Góðar fréttir: Forseta palestínska þingsins sleppt úr haldi!

Ísraelsk yfirvöld slepptu forseta paletínska þingsins, Aziz Dweik, úr haldi þann 19. júlí síðastliðinn eftir sex mánaða varðhald án réttarhalda.

 

Ísraelsk yfirvöld slepptu forseta paletínska þingsins, Aziz Dweik, úr haldi þann 19. júlí síðastliðinn eftir sex mánaða varðhald án réttarhalda.

Hann var handtekinn þann 19. janúar 2012 á leið sinni í gegnum hereftirlitsstöð á Vesturbakkanum. Fimm dögum síðar fór hann fyrir rétt þar sem dómari afhenti honum skipun, undirritaða af herforingja, um sex mánaða varðhald án dómsúrskurðar.

Hvorki Aziz Dweik né lögfræðingur hans fengu nein gögn um ástæður varðhaldsvistarinnar.

Hægt er að hneppa fólk í varðhald án dómsúrskurðar (án ákæru eða réttarhalda) í allt að sex mánuði, og hægt er að framlengja þá varðhaldsvist endalaust. Föngum er haldið á grundvelli „leynilegra sönnunargagna“ sem ísraelsk heryfirvöld segjast ekki geta ljóstrað upp af öryggisástæðum. Það þýðir að fangarnir geta ekki véfengt varðhaldsvistina.

Í samtali Amnesty International við Aziz Dweik stuttu eftir lausn hans var honum sagt frá aðgerðum félaga í Amnesty International í hans þágu og sagði hann að fyrra bragði: „Alþjóðlegur þrýstingur hafði veruleg áhrif. Ég gat séð að Ísraelarnir fundu fyrir þrýstingnum og lögfræðingurinn minn sagði það sama. Ég stend í mikilli þakkarskuld við hvert og eitt ykkar, Amnesty International og öll hin samtökin sem börðust fyrir frelsi mínu. Yfirleitt eru varðhöld án dómsúrskurðar endurnýjuð aftur og aftur en mitt var aðeins til sex mánaða. Það er vegna þess að það var þrýstingur. Þegar ég var handtekinn þá hélt ég að það yrði til langs tíma, hermennirnir höguðu sér eins og þeir gætu gert hvað sem er, þeir höfðu fengið skipun um að skjóta mig ef ég hreyfði mig, getið þið ímyndað ykkur? Mér líður vel núna heima hjá mér, virkilega vel og ég þakka ykkur og bið ykkur um að halda áfram að vinna gegn óréttlátum handtökum.“