Góðar fréttir: Stjórnarandstöðuleiðtogi í Eþíópíu leystur úr haldi

Amnesty International fagnar því að leiðtogi stjórnarandstöðunnar í Eþíópíu, Birtukan Mideksa, var leystur úr haldi þann 6. október síðastliðinn. Amnesty International taldi hana vera samviskufanga.

 

Birtukan Mideksa

 

Amnesty International fagnar því að leiðtogi stjórnarandstöðunnar í Eþíópíu, Birtukan Mideksa, var leystur úr haldi þann 6. október síðastliðinn. Amnesty International taldi hana vera samviskufanga.

 

Hún er leiðtogi stjórnmálaflokksins Eining fyrir lýðræði og réttlæti. Hún var handtekin þann 28. desember 2008 fyrir að brjóta gegn skilmálum forsetanáðunar.

Birtukan Mideksa var fyrst handtekin og ásökuð um landráð í nóvember 2005 eftir þing- og sveitastjórnarkosningar í maí 2005, sem stjórnarflokkurinn vann. Stjórnarandstaðan fullyrti að kosningasvik hefðu verið stunduð.

Almenningur mótmælti í höfuðborginni, Addis Ababa, en yfirvöld börðu mótmælin niður af mikilli hörku. Öryggissveitir skutu 187 manns til bana og særðu 765. Að minnsta kosti 6 lögregluþjónar eru taldir hafa látist.

 

Birtukan Mideksa og aðrir stjórnarandstæðingar, þingmenn, blaðamenn og baráttufólk fyrir mannréttindum voru ákærð fyrir landráð. Réttað var yfir henni og hún dæmd í lífstíðarfangelsi.

Eftir 18 mánuði í fangelsi var Birtukan Mideksa og margir aðrir, sem ákærðir voru með henni, náðuð og leyst úr haldi eftir að hún gerði samning við stjórnvöld og skrifaði afsökunarbréf.

 

Í nóvember 2008 ræddi Birtukan Mideksa um aðdraganda þess að hún var náðuð á fjöldafundi í Svíþjóð.

Þegar hún snéri aftur til Addis Ababa kröfðust stjórnvöld þess að hún drægi yfirlýsingu sína til baka innan þriggja daga.

Hún varð ekki við kröfu þeirra og því var hún handtekin á ný þann 28. desember í Addis Ababa. Stuttu síðar var náðun hennar afturkölluð og lífstíðardómurinn yfir henni gekk aftur í gildi.

 

Yfirvöld verða nú að tryggja að tjáningar- og félagafrelsi verði virt og vernduð.