Góðar fréttir: dómur fanga á dauðadeild mildaður

Amnesty International fagnar því að dauðadómi yfir mongólska fanganum Buuveibaatar hefur verið breytt í fangelsisdóm.

Frá aðgerð Amnesty International í Mongólíu gegn dauðarefsingunni

Amnesty International fagnar því að dauðadómi yfir mongólska fanganum Buuveibaatar hefur verið breytt í fangelsisdóm. Forseti Mongólíu, Ts. Elbegdorj, mildaði dóminn.

Buuveibaatar, sem er 33 ára gamall, var fundinn sekur um morð á kærasta fyrrum kærustu sinnar í janúar 2008. Faðir hans segir að um sjálfsvörn hafi verið að ræða.

Amnesty International fagnar því að forseti Mongólíu hafi mildað dóminn, en það er einungis fyrsta skrefið. Mongólska ríkisstjórnin ætti að lýsa yfir aftökustoppi og afnema dauðadóma allra þeirra sem eru enn á dauðadeild í Mongólíu.

Buuveibaatar var dæmdur til dauða í héraðsdómi Bayangol í höfuðborg Mongólíu, Úlan Bator, þann 1. ágúst 2008.

Daginn eftir morðið var Buuveibaatar handtekinn og færður á lögreglustöð. Þar var honum haldið yfir nótt og hann yfirheyrður án þess að hann fengi að hitta lögmann. Faðir hans segir að Buuveibaatar hafi játað á sig glæpinn eftir barsmíðar lögreglunnar.

Buuveibaatar hafði nýtt öll möguleg úrræði dómskerfisins og náðun forseta var það eina sem gat bjargað honum. Hann mun afplána fangelsisdóm.

Að minnsta kosti fimm voru teknir af lífi í Mongólíu árið 2008. Allt er viðkemur dauðarefsingu í landinu er flokkað sem ríkisleyndarmál.

Fjölskyldur og lögfræðingar fólks á dauðadeild fá enga tilkynningu áður en aftaka fer fram og líkinu er ekki skilað til fjölskyldunnar. Aðstæður á dauðadeild eru sagðar vera lélegar.

Amnesty International hvetur stjórnvöld til að afnema dauðarefsinguna eins fljótt og verða má.

LESTU MEIRA:
Mongolia: Call for pardon for Mongolian on death row, Buuveibaatar (Urgent Action, 30 July 2009)