Það er fagnaðarefni að samviskufanginn, Ángel Amílcar Colón Quevedo, hafi verið leystur úr haldi eftir fimm ár í varðhaldi án réttarhalda. Ángel sætti pyndingum í varðhaldi.
Ángel Colón var handtekinn af lögreglu í Tijuana í Norður-Mexíkó þar sem hann ferðaðist frá Hondúras til Bandaríkjanna í mars 2009.
Það er fagnaðarefni að samviskufanginn, Ángel Amílcar Colón Quevedo, hafi verið leystur úr haldi eftir fimm ár í varðhaldi án réttarhalda. Ángel sætti pyndingum í varðhaldi.
Ángel Colón var handtekinn af lögreglu í Tijuana í Norður-Mexíkó þar sem hann ferðaðist frá Hondúras til Bandaríkjanna í mars 2009. Hann sætti pyndingum af hálfu lögreglu og hersins og var m.a. barinn, kæfður og niðurlægður vegna kynþáttar síns. Hann var neyddur til að skrifa undir falska yfirlýsingu sem var notuð til að bendla hann við glæpsamlegt athæfi. Hann dró yfirlýsinguna til baka þegar hann var færður fyrir dómara og tilkynnti yfirvöldum um pyndingar sem hann sætti en þau létu hjá líða að rannsaka.
Ríkissaksóknari í Mexíkó hefur nú samþykkt að fella niður ákærur á hendur Ángel Colón og hefur hann nú verið leystur úr haldi án skilyrða.
„Ángel Colón sætti pyndingum af hálfu mexíkóskra yfirvalda og hefur þurft að eyða nokkrum árum af lífi sínu í varðhaldi. Mál hans er svívirðilegt“, sagði Erika Guevara Rosas, framkvæmdastjóri Ameríkudeildar Amnesty International.
Mexíkósk yfirvöld geta og verða að gera meira til að tryggja að lögreglumenn og hermenn beiti ekki pyndingum sem og að allar tilkynningar um pyndingar verði rannsakaðar skjótt og ítarlega. Þau verða að koma í veg fyrir að óréttlætið sem Ángel Colón þurfti að þola endurtaki sig.
Ángel Colón tilheyrir Garífuna, samfélagi í Mið-Ameríku sem á rætur sínar að rekja til Afríku, og telur Amnesty International að varðhaldið, pyndingarnar og ákærur hafi komið til vegna kynþáttamismunar og stöðu hans sem óskráðs farandverkamanns.
Þegar hann var tekinn af lögreglu árið 2009 var hann barinn í rifbeinin, neyddur til að ganga á hnjánum, sparkað var í hann og hann kýldur í magann. Því næst var bundið fyrir augu hans og hann færður á herstöð þar sem hann heyrði óp annarra fanga. Honum var hótað að það sama yrði gert við hann og hann ítrekað barinn. Plastpoki var settur yfir höfuð hans þar til hann var nærri kafnaður. Hann var berháttaður og þvingaður til að þrífa skó annarra fanga með tungunni ásamt öðrum niðurlægjandi athöfnum. Ítrekað var hann kallaður helvítis negri („pinche negro“).
„Ég myndi vilja að þeir sem frömdu þennan verknað verði dregnir til ábyrgðar“, sagði Ángel Colón við fulltrúa Amnesty International þegar hann var heimsóttur í fangelsið. Beiðni mín til allra sem sýndu mér samhug og eru á móti pyndingum og mismunun, er að þeir haldi áfram að vera á verði. Handan við sjóndeildarhringinn eru nýir tímir. Ég er ánægður með það sem er að gerast.“
Lausn Ángels er fyrsta skrefið sem mexíkósk yfirvöld hafa tekið til að hann geti endurheimt reisn sína, frelsi og líf. Núna hafa þau viðurkennt sakleysi hans – en árið 2009 var komið fram við hann sem glæpamann fyrir framan sjónvarpsvélar. „Hann á skilið réttlæti og fullar skaðabætur“, sagði Mario Ernesto Patrón, yfirmaður lagateymis hans og framkvæmdastjóri mannréttindamiðstöðvarinnar Miguel Augstín Pro Juárez.
Þrátt fyrir að ríkissaksóknari hafi skráð kvörtun Ángels um pyndingar árið 2009 var engri rannsókn ýtt úr vör. Opinber læknisskoðun var gerð fjórum árum síðar en var aldrei lokið, en slíka skoðun er skylt að framkvæma samkvæmt alþjóðlegum mannréttindastöðlum.
Amnesty International kallar einnig eftir því að mexíkósk stjórnvöld bæti núverandi verklag vegna læknisskoðana þolenda pyndinga til samræmis við alþjóðlega staðla Istanbúl bókunarinnar frá árinu 1999. Í máli Ángels gegndi óháður réttarlæknir lykilhlutverki í að sýna fram á að hann hefði sætt pyndingum.
Mál Ángels er skýrt dæmi um vanrækslu skrifstofu ríkissaksóknara í skráningu pyndingarmála er upp koma. Í flestum tilfellum hafa opinberar læknisskoðanir aldrei verið framkvæmdar eða þá að þær fara fram of seint. Þær endurvekja oft upp sársaukafulla reynslu og aftra fólki frá því að fylgja eftir kvörtun sinni. Réttarlæknir á vegum hins opinbera kemst oft að staðlausri niðurstöðu sem saksóknarar nota til að hylma yfir pyndingar í stað þess að hefja skilvirka rannsókn.
Mexíkósk yfirvöld þurfa í auknum mæli að viðurkenna gildi læknisskoðana sem framkvæmdar eru af óháðum sérfræðingum. Það væri fyrsta skrefið í að bæta fyrir hátt hlutfall refsileysis í landinu vegna pyndinga og annarrar illrar meðferðar.
Bakgrunnur
Amnesty International tók að berjast fyrir frelsi Ángel Colón í júlí 2014 þegar hann var skilgreindur sem samviskufangi.
Þann 4. september gaf Amnesty International út skýrslu, þar sem fram kom að tilkynningar um pyndingar og aðra illa meðferð af hálfu lögreglu og hermanna hefðu aukist um 600% á einum áratug. 64% aðspurðra í Mexíkó sögðust óttast pyndingar ef þeir yrðu handteknir af lögreglu eða öðru yfirvaldi samkvæmt könnun sem var framkvæmd fyrir Amnesty International.
