Mongólía: Söguleg kosning um afnám dauðarefsingarinnar

Amnesty International fagnar því að mongólska þingið afnam dauðarefsinguna í landinu nýverið. Þetta er stórsigur fyrir mannréttindi í landinu og verður hann skráður í sögubækurnar.

Amnesty International fagnar því að mongólska þingið afnam dauðarefsinguna í landinu nýverið. Þetta er stórsigur fyrir mannréttindi í landinu og verður hann skráður í sögubækurnar.

Þann 3. desember samþykktu þingmenn ný hegningarlög sem afnema dauðarefsinguna fyrir alla glæpi. Nýju hegningarlögin taka gildi í september 2016 og verður þá heildarfjöldi ríkja sem hefur algjörlega afnumið þessa grimmilegu, ómannlegu og vanvirðandi refsingu orðinn 102.

„Söguleg ákvörðun Mongólíu um að afnema dauðarefsinguna er stórsigur fyrir mannréttindabaráttuna. Dauðarefsingin er að verða hluti af fortíðinni um allan heim“, segir Roseann Rife, yfirmaður rannsókna í Austur-Asíu hjá Amnesty International.

„Mongólía hefur sett fordæmi sem við vonum að muni breiðast hratt út í Asíu. Lönd sem halda áfram að beita dauðarefsingunni ættu að feta í fótspor og binda enda á þessa grimmilegu og ómannlegu refsingu.“

Þrjú lönd; Fiji, Madagaskar og Súrínam hafa nú þegar afnumið dauðarefsinguna á þessu ári.

Síðasta aftaka í Mongólíu fór fram 2008 og var dauðarefsingin flokkuð sem ríkisleyndarmál. Síðan þá hafa yfirvöld tekið mörg skref í áttina að afnámi sem leiddu til sögulegrar kosningar þingsins þann 3. desember síðastliðinn.

Árið 2010 mildaði forseti landsins, Tsakhiagiin Elbegdorj, alla dauðadóma og gerði hlé á aftökum í landinu. Árið 2012 staðfesti Mongólía alþjóðlegan samning þar sem að yfirvöld skuldbundu sig að afnema dauðarefsinguna.

Forseti landsins, Tsakhiagiin Elbegdorj, hefur margoft sagt að Mongólía þurfi að snúa baki við dauðarefsingunni til þess að virða líf til fullnustu. Hann hélt því fram að ógn um aftöku hefði ekki fælingarmátt og að hætta á misbrestum sé óumflýjanleg í öllum réttarkerfum.

„Forsetinn Tsakhiagiin Elbegdorj fletti ofan af rökvillunni um dauðarefsinguna. Önnur lönd í Asíu þurfa að fylgja stjórnmálalegri forystu Mongólíu og afnema dauðarefsinguna. Lönd sem halda áfram að beita dauðarefsingunni eru föst í úreltum refsingum“, segir Roseann Rife.

Amnesty International telur að dauðarefsingin sé grimmileg, ómannleg og vanvirðandi refsing og samtökin eru mótfallin beitingu hennar sama hverjar aðstæðurnar eru. Hver sem glæpurinn er eða hvort viðkomandi er sekur eða saklaus og sama hvaða aðferð er notuð við framkvæmd dauðarefsingarinnar, þá leggjast samtökin í öllum tilvikum gegn henni.