Góðar fréttir: sex gambískum blaðamönnum sleppt úr haldi

Sex gambískum blaðamönnum sem sátu í fangelsi fyrir ærumeiðingar og undirróður var sleppt úr haldi í byrjun september eftir að forseti landsins náðaði þá.

Þjóðfáni Gambíu

Sex gambískum blaðamönnum sem sátu í fangelsi fyrir ærumeiðingar og undirróður var sleppt úr haldi í byrjun september eftir að forseti landsins náðaði þá.

Amnesty International fagnar því að þeim hafi verið sleppt úr haldi og telur að þeir hafi verið dæmdir í fangelsi að ósekju.

Sexmenningarnir voru dæmdir þann 6. ágúst 2009 í tveggja ára fangelsi og sektaðir um 250.000 dalasis (1.300.000ískr). Þeim var haldið í Mile 2-fangelsinu.

Amnesty International taldi blaðamennina vera samviskufanga og hvatti til þess að þeir yrðu leystir tafarlaust og án skilyrða úr fangelsi.

Blaðamennirnir sex eru: Emil Touray, framkvæmdastjóri blaðamannafélags Gambíu; Sarata Jabbi Dibba, aðstoðarframkvæmdastjóri blaðamannafélagsins, Pa Modou Faal, gjaldkeri blaðamannafélagsins; Pap Saine og Ebou Sawaneh, útgefandi og ritstjóri dagblaðsins Point; og Sam Sarr, ritstjóri dagblaðsins Foroyaa.

Þeir voru handteknir þann 15. júní 2009 eftir að birt var yfirlýsing frá blaðamannafélaginu þar sem Yayha Jammeh forseti var gagnrýndur fyrir „óviðeigandi ummæli“ í ríkissjónvarpi landsins um morðið á þáverandi ritstjóra dagblaðsins Point, Deyda Hydara, sem myrtur var árið 2004. Morðið hefur enn ekki verið upplýst.

Að sögn fjölmiðla sagði forsetinn í viðtali í ríkissjónvarpi Gambíu þann 8. júní síðastliðinn, að rannsókn yfirvalda á morðinu á Hydara hefði stöðvast og lagði til að blaðamenn „spyrðu Deyda Hydara hver drap hann“.

Fjölmiðlar í Gambíu hafa lengi sætt ofríki stjórnvalda. Dómskerfi landsins sýnir stöðugt minna sjálfstæði í málum er varða blaðamenn og baráttufólk fyrir mannréttindum.

Amnesty International gaf í nóvember 2008 út skýrsluna Gambia: Fear Rules sem lýsir versnandi mannréttindaástandi í landinu.

Amnesty International, ásamt margvíslegum óháðum hreyfingum í Afríku, skipulagði baráttudag þann 22. júlí 2009, til að mótmæla áframhaldandi mannréttindabrotum í Gambíu, þar á meðal kúgun í garð fjölmiðla.

LESTU MEIRA

Six Gambian journalists sentenced to prison (News, 7 August 2009)
Day of Action takes place for freedom in Gambia (News, 20 July 2009)
Gambia: Fear rules (Report, 11 November 2008)