkusambandsins og 94. ríkið í heiminum til að afnema dauðarefsinguna fyrir alla glæpi.
„Þetta land hefur ákveðið að hafa heilbrigt dómskerfi sem takmarkar dómsmistök… og tryggir rétt einstaklingsins,“ sagði dómsmálaráðherra landsins, Kokou Tozoun, þegar stjórnvöld ákváðu fyrst að leggja fram frumvarp þess efnis þann 10. desember 2008, á alþjóðlega mannréttindadaginn. „Þetta (nýja) kerfi fer ekki lengur saman við refsilöggjöf sem leyfir dauðarefsinguna og gefur dómsvaldinu algert vald með óafturkræfum afleiðingum.“
Tógó hætti að taka fólk af lífi fyrir þremur áratugum. Síðast var fólk tekið af lífi í landinu árið 1978 og seinast var dauðadómur kveðinn upp árið 2003.
Þingmenn í Tógó fylgja þannig þeim meginstraumi í Afríku um þessar mundir sem hnígur að því að afnema dauðarefsinguna.
Búrúndí innleiddi nýja refsilöggjöf í apríl 2009, þar sem dauðarefsingin var afnumin. Ýmis önnur ríki, sérstaklega Malí, vinna nú að endurbótum á löggjöf sinni og íhuga að afnema dauðarefsinguna með öllu.
