Frumbyggjasamfélaginu Sawhoyamaxa hefur verið veittur réttur til að snúa aftur til lands síns eftir að forseti Paragvæ skrifaði undir lög 11. júní um endurheimtingu lands þeirra. Þetta er stór sigur fyrir samfélagið sem hefur barist fyrir réttindum sínum í rúm 20 ár.
Frumbyggjasamfélaginu Sawhoyamaxa hefur verið veittur réttur til að snúa aftur til lands síns eftir að forseti Paragvæ skrifaði undir lög 11. júní um endurheimtingu lands þeirra. Þetta er stór sigur fyrir samfélagið sem hefur barist fyrir réttindum sínum í rúm 20 ár.
Horacio Cartes, forseti landsins, skrifaði undir lög sem þingið samþykkti í maí sem veitir ríkinu rétt til eignarnáms á 140 ferkílómetra landi og skila því til Sawhoyamaxa ásamt skaðabótum til núverandi landeiganda.
Eftir að hafa verið svipt landi sínu í tvo áratugi hefur samfélagið þurft að skrimta við hættulegar aðstæður og án aðgangs að grunnþjónustu. Loksins hefur Paragvæ tekið raunveruleg skref til að veita Sawhoyamaxa landréttindi sín.
Þetta er stund sem margar fjölskyldur í Sawhoyamaxa dreymdi aldrei um að yrði að veruleika. Fólkið var vant því að komið væri fram við það sem annars flokks borgara og áttu því erfitt með að ímynda sér að einn daginn tæki þingið upp mál þeirra og enn síður að forseti landsins tæki afstöðu þeim í hag.
Carlos Mareco, leiðtogi Sawhoyamaxa, gat ekki annað en tárast þegar hann heyrði fréttirnar eftir tvegga áratuga erfiða baráttu fyrir dómstólum. „Í dag er eins og við séum að koma úr fangelsi, mörg okkar gráta því þetta er tilfinningaþrungin stund“.
Um 160 fjölskyldur í Sawhoyamaxa hafa barist fyrir landi sínu. Þær hafa búið við hliðina á stórum þjóðvegi þar sem aðgengi að heilsu, fæði og menntun er nánast ekkert.
Menn og konur, ungir sem aldnir börðust við að draga fram lífið með nánast ekkert í höndunum. Matur og vatn var af skornum skammti. Hitastigið gat farið allt upp í 40 gráður og allir voru skelfingu lostnir í hvert sinn sem að vörubíll þaut fram hjá óstöðugum híbýlum þeirra.
„Við bjuggum við hliðina á veginum við hræðilegar aðstæður. Margir úr samfélaginu létust af slysförum eða vegna veikinda. Enginn sýndi okkur virðingu. Núna erum við í sigurvímu. Ég er mjög hamingjusöm en ég græt vegna þess að amma mín, faðir minn og margir í fjölskyldu minni fengu ekki þetta tækifæri sem ég hef í dag til að njóta landsins okkar. Ég er svo þakklát öllum“ sagði Aparicia González sem er hluti af Sawhoyamaxa samfélaginu.
Leiðin í átt að sigri var löng og ströng. Lagaleg barátta Sawhoyamaxa hófst árið 1991 þegar samfélagið hóf lögsókn fyrir landréttindum sínum á tveimur svæðum í norðurhluta Paragvæ. Fimmtán árum síðar, eftir að hafa ekki fengið nein jákvæð viðbrögð frá yfirvöldum, fóru þau með mál sitt til Mannréttindadómstóls Ameríkuríkja.
Árið 2006 úrskurðaði Mannréttindadómstóllinn samfélaginu í hag en það tók átta ár áður en Paragvæ tók afdráttarlaus skref til að hlíta dómnum.
Árið 2009 tók Amnesty International mál þeirra að sér og hafa fjölmargir þrýst á yfirvöld til að finna lausn á málinu og tryggja Sawhoyamaxa land sitt. Land er lífsnauðsynlegt fyrir frumbyggja. Án þess eru lifnaðarhættir þeirra og lífsafkoma í hættu. Án lands geta samfélög þeirra ekki ræktað mat, stundað veiðar eða viðhaldið mennningu sinni. Án lands geta þau varla dregið fram lífið, enn síður að þeim vegni vel.
Frumbyggjar Paragvæ eru flestir ósýnilegir – þeim er mismunað og neyðast til að lifa við bágstaddar aðstæður. Fátækt og ólæsi er mun hærra á meðal þeirra heldur en annarra íbúa Paragvæ.
Þetta er mikill sigur fyrir Sawhoyamaxa-frumbyggjanna sem getur loksins snúið aftur til síns heima. Paragvæ ætti að nýta þennan meðbyr til að taka á málum annarra frumbyggjasamfélaga sem enn er neitað um aðgang að landi sínu.
Samkvæmt opinberum tölum eru um 108.600 frumbyggjar í Paragvæ – 1,7 % af íbúum landsins en líklega er þetta vanmat á raunverulegum tölum.
Annað frumbyggjasamfélag – Yakye Axa – er einnig að bíða eftir aðgangi að sínu landi jafnvel þó að samkomulag hafi náðst á milli ríkisins og landeiganda árið 2012.
Paragvæ hefur sýnt vilja til að taka á réttindamálum Sawhoyamaxa og nú er aðeins hægt að bíða og sjá hve lengi önnur samfélög þurfa að bíða eftir lausn mála sinna.
