Marsmánuðuru var frábær mánuður að mörgu leyti fyri
mannréttindabaráttuna. Hér eru fjórtán dæmi um góðan árangur, sigra og brot
af góðum fréttum sem öll má rekja til þátttöku ykkar í baráttunni fyrir betri
heimi.
Marsmánuðuru var frábær mánuður að mörgu leyti fyri mannréttindabaráttuna. Aðgerðasinnar voru leystir úr haldi, ósanngjörnum lögum var breytt og fólk sem hafði framið alvarleg mannréttindabrot var látið sæta ábyrgð. Hér eru fjórtán dæmi um góðan árangur, sigra og brot af góðum fréttum sem öll má rekja til þátttöku ykkar í baráttunni fyrir betri heimi.
1. Egyptaland. Ungmennum sem höfðu gagnrýnt pyndingar var sleppt úr haldi eftir að hafa setið inni í tvö ár.
Hinn 20 ára Mahmoud Hussein var sleppt úr haldi eftir að hafa verið meira en tvö ár á bak við lás og slá fyrir það eitt að hafa klæðst bol með áletruninni, „Þjóð án pyndinga“, og bera hálsklút merktum byltingunni í Egyptalandi. Hann var pyndaður á meðan varðhaldsvistinni stóð og þvingaður til þess að skrifa undir játningu.
2. Mexíkó: Sjóliðar ákærðir fyrir hvarf Armando del Bosque.
Fimm mexíkóskir sjóliðar voru ákærðir fyrir hvarf Armando del Bosque Villarreal, sem fannst látinn þremur vikum eftir handtöku hans árið 2013. Ákærurnar gefa von fjölskyldum þeirra þúsunda sem horfið hafa sporlaust í Mexíkó.
3. Katar: Ljóðskáld leyst úr haldi.
Mohammed al-‘Ajami, einnig þekktur sem Ibn al-Dheeb, var loks leystur úr haldi úr fangelsi í Katar eftir fjögurra ára raunir. Hann hafði verið sakaður um að móðga emírinn eftir að hafa farið með ljóð fyrir framan hóp fólks í íbúð sinni í Kairó í Egyptalandi þar sem hann var á þeim tíma að læra arabískar bókmenntir.
4. Aserbaídsjan: Tíu samviskuföngum sleppt úr haldi.
Forseti Aserbaídsjan, Ilham Aliyev, skrifaði undir tilskipun um lausn 148 fanga, þar á meðal tíu samviskufanga. Í þeim hópi fanga sem leystir voru úr haldi voru mannréttindasinnar, stjórnarandstæðingar, félagar í lýðræðislegri ungliðahreyfingu og blaðamaður sem var í haldi vegna ákæra sprottnar af pólitískum rótum.
5. Noregur: Söguleg tímamót fyrir réttindi transfólks.
Heilbrigðisráðherra Noregs lagði fram mikilvægar lagalegar umbætur sem gæti umturnað lífi transfólks í Noregi til næstu kynslóða. Tillagan myndi leyfa einstaklingum að ráða sjálfir kyni sínu.
6. Bosnía-Hersegóvína: Karadžić fundinn sekur um þjóðarmorð í Srebrenica.
Fyrrum bosneski-serbenski leiðtoginn Radovan Karadžic var fundinn sekur um þjóðarmorð og aðra glæpi undir alþjóðalögum. Dómstóll Sameinuðu þjóðanna sakfelldi hann fyrir þjóðarmorð í tengslum við fjöldamorð í Srebrenica þar sem 7000 menn og drengir voru myrtir. Hann var dæmdur í 40 ára fangelsi.
7. Kína: Lögfræðingur sem varði kirkjur leystur úr haldi.
Mikilsmetinn mannréttindalögfræðingur í Kína var leystur úr haldi eftir sjö mánaða varðhald. Zhang Kai veitti nokkrum kirkjum lögfræðilega aðstoð í Zhejiang héraði eftir að yfirvöld höfðu unnið skemmdarverk á kirkjum og fjarlægt krossa og róðukrossa í lok ársins 2013.
8. Malasía: Kvenréttinda- og aðgerðasinni sýknaður.
Aðgerðasinninn, Lena Hendry, var sýknuð eftir að hafa verið ákærð fyrir brot á lögum sem banna að sýna eða eiga kvikmyndir sem hafa ekki verið samþykktar af Kvikmyndaritskoðunarnefndinni. Hún stóð frammi fyrir þriggja ára fangelsisdómi eftir að hafa sýnt kvikmynd um mannréttindabrot á Sri Lanka.
9. Aserbaídsjan: Mannréttindalögfræðingur leystur úr haldi.
Yfirvöld í Aserbaídsjan leystu úr haldi Intigam Aliyev, mannréttindalögfræðing og opinskáan gagnrýnanda stjórnvalda. Hann hafði verið dæmdur í sjö og hálfs árs fangelsi eftir falskar ákærur um skattsvik, ólöglega frumkvöðlastarfsemi og misbeitingu valds í herferð yfirvalda gegn gagnrýnisröddum í Aserbaídsjan.
10. Kúveit: Aðgerðasinni sýknaður.
Mannréttindasinninn Nawaf al-Hendal var sýknaður í mars ásamt tíu öðrum mönnum. Hann var handtekinn í mars 2015 þar sem hann fylgdist með friðsamlegri mótmælagöngu í Kúveitborg og var ákærður fyrir „þátttöku í ólöglegri mótmælagöngu“.
11. Kúveit: fyrrum þingmaður stjórnarandstöðunnar sýknaður.
Saleh al-Mulla, fyrrum þingmaður stjórnarandstöðunnar, var sýknaður í mars fyrir að „móðga emír Kúveits og forseta Egyptalands“ á Twitter-aðgangi sínum.
12. Sameinuðu arabísku furstadæmin: Bloggari leystur úr haldi.
Ómanskur bloggari Muawiya al Ruwahi var sýknaður fyrir alríkishæstarrétti Sameinuðu arabísku furstadæmanna þann 14. mars. Hann hafði verið ákærður fyrir að „búa til og stjórna netaðgöngum í þeim tilgangi að ýta undir hatur og raska skipulagi og almannaró“ og „gera gys að ríkinu og leiðtogum þess“.
13. Tyrkland: Sýrlenskur flóttamaður leystur úr haldi á flugvelli
Sýrlenskur flóttamður var leystur haldi 29. mars eftir að hafa verið handtekinn af geðþótta við komu á Sabiha Gökçen flugvellinum í Istanbul í nóvember. Hann óttaðist að tyrkneskt yfirvöld myndu senda hann aftur til Sýrlands þar sem lífi hans er stofnað í hættu.
14. Kína: Blaðamaður og pistlahöfundur leystur úr haldi
Mikilsmetni blaðamaðurinn og pistlahöfundurinn Jia Jia var leystur úr haldi eftir að hafa horfið í byrjun mars. Hvarf hans kann að hafa tengst bréfi hans á netinu þar sem hann gagnrýndi Xi Jinping forseta.
