Ég er sönnun þess að bréf ykkar bera árangur – góðar fréttir af bréfamaraþoninu!

Ég er sönnun þess að bréf ykkar bera árangur. 

„Ég er sönnun þess að bréf ykkar bera árangur.

Ef þú heldur að það sé gamaldags að skrifa bréf og tilgangslaust að setja blek á blað á tímum Facebook og Twitter skaltu hugsa um sögu mína.

Ég heiti Birtukan Mideksa og bréf ykkar færðu mér frelsi.

Ég eygði eitt sinn enga von um frelsi. Ég er einstæð móðir og fyrrverandi leiðtogi stjórnarandstöðuflokks í Eþíópíu. Ég var handtekin árið 2005 og dæmd í lífstíðarfangelsi eftir að flokkur minn tók þátt í mótmælum í kjölfar kosninga í landinu.

Ég framdi engan glæp. Ráðist var gegn mér fyrir það eitt að ég tjáði pólitískar skoðanir mínar með friðsamlegum hætti. Í raun er ég heppin að vera á lífi: Öryggissveitir brugðust við mótmælunum með því að drepa 187 manns og særa 765 til viðbótar.

Stjórnvöld í Eþíópíu héldu að þau gætu bælt andóf með því að læsa andstæðinga sína inni um ókomna tíð. Ég hafði verið í einangrun í Kaliti-fangelsi svo mánuðum skipti þegar þátttakendur í bréfamaraþoni Amnesty komu mér til hjálpar. Þúsundir einstaklinga kröfðust þess að ég hlyti frelsi.

Bréf ykkar vernduðu mig á versta tímabili ævi minnar. Þið voruð rödd mín þegar rödd mín heyrðist ekki. Bréf ykkar héldu voninni lifandi þegar neyðin var mest.

Það er Amnesty International að þakka að ég hlaut frelsi í október 2010.

Ég er svo þakklát fyrir bréf ykkar og aðgerðir í mína þágu. Ég hvet ykkur til að halda áfram lífsbjargarverkum ykkar og grípa til aðgerða í þágu annarra.“

Friðarkveðja,

Birtukan Mideksa 

„Takk fyrir að muna eftir mér og fyrir öll póstkortin sem þið senduð mér.“

Einn af fimm af fyrrverandi meðlimum PGGE-flokksins. Fimmmenningunum var haldið langtímum saman í einangrun í Miðbaugs-Gíneu frá 2008 þar til þeim var sleppt í júní 2011. 

 „Stuðningur Amnesty International er ein af ástæðunum fyrir því að mér var sleppt. Ég fann fyrir samhug í skilaboðum ykkar.“

Musaad Suliman Hassan Hussein, bedúínskur rithöfundur og aðgerðasinni sem var í varðhaldi án ákæru í tvö og hálft ár í Egyptalandi fyrir að kalla eftir því að réttindi bedúína á Sínaí-skaganum væru virt. Hann var leystur úr haldi í júlí 2010. 

 „Hver einn og einasti íbúi samfélags okkar þakkar ykkur af öllu hjarta fyrir aðgerðir ykkar sem hafa gert okkur kleift að lifa og halda áfram starfi okkar.“

Skilaboð til Amnesty International frá friðarsamfélaginu San José de Apartadó í Kólumbíu sem hefur neitað að taka afstöðu í vopnuðum átökum í landinu. Íbúar þess eru í stöðugri hættu vegna afstöðu sinnar.  

„Í kjölfar bréfamaraþonsins sem Amnesty International skipulagði og allra þeirra bréfa sem okkur bárust var fjölskyldunni leyft að heimsækja Gao í annað sinn þann 12. janúar 2013.“ 

Geng He, eiginkona mannréttindalögfræðingsins Gao Zhisheng, sem situr í fangelsi í Kína fyrir störf sín. 

 „Ég hef ekki fengið betri jólagjöf í þrjú ár eða síðan eiginmaður minn féll frá en jólagjöfin var kveðjur og jólakort alls staðar að úr heiminum. Þakka ykkur fyrir að halda minningu hans á lofti og gera mál hans þekkt um allan heim. Ég vil þakka öllum þeim sem gáfu sér tíma og sýndu mér hluttekningu í þjáningum mínum.“ 

Ana Montilla, eiginkona Juan Almonte Herrea frá Dóminíska lýðveldinu. Juan Almonte Herrea hvarf sporlaust þann 28. september 2008. Samkvæmt vitnisburði handtók lögreglan hann daginn sem hann hvarf en málið hefur ekki verið rannsakað. 

„Ég vil þakka ykkur öllum fyrir áhugann sem þið hafið sýnt og birtist í fjölmörgum bréfum sem mér bárust hvaðanæva úr heiminum. Sem varaforseti Gvatemala hef ég það markmið, áður en forsetatíð Otto Perez Molina lýkur, að bæta verulega aðstæður fólks í landinu, sérstaklega kvenna og stúlkna.“

Roxana Baldetti, varaforseti Gvatemala, eftir að þrýst var á stjórnvöld Gvatemala í bréfamaraþoni 2012 að taka upp mál Maríu Isabel Franco sem var aðeins 15 ára gömul þegar henni var nauðgað og hún myrt árið 2001. Málið hefur aldrei verið rannsakað til hlítar. 

 „Í dag er ég innilega þakklátur fyrir að vera á lífi og frjáls. Þó ég sé aðeins laus til bráðabirgða er ég hræddur um að án stuðnings frá Amnesty International væri ég enn í fangelsi. “

Jean-Claude Roger Mbede sem var dæmdur í þriggja ára fangelsi fyrir samkynhneigð og “tilraun til samkynhneigðar” sem telst vera glæpsamlegt athæfi í Kamerún. Honum var sleppt úr haldi í júlí 2012. 

 „Amnesty International er tákn fyrir mannréttindi og frelsi, ekki aðeins í Aserbaídsjan heldur hvar sem er í heiminum. Ég er þakklátur fyrir hina miklu vinnu samtaka ykkar og annarra samtaka sem berjast fyrir frelsi í Aserbaídsjan.”

Samviskufanginn Jabbar Savalan var náðaður og leystur úr haldi nokkrum dögum eftir að bréf úr bréfamaraþoninu 2011 bárust til Aserbaídsjan. Hann hafði verið fangelsaður eftir að hafa kallað eftir mótmælum gegn stjórnvöldum á Facebook.