Jabbar Savalan sat í fangelsi í Aserbaídsjan í 11 mánuði fyrir skrif á Facebook. Hann var látinn laus þann 26. desember eftir að forseti landsins náðaði hann.
„Við látum ekki hræða okkur með hótunum um fangelsun eða refsingu. Þeir geta fangelsað okkur, en þeir geta ekki bugað okkur. Málfrelsið er okkar réttur eins og það er réttur allra. Við munum halda áfram baráttu okkar“ – Jabbar Savalan
Jabbar Savalan sat í fangelsi í Aserbaídsjan í 11 mánuði fyrir skrif á Facebook. Hann var látinn laus þann 26. desember eftir að forseti landsins náðaði hann.
Íslandsdeild Amnesty International var ein þeirra deilda, sem tók mál hans upp (sjá hér). Við fögnum því að hann hafi verið látinn laus en krefjumst þess að dómurinn yfir honum verði felldur niður.
Eftir að honum var sleppt úr haldi sagði Jabbar við Amnesty International:
„Það er gott að vera aftur með vinum mínum. Mér líður vel núna þegar ég get eytt tíma með þeim og fjölskyldu minni. Amnesty International er alþjóðlegt tákn um mannréttindi og frelsi, ekki bara í Aserbaídsjan, heldur alls staðar í heiminum. Ég er þakklátur fyrir allt ykkar starf og annarra sem berjast fyrir frelsi í Aserbaídsjan.“
Jabbar Savalan var handtekinn og ákærður fyrir að hafa fíkniefni undir höndum, daginn eftir að hann skrifaði á Facebook og hvatti til mótmæla gegn stjórnvöldum, í anda mótmælanna í Egyptalandi. Hann var dæmdur í fangelsi þrátt fyrir blóðprufu sem sýndi að hann hafði ekki notað fíkniefni. Dómurinn studdist að mestu við játningu, sem fengin var með þvingunum og án þess að hann hefði aðgang að lögfræðingi.
