Aðgerðahópur gegn kynbundnu ofbeldi fagnar ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að hafin verði skoðun á því með hvaða hætti megi standa að gerð og framkvæmd heildstæðrar aðgerðaáætlunar gegn heimilisofbeldi og kynferðislegu ofbeldi hér á landi.
Í nóvember á síðasta ári stóðu 16 félagasamtök og stofnanir fyrir 16 daga átaki gegn kynbundnu ofbeldi. Átakinu lauk með afhendingu áskorunar til yfirvalda um að setja fram heildstæða aðgerðaáætlun gegn kynbundnu ofbeldi á Íslandi er hefði réttlæti, forvarnir, stuðning og vernd til handa fórnarlömbum að leiðarljósi. Í kjölfar átaksins var settur á fót aðgerðahópur gegn kynbundnu ofbeldi á Íslandi með það að markmiði að stuðla að upplýstri umræðu um málefnið og vera stjórnvöldum til stuðnings og leiðbeiningar við gerð aðgerðaáætlunar er tæki til löggjafar, dómstóla, saksóknara og löggæslu, félagslegra úrræða, fræðslu til almennings og fagaðila; ásamt sértækum aðgerðum innan mennta-, heilbrigðis- og félagslega kerfisins. Hópurinn tók saman drög að aðgerðaáætlun og kynnti hana yfirvöldum.
Aðgerðahópur gegn kynbundnu ofbeldi fagnar ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að hafin verði skoðun á því með hvaða hætti megi standa að gerð og framkvæmd heildstæðrar aðgerðaáætlunar gegn heimilisofbeldi og kynferðislegu ofbeldi hér á landi.
Við fögnum því að aðgerðaáætlunin verði unnin í samvinnu við hagsmunaaðila og frjáls félagasamtök og lýsum jafnframt áframhaldandi vilja til samstarfs. Einnig treystum við því að drög þau sem við unnum og kynntum stjórnvöldum í vor verði höfð til hliðsjónar við gerð aðgerðaáætlunar.
Við lýsum ánægju okkar vegna ráðningar starfsmanns til að vinna að aðgerðaáætluninni og að búast megi við niðurstöðum til umfjöllunar strax á vormánuðum 2006.
Þá fögnum við því að barátta frjálsra félagasamtaka, kvennahreyfingarinnar og einstaklinga beri nú ávöxt og vonumst til að í mars 2006 verði kynnt heildstæð aðgerðaáætlun sem miðar að því að útrýma þeim smánarbletti sem kynbundið ofbeldi er á íslensku samfélagi.
F.h. aðgerðarhóps:
Jóhanna K. Eyjólfsdóttir, framkvæmdastjóri Íslandsdeildar Amnesty International
Guðrún D. Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri Mannréttindaskrifstofu Íslands
Drífa Snædal, fræðslu-og framkvæmdastýra Samtaka um kvennaathvarf
Guðrún Jónsdóttir, talskona Stígamóta
Birna Þórarinsdóttir, framkvæmdastýra UNIFEM á Íslandi
