Meira en 10.000 manns sem búa í Ambatta í höfuðborg Tsjad, N’Djamena, eiga ekki lengur á hættu að sæta þvinguðum brottflutningi.
Rústir í Tsjad eftir þvingaða brottflutninga
Meira en 10.000 manns sem búa í Ambatta í höfuðborg Tsjad, N’Djamena, eiga ekki lengur á hættu að sæta þvinguðum brottflutningi. Íbúar í Ambatta þökkuðu Amnesty International fyrir aðgerðir í þeirra þágu. Aðgerðirnar höfðu mikil áhrif á þá ákvörðun að hætta brottflutningunum.
Ambatta-nefndin, sem var stofnuð til viðræðna við stjórnvöld og til að verja réttindi íbúa Ambatta, lét Amnesty International vita að yfirvöld í Tsjad hafa samþykkt beiðni nefndarinnar um endurskipulagningu á Ambatta og að nefnd hafi verið stofnuð til að hafa umsjón með því verki. Fyrir hönd allra íbúa Ambatta hefur Ambatta-nefndin beðið fyrir kveðjur og þakkir til allra félaga í Amnesty International. Íbúarnir segja að líf þeirra hefði verið lagt í rúst hefðu fyrirætlanirnar náð fram að ganga.
„Aðgerðir ykkar í baráttu okkar skiptu sköpum um það að þvinguðu brottflutningunum var hætt. Þið hafið fært þúsundum íbúa Ambatta von“, Ambatta-nefndin, 24. júní 2011.
Íbúar Ambatta fengu að vita í maí 2010 að þeir yrðu að yfirgefa heimili sín fyrir október til að rýma fyrir félagslegum íbúðum stjórnvalda. Íbúar Ambatta áttu enga hlutdeild í þessari ákvörðun og fengu ekki boð um bætur eða annað húsnæði.
Þvingaðir brottflutningar eru eitt meginmannréttindavandamálið í Tsjad. Þúsundir fórnarlamba þvingaðra brottflutninga, sem farið hafa fram í N’Djamena frá því í febrúar 2008, bíða enn eftir úrlausn sinna mála. Amnesty International berst áfram í þágu þeirra.
