Góðar fréttir: alþjóðlegur samningur gegn þvinguðum mannshvörfum gengur loks í gildi

Hinn 20. desember 2006 samþykkti allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna alþjóðlegan samning gegn þvinguðum mannshvörfum.[1] Þessi mikilvægi samningur getur nú öðlast gildi þar sem tuttugu ríki hafa fullgilt hann.

 

Mæðurnar á Plaza de Mayo í Buenos Aires í Argentínu, sem berjast fyrir upplýsingum um afdrif horfinna barna sinna

 

Hinn 20. desember 2006 samþykkti allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna alþjóðlegan samning gegn þvinguðum mannshvörfum.[1] Þessi mikilvægi samningur getur nú öðlast gildi þar sem tuttugu ríki hafa fullgilt hann.[2] Markmið samningsins er að koma í veg fyrir þvinguð mannshvörf, leiða sannleikann í ljós þegar slíkir glæpir eru framdir, refsa þeim sem ábyrgð bera á þvinguðum mannshvörfum og veita fórnarlömbum og fjölskyldum þeirra skaðabætur.

Amnesty International hefur barist fyrir gerð samningsins í meira en aldarfjórðung og leggja samtökin nú áherslu á að öll aðildarríki Sameinuðu þjóðanna gerist aðilar að honum og skuldbindi sig til að fara að ákvæðum hans. 

Amnesty International fagnar þessum mikilvæga áfanga og hvetur um leið öll ríki heims til að virða samninginn og stöðva þvinguð mannshvörf.  Samningurinn er mikilvægur áfangi í baráttunni gegn þvinguðum mannshvörfum, sem hafa valdið og valda enn bæði fórnarlömbum og fjölskyldum þeirra mikilli þjáningu.
Þvingað mannshvarf á sér stað þegar maður er handtekinn eða rænt fyrir hönd ríkisins. Yfirvöld neita þá að viðkomandi sé í haldi eða leyna dvalarstað hans og firra hann þannig allri lagavernd. 

Afleiðingar af þvinguðum mannshvörfum eru skelfilegar. Þeir sem hverfa eru oft pyndaðir  og sæta grimmilegri, ómannlegri og vanvirðandi meðferð. Í mörgum tilvikum eru þeir myrtir og líkin falin. 
Fjölskyldumeðlimir og aðrir sem standa nærri þeim sem yfirvöld láta hverfa vita ekkert um afdrif ástvinarins eða  hvort hann er lífs eða liðin.

Stjórnvöld nota þvinguð mannshvörf sem kúgunartæki til að bæla niður andóf og stjórnarandstöðu og til að ofsækja trúarhópa, stjórnmálahreyfingar og fólk af ákveðnum uppruna.
Ísland undirritaði samninginn hinn 1. október 2008 en á eftir að fullgilda hann. Þvinguð mannshvörf eru mjög alvarleg mannréttindabrot sem verður að stöðva. Íslandsdeild Amnesty International hvetur því íslensk yfirvöld til að fullgilda samninginn.
 
[1] International Convention for the Protection of All Persons from Enforced Disappearance
[2] Þau 20 ríki sem hafa fullgilt samninginn eru: Albanía, Argentína, Bólivía, Búrkína Fasó, Chile, Kúba, Ekvador , Frakkland, Þýskaland, Hondúras, Írak, Japan, Kasakstan, Malí, Mexíkó, Nígería, Paragvæ,Senegal,  Spánn and Úrúgvæ.