Hafez Ibrahim stóð í fyrsta skipti frammi fyrir aftökusveit árið 2005. Hann hélt að þetta yrði sitt síðasta andartak.
Hafez Ibrahim stóð í fyrsta skipti frammi fyrir aftökusveit árið 2005. Hann var leiddur inn í lítið port í jemensku fangelsi fyrir framan röð af lögreglumönnum með riffla í hönd. Hann hélt að þetta yrði sitt síðasta andartak. Hafez hafði skrifað erfðaskrá. Eina hugsun hans var um áfallið sem móðir hans myndi fá þegar hún frétti af aftöku hans.
Rétt áður en hann átti að vera skotinn var farið með hann aftur inn í klefann sinn, án útskýringa.
„Ég vissi ekki neitt, ég skildi ekkert hvað var að gerast. Ég frétti síðar að Amnesty International hefði sent ákall til jemenska forsetans um að stöðva aftöku mína og að skilaboðin hefðu komist til skila,“ sagði Hafez.
Hafez var í fangelsi, ákærður fyrir morð sem hann framdi ekki. Hann var á leið í brúðkaup í heimbæ sínum þegar nokkir menn reyndu að stela af honum riffil sem hann bar og í átökunum hljóp skot úr byssunni. Hafez var einungis 16 ára gamall. Unglingspilturinn fór í felur af ótta við að verða refsað fyrir morð en eftir tvo mánuði ákvað hann að gefa sig fram við yfirvöld.
Eftir stutt réttarhöld, kvað dómarinn úrskurðinn sem Hafez óttaðist mest: dæmdur til dauða. Hafez var sannfærður um að hann væri blóraböggull. Sakfelling hans var byggð á vitnum sem voru ekki viðstödd réttarhöldin og þar á meðal voru nokkrir sem drógu framburð sinn til baka.
Dauðadeildin
„Dauðadómurinn kom mér að óvörum. Ég var leiður yfir því að hafa ekki fengið réttlæti, ekki einu sinni réttláta málsmeðferð. Í Jemen er ekkert réttlæti eða miskunn. Ef einhver er drepinn, geldur einhver fyrir það með lífi sínu, óháð sekt eða sakleysi,“ sagði Hafez.
Eftir réttarhöldin var hann settur í fangaklefa með 40 öðrum föngum sem flestir voru fullorðnir. „Ég mun aldrei gleyma fyrsta deginum í fangelsinu. Ég var mjög ungur og vissi ekki hverju ég ætti von á. Fangi hafði verið tekinn af lífi þennan sama dag, það var mjög dapurlegt,“ sagði Hafez.
Eftir að fyrstu aftöku hans var frestað ákvað Hafez að berjast fyrir máli sínu og fór það fyrir hæstarrétt í Jemen. „Ég var bjartsýnn því ég raunverulega trúði því að mistök hefðu verið gerð við fyrstu réttarhöldin.“
Vonir hans urðu fljótt að vonbrigðum. Hæstiréttur hafnaði áfrýjuninni og dæmdi hann til dauða á ný. Settur var dagur fyrir aftöku hans þann 8. ágúst 2007. Málsmeðferðin sem hann hlaut fékk mikið á hann en það stöðvaði hann ekki í því að halda áfram að berjast fyrir lífi sínu.
Í örvæntingafullri tilraun til að forðast aftöku náði hann að komast yfir farsíma sem hafði verið smyglað inn í fangelsið. Hann hafði samband við Lamri Chirouf, fyrrum rannsakanda Amnesty International í London og sagði: „Það er verið að fara að taka okkur af lífi.“ Það varð kveikjan að alþjóðlegri herferð til að þrýsta á forsetann á að stöðva aftökuna í annað sinn.
„Það var verið að undirbúa mig fyrir aftöku þegar fangelsisstjórinn boðaði mig til sín. Allir fangarnir héldu að þetta yrði í síðasta sinn sem þeir myndu sjá mig á lífi. Þegar ég var kominn inn á skrifstofu hans horfði hann á mig og sagði: Til hamingu, hætt var við aftöku þína. Ég var sendur til baka í klefa minn eftir að hafa forðast dauðann enn og aftur,“ lýsti Hafez.
Hafez var að lokum leystur úr haldi 30. október 2007. „Þegar mér var hleypt út neitaði ég að fara upp í bíl, ég vildi bara njóta ferska loftsins. Ég vildi ganga, anda að mér frelsinu og finna fyrir rigningunni. Í hvert sinn sem fætur mínir snertu jörðina, leit ég niður til að vera viss um að það væri ekki fangelsisgólfið. Ég trúði því ekki að þetta væri að gerast, ég gat varla talað. Ég fékk gæsahúð um allan líkamann þegar ég kom heim í þorpið mitt. Aldrei hafði mér dottið í hug að ég myndi snúa þangað aftur á lífi,“ sagði hann.
Nýtt líf
Samkvæmt nýrri rannsókn frá Amnesty International er Jemen aðeins eitt af níu löndum í heiminum sem hefur tekið fanga af lífi árlega síðustu fimm ár. Árið 2013 er vitað um a.m.k. 13 fanga sem voru líflátnir og þrír aðrir fengu dauðadóm.
Hafez segir að hann muni aldrei gleyma dögum sínum á dauðadeildinni en hryllileg lífsreynsla hans hefur þó ekki hindrað hann í að elta drauma sína. Í dag er hann 29 ára lögfræðingur sem aðstoðar unglinga á dauðadeildum í Jemen. Hann á einnig 16 mánaða dóttur sem hann nefndi eftir starfsmanni Amnesty International sem vann að máli hans. Hann stefnir á doktorsnám eftir að hann lýkur mastersnámi á komandi ári.
„Réttlæti var og er enn heilagt fyrir mér. Enn þann dag í dag líður mér eins og einn af föngunum þegar ég fer inn í fangelsi. Ég finn enn fyrir ógæfu fanganna. Ég ákvað að læra og gera eitthvað úr sjálfum mér svo ég gæti hjálpað þeim sem eru í fangelsi.“
