Mannréttindadómstóll Ameríku afhjúpar skort á rannsókn á morði unglingsstúlku í Gvatemala

Úrskurður Mannréttindadómstóls Ameríkuríkja um að yfirvöld í Gvatemala hafi brugðist því að rannsaka hörmulegt morð á unglingsstúlku sendir sterk skilaboð til stjórnvalda um heim allan að ofbeldi gegn konum verður ekki umborið.

Úrskurður Mannréttindadómstóls Ameríkuríkja um að yfirvöld í Gvatemala hafi brugðist því að rannsaka hörmulegt morð á unglingsstúlku sendir sterk skilaboð til stjórnvalda um heim allan að ofbeldi gegn konum verður ekki umborið.

Málið var sótt af móður Maríu Isabel Veliz Franco, 15 ára stúlku sem var nauðgað, hún pynduð og myrt á grimmilegan hátt í Gvatemala árið 2001. Í úrskurði réttarins í lok júlí kom ekki einungis fram að yfirvöld í Gvatemala hefðu brugðist því að rannsaka morðið heldur einnig að það hafi brugðist því að vinna gegn ofbeldi og mismunun gegn konum sem er rótgróið í menningunni, gegnsýrir samfélagið í Gvatemala og leiddi til þess að brestir voru á rannsókn málsins.

Lærdómur af þessu máli verður aðeins dreginn þegar öll morð á konum og stúlkum í Gvatemala verða tekin alvarlega, áþreifanleg skref tekin til að fyrirbyggja ofbeldi gegn konum og skapað verður öruggt samfélag með virðingu allra að leiðarljósi.

Í desember 2001 var Maríu Isabel Veliz Franco rænt í Gvatemalaborg. Nokkrum dögum síðar fannst lík hennar. Henni hafði verið nauðgað, hendur og fætur hennar voru bundnar með gaddavír, hún hafði verið stungin, kyrkt og sett í poka. Andlit hennar var afmyndað eftir hnefahögg, líkami hennar þakinn smáum stungusárum, reipi var utan um háls hennar og neglur voru sveigðar aftur.

Vitni lögðu fram gögn sem báru kennsl á meinta gerendur en skrifstofa saksóknara brást því að rannsaka það nánar.

Grimmilegt líkamlegt og kynferðislegt ofbeldi sem María Isabel varð fyrir eftir að henni var rænt, einkennir því miður hundruð morða á konum og stúlkum í Gvatemala. Í fyrra voru 522 konur myrtar samkvæmt opinberum tölum.

Dómstóllinn gat þess að yfirvöld í Gvatemala hefðu gert tilraunir til þess að takast á við þetta ofbeldisfulla andrúmsloft en á sama tíma er hlutfall refsileysis fyrir slíka glæpi hátt þar sem enn er ekki refsað fyrir meirihluta ofbeldisverka sem leiða til dauða kvenna.

Amnesty International kallar eftir því að stjórnvöld í Gvatemala framkvæmi að fullu í samræmi við úrskurð Mannréttindadómstóls Ameríkuríkja.

Bakgrunnur

Rosa Elvira Franco Sandoval, móðir Maríu Isabel, hefur lengi barist ákaflega fyrir því að yfirvöld rannsaki dauða dóttur sinna og hefur í kjölfarið þurft að standa frammi fyrir dauðahótunum og áreiti frá óþekktum aðilum.

Rosa Elvira fór með mál dóttur sinnar fyrst til mannréttindanefndar Ameríkuríkja árið 2004 og síðar fyrir Mannréttindadómstól Ameríkuríkja vegna sífelldra tafa á rannsókn yfirvalda í Gvatemala á málinu.

Í úrskurðinum kemur fram: „staðalímyndir kynjanna [í Gvatemala] hafði neikvæð áhrif á rannsóknina þar sem skuldinni [fyrir morðið] var skellt á fórnarlambið og fjölskyldu hennar og þar með var lokað á aðrar rannsóknarleiðir.“

Rétturinn fyrirskipaði ríknu til að framkvæma skilvirka rannsókn til að finna hina ábyrgu, rétta yfir þeim og refsa fyrir dauða Maríu Isabel auk þess að efla og bæta lagarammann til að vernda konur og stúlkur gegn ofbeldi.

Amnesty International tók upp málið og var Íslandsdeild Amnesty International með mál hennar í netákalli og bréfamaraþoni árið 2012 (sjá nánar hér: http://www.amnesty.is/netfrettir/safn/nr/2424 ). Árið 2013 fékk Roxana Baldetti varaforseti Gvatemala rúmlega 1000 bréf frá félögum Amnesty um heim allan til að kalla eftir aðgerðum í máli hennar.