Ákvörðun dómstóla í El Salvador, þann 20. maí síðastliðinn, um að leysa Maríu Teresu Riveru úr haldi sem hefur setið á bak við lás og slá í þrjú ár, er stór sigur í mannréttindabaráttunni.
Ákvörðun dómstóla í El Salvador, þann 20. maí síðastliðinn, um að leysa Maríu Teresu Riveru úr haldi sem hefur setið á bak við lás og slá í þrjú ár, er stór sigur í mannréttindabaráttunni.
Árið 2011 var María Teresa, 33 ára, fangelsuð í kjölfar fósturmissis en hún var sakfelld fyrir „morð af yfirlögðu ráði” og dæmd til fjörtíu ára fangelsisvistar. „Lausn Maríu Teresu úr fangelsi er enn eitt skrefið í átt að réttlæti í ríki þar sem komið er fram við konur eins og annars flokks borgara. Hún hefði ekki átt að verja einni sekúndu í fangelsi. Sú staðreynd að henni var sleppt úr fangelsi hlýtur að vera driffjöður breytinga í El Salvador þar sem fjöldi kvenna sætir fangelsisvist á grundvelli fáránlegra fóstureyðingarlöggjafar sem setur líf þúsunda kvenna og stúlkna í hættu,“ segir Erika Guevara-Rosas, framkvæmdastjóri Ameríkuteymis Amnesty International. María Teresa sem átti fyrir fimm ára barn vissi ekki að hún bæri annað barn undir belti fyrr enn hún veiktist í fataverksmiðju þar sem hún starfaði. Tengdamóðir hennar kom að henni á baðherbergi í verksmiðjunni þar sem hún lá á gólfinu í blóði sínu og kom henni undir læknishendur með hraði. Þegar á spítalann var komið tilkynnti heilbrigðisstarfsmaður hana til lögreglu. Skömmu síðar mætti lögreglumaður á spítalann og tók að yfirheyra Maríu Teresu, hálf meðvitundarlausa, án þess að lögfræðingur væri viðstaddur. Í júlí árið 2012 kom hún fyrir rétt og var fundin sek um manndráp af yfirlögðu ráði, þrátt fyrir alvarlega misbresti á sönnunargögnum gegn henni. Sönnunargögnin sem notuð voru gegn henni í réttarhöldunum byggðu á vitnisburði yfirmanns hennar sem sagði að hún hafi verið þunguð í janúar árið 2011. Það hefði þýtt að María væri gengin 11 mánuði þegar hún missti fóstrið.
Lausn Maríu úr fangelsi þann 20. maí kom í kjölfar dómsúrskurðar sem kvað á um að ekki væru nægileg sönnunargögn til að sanna sekt hennar.
Í kjölfar breytinga á hegningarlöggjöf árið 1998 hafa fóstureyðingar verið bannaðar í El Salvador í öllum kringumstæðum, jafnvel þegar þungun er afleiðing nauðgunar eða sifjaspells eða þegar líf eða heilsa konu eða stúlku er í hættu. Breytingar á löggjöfinni hafa leitt til óréttlátra lögsókna og misbeitingar á hegningarlöggjöfinni þar sem gert er ráð fyrir sekt kvenna og stúlkna áður en sekt er sönnuð.
Blátt bann við fóstureyðingum er brot á kyn- og frjósemisréttindum kvenna og stúlkna. Amnesty International hóf herferðina, Minn líkami, Mín réttindi árið 2014 í þeim tilgangi að berjast gegn brotum á kyn- og frjósemisréttindum.
