Góðar fréttir: mexíkósk frumbyggjakona laus úr haldi eftir þrjú ár í fangelsi

Amnesty International fagnar lausn samviskufangans Jacintu Francisco Marcial, sem var haldið saklausri í fangelsi í þrjú ár sökuð um að hafa rænt sex alríkislögreglumönnum.

Jacinta Francisco Marcial

Amnesty International fagnar lausn samviskufangans Jacintu Francisco Marcial, sem var haldið saklausri í fangelsi í þrjú ár sökuð um að hafa rænt sex alríkislögreglumönnum.

Marcial, sem er sex barna móðir af Otomí uppruna, frá Santiago Mexquititlán (í Querétarohéraði í Mexíkó), var dæmd í 21 árs fangelsi í desember 2006.

Amnesty International hefur farið fram á að fá í hendur öll gögn um hina tilefnislausu málsókn á hendur henni. Þá fara samtökin fram á að hún fái fullar miskabætur fyrir rangláta og ólögmæta fangelsun.

Jacinta Francisco Marcial, sem er 46 ára gömul, var látin laus að tilskipan yfirdómara við endurupptöku málsins eftir að áfrýjun féll henni í hag fyrr á þessu ári. Ákvörðun dómarans var óhjákvæmileg eftir að skrifstofa dómsmálaráðherra tilkynnti að málið gegn Jacintu yrði látið niður falla vegna skorts á sönnunum.

Jacinta Francisco Marcial var fundin sek um að hafa rænt sex meðlimum mexíkósku alríkislögreglunnar. Þeir héldu því fram að Jacinta og aðrir umsjónarmenn sölubása hafi haldið þeim í gíslingu þegar áhlaup var gert á seljendur ólöglegs DVD-efnis, á Santiago Mexquititlán torginu í mars 2006.

Amnesty International lýsti því yfir að Jacinta væri samviskufangi, eftir að hafa komist að þeirri niðurstöðu þann 18. ágúst 2009 að engar sannanir væru gegn henni og ástæða sakfellingarinnar lægi í því að hún væri fátæk frumbyggjakona.

Lausn hennar vekur upp alvarlegar spurningar um áreiðanleika málshöfðunarinnar í heild og varpar skýru ljósi á annmarka við rannsókn málsins.

Amnesty International hefur farið fram á að öll atriði rannsóknarinnar verði yfirfarin af hlutlausum aðila, þar með talin gögn er varða hina tvo sakborninga málsins, Albertu Alcánara og Teresu González. Þær voru sakfelldar fyrir sama glæp og Jacinta.