Aðalfundur 2022

Aðalfundur Íslandsdeildar Amnesty International verður haldinn miðvikudaginn 23. mars 2022 kl. 17 í húsnæði deildarinnar, Þingholtsstræti 27, 101 Reykjavík, 3. hæð. Einnig verður honum streymt.

Dagskrá fundarins:

  • Skýrsla stjórnar um liðið starfsár kynnt og árangur borinn saman við starfsáætlun þess árs
  • Starfsáætlun fyrir komandi starfsár lögð fram
  • Skýrsla stjórnar um fjárhag samtakanna og fjárhagsáætlun
  • Ársreikningar lagðir fram til samþykktar
  • Kosning stjórnar og félagskjörinna skoðunarmanna
  • Ákvörðun um upphæð árgjalds
  • Lagabreytingatillögur
  • Önnur mál

Claudia Wilson, mannréttindalögfræðingur og varaformaður Íslandsdeildar Amnesty verður með erindi um endursendingar flóttafólks til Grikklands í ómannúðlegar aðstæður.

Íslandsdeild Amnesty hvetur félaga sem hafa áhuga á mannréttindum til að bjóða sig fram í stjórn samtakanna.

Spurningum varðandi kosningu og stjórnarsetu skal beint til Þórhildar Elísabetar Þórsdóttur, formanns Íslandsdeildar Amnesty International á netfangið thorhildur@amnesty.is

Lagabreytingatillögur

Borist hefur tillaga um að breyta 10. grein samþykkta Íslandsdeildar Amnesty International þannig að:

„Kosningarétt á aðalfundi hafa þeir einir, sem lokið hafa greiðslu árgjalds liðins starfsárs eða mánaðarlegu framlagi sem því nemur.

Greiðsla árgjalds þarf að hafa borist 50 dögum fyrir aðalfund. “

verði:

„Kosningarétt á aðalfundi hafa þeir einir, sem hafa, eigi síðar en 50 dögum fyrir aðalfund, gerst félagar og lokið greiðslu árgjalds liðins starfsárs.”

Lagabreytingatillaga þessi er lögð fram vegna nýrra ákvæða laga um tekjuskatt sem tóku gildi árið 2021 og reglugerðar sem var sett í kjölfarið varðandi skattafrádrátt einstaklinga og rekstraraðila sem styðja við almannaheillafélög.

Framlag eða gjöf þarf að vera án gagngjalds til þess að teljast frádráttarbær samkvæmt nýju reglunum. Atkvæðisréttur er talinn gagngjald félagsgjalda. Mikilvægt er því að öll framlög einstaklinga til Íslandsdeildar Amnesty International séu skráð með þeim hætti að þau teljist framlög eða gjafir til þess að þau verði fráttdráttarbær en félagsgjöldin verði þess í stað gjaldfrjáls. Félagar hafa þá eins og áður atkvæðisrétt innan samtakanna.

Frádráttur einstaklinga getur verið á bilinu 10 – 350 þús. kr. á almanaksári, hjóna og sambúðarfólks alls 700 þús. kr. og kemur til lækkunar á útsvars- og tekjuskattsstofni en er ekki millifæranlegur og ber því að halda framlögum hvers einstaklings aðgreindum.

Frekari upplýsingar um skattafrádrátt má finna á heimasíðu Skattsins.