Verkalýðsfrömuðurinn Su Su Nway frá Mjanmar var leyst úr haldi í vikunni, ásamt samlöndum sínum Zarganar og Zaw Htet Ko Ko.
Verkalýðsfrömuðurinn Su Su Nway frá Mjanmar var leyst úr haldi í vikunni, ásamt samlöndum sínum Zarganar og Zaw Htet Ko Ko. Þau sættu öll pyndingum og annarri illri meðferð í fangelsi og þjáðust af heilsubresti af þeim sökum.
Þau eru meðal tæplega 200 annarra sem stjórnvöld ákváðu að veita frelsi í mánuðinum. Félagar í Íslandsdeild Amnesty International og aðrir, hafa barist fyrir lausn þeirra í gegnum árin. Mál Su Su Nway var til að mynda tekið upp á alþjóðlegu bréfamaraþoni samtakanna í fyrra og voru hundruð aðgerðakorta send frá Íslandi til að þrýsta á stjórnvöld í Mjanmar að láta hana lausa.
Verkalýðsfrömuðurinn Su Su Nway var ætlað að afplána átta og hálfs árs dóm í afskekktu fangelsi fjarri fjölskyldu sinni og ástvinum. Aðstæður í fangelsinu voru slæmar og fullnægjandi læknisaðstoð ekki til staðar. Su Su Nway er félagi í Lýðræðishreyfingu Mjanmar (NLD, National League for Democracy) sem Aung San Suu Kyu stofnaði árið 1989. Stjórnvöld í Mjanmar dæmdu Su Su Nway seka á grundvelli laga sem jafnan er beitt í landinu til að þagga niður í friðsömum pólitískum andstæðingum.
Su Su Nway var handtekin þann 13. nóvember árið 2007 fyrir að stilla upp skilti sem sýndi andstöðu hennar við stjórnvöld. Mótmælaskiltinu kom hún fyrir nálæg hóteli í Yangon þar sem sérstakur eftirlitsfulltrúi Sameinuðu þjóðanna gisti á þeim tíma. Eftirlitsfulltrúinn var staddur í Mjanmar til að meta ástand mannréttinda í landinu eftir að stjórnvöld brutu með harðri hendi á bak aftur friðsöm mótmæli almennings í september árið 2007. Ári síðar var Su Su Nway dæmd í tólf og hálfs árs fangelsi sem síðar var mildað eftir áfrýjun.
Zarganar er þekktur grínisti, leikari og leikstjóri frá Mjanmar. Þann 4. júní 2008, þegar hann var 48 ára gamall, var hann dæmdur í 35 ára fangelsi fyrir að hafa tekið upp myndbönd af svæðum sem urðu illa úti eftir að hvirfilbylurinn Nargis reið yfir landið. Zarganar hafði gagnrýnt ríkisstjórnina harðlega fyrir að hindra aðstoð frá öðrum löndum og var tilgangur myndbandanna að gefa fólki möguleika á því að meta raunverulega þörf fórnarlamba fyrir aðstoð.
Zarganar
Zarganar var dæmdur á grundvelli laga um rafbúnað sem eru svo óljós að í raun eiga allir sem hafa undir höndum myndavél, upptökuvél eða tölvu á hættu að verða dæmdir.
Zaw Htet hlaut 10 ára fangelsisdóm í október 2007 fyrir að „ógna almannaró” með þátttöku sinni í Saffron byltingunni árið 2007. Stuttu eftir handtökuna tjáði faðir Zaw Htet Amnesty International að sonur hans hafi verið pyndaður í varðhaldi.
Zaw Htet var meðlimur í 88 stúdentahreyfingunni og var meðal þeirra sem reyndu að nýta sér þekkingu sína á tölvum og internetinu til að komast hjá ritskoðun og hafa samband við umheiminn. Í ágúst og september árið 2007 gerðu stjórnvöld áhlaup að heimili hans og ógnuðu fjölskyldu hans í Yangon.
Amnesty International fagnar lausn þeirra og þakkar öllum þeim sem tóku þátt í að þrýsta á yfirvöld í Mjanmar. Starfinu er þó ekki lokið því fjöldi pólitískra fanga situr enn á bak við lás og slá og mikilvægt að alþjóðasamfélagið haldi áfram að krefjast þess að allir pólitískir fangar í Mjanmar verði leystir úr haldi.
