Marielle Franco var baráttukona sem var myrt fyrr á þessu ári í Brasilíu. Mál hennar er tekið fyrir í Bréf til bjargar lífi 2018 þar sem skorað er á yfirvöld að rannsaka morðið. Hér er bréf móður hennar, Marinete da Silva, sem lýsir því hversu mikið stuðningur og samhugur skiptir máli.
Marielle Franco var baráttukona sem var myrt fyrr á þessu ári í Brasilíu. Mál hennar er tekið fyrir í Bréf til bjargar lífi 2018 þar sem skorað er á yfirvöld að rannsaka morðið. Hér er bréf móður hennar, Marinete da Silva, sem lýsir því hversu mikið stuðningur og samhugur skiptir máli. Bréfið var birt fyrr á þessu ár í TIME og er hér þýtt í styttri útgáfu.
Morð dóttur minnar, Marielle Franco, í Río de Janeiro þann 14. mars skildi eftir sig stórt tómarúm. Fjölskylda mín er ekki söm eftir þessa nótt, ekki heldur fjölskylda Anderson Gomes, bílstjóra hennar sem einnig var myrtur. Hvern einasta dag spyr ég sjálfa mig hvað varð þess valdandi að kjörinn borgarfulltrúi og velþekktur mannréttindafrömuður varð fyrri þessu grimmilega ofbeldi. Ég hef enn engin svör á reiðum höndum.
Frá unga aldri skaraði Marielle fram úr öðrum. Henni leið vel þegar hún hjálpaði öðru fólki. Ábyrgðartilfinning hennar var það sterk og draumar hennar það háleitir að árið 2016 ákvað hún að bjóða sig fram sem borgarfulltrúi í Río de Janeiro, næststærstu borg Brasilíu. Marielle var einstök á þann veg að hún varði ekki aðeins réttindi minnihlutahópa heldur allra einstaklinga. Sem mannréttindafrömuður var hún fyrirmynd sem fólk náði að tengja sig við.
Það var ljóst að hún myndi rísa hratt í opinberu starfi sínu. Margir trúðu því að framtíð hennar yrði í höfuðborginni. Marielle hefur risið enn hærra eftir að hún var myrt þar sem áhrifa hennar gætir víðar um heiminn. Þúsundir hafa farið út á götu í hinum ýmsu borgum og talað fyrir máli hennar á margs konar vettvöngum og á fjölmörgum tungumálum. Þessi harmleikur hefur orðið til þess að dóttir mín er orðin mun þekktari en nokkurn hefði grunað.
Mánuðir hafa liðið síðan grimmilegur glæpur varð til þess að líf dóttur minnar var tekið og við höfum enn ekki fengið nein svör. Hvern mánuð höfum lagt fram beiðni um rannsókn til yfirvalda sem bera ábyrgð á að upplýsa glæpinn. Allur stuðningurinn í Brasilíu og um heim allan mun ekki fjarlæga sársauka okkar en er aflið sem knýr okkur áfram í að sækjast eftir réttlæti.
Rauði þráðurinn í sögu dóttur minnar var að styðja þá sem þurftu mest á því að halda. Marielle studdi mæður á erfiðum tímum í lífi þeirra, að takast á við sársaukann eftir að hafa misst börn sín á ofbeldisfullan hátt, mörg myrt af aðilum á vegum ríkisins sem átti að vernda þau. Þessar mæður heimsækja mig og hringja í mig daglega til að vita hvernig ég hef það. Dóttir mín gerði það fyrir þær og nú eru þær að gera það fyrir mig.
Ég mun aldrei gleyma hlýhugnum sem ég hef orðið aðnjótandi. Ég finn fyrir nærværu Marielle með hverjum stuðningi sem ég fæ. Samhugur sem gefur von um að hægt verði að upplýsa hvers vegna þetta grimmdarverk var framið þessa nótt.
Mér finnst eins og við séum að sigra vegna þess að við veitum mótstöðu og erum með samtakamátt Amnesty International og aðgerðasinna um heim allan. Það fordæmi sem dóttir mín setti fær aukna alþjóðlega viðurkenningu með hverjum deginum. Hún heillaði aðra og var öðrum hvatning hvert sem hún fór. Hún var mannréttindafrömuður sem helgaði líf sitt góðverkum. Fjölskylda mín getur ekki hvílst fyrr en við fáum svör um ástæður glæpsins. Við verðum að fá að vita hver myrti dóttur mína og hver fyrirskipaði morðið.
Marinete da Silva er lögfræðingur og móðir Marielle Franco.
