Föstudagurinn 26. júní er alþjóðlegur dagur Sameinuðu þjóðanna til stuðnings þolendum pyndinga.
Föstudagurinn 26. júní er alþjóðlegur dagur Sameinuðu þjóðanna til stuðnings þolendum pyndinga. Þennan dag munu aðgerðasinnar í 55 löndum, þar á meðal Íslandi, koma saman til að minna heiminn á að þúsundir einstaklinga sæta pyndingum á degi hverjum um heim allan og krefjast réttlætis í þeirra þágu. Ýmsar uppákomur verða skipulagðar af þessu tilefni. Efnt verður til samstöðufunda, götuleikhús sett upp og hlaupið í þágu þolenda pyndinga, svo fátt eitt sé nefnt.
Ungliðahreyfing Íslandsdeildar Amnesty International mun ekki láta sitt eftir liggja til að sýna þolendum pyndinga stuðning sinn í verki. Blásið verður til aðgerða á Austurvelli frá kl.15 til 18, föstudaginn 26. júní þar sem eftirlíkingu af lukkuhjóli verður stillt upp, svipuðu því sem lögreglan á Filippseyjum notaðist við árið 2014, til að skera úr um hvernig best væri að pynda fanga. Gestum og gangandi verður boðið að freista „gæfunnar“ og snúa „lukkuhjólinu“ en í stað þess að drjúg peningafúlga bíði þeirra eða verðmæti af öðru tagi munu þeir geta sett sig í spor fangana á Filippseyjum. Undirskriftum verður einnig safnað til stuðnings þroskaskertum pilti á Filippseyjum sem var pyndaður af lögreglu árið 2012. Ungliðar Íslandsdeildar Amnesty International standa ennfremur fyrir aðgerð í Kringlunni laugardaginn 27. júní frá kl. 13 til 16.
Amnesty International hefur barist gegn pyndingum í rúmlega 50 ár og margt hefur áunnist í þeirri baráttu. Frá árinu 1980 hefur Amnesty International tekið upp mál rúmlega 3000 einstaklinga sem sætt hafa pyndingum í 50 löndum og landsvæðum og hafa margir þeirra fengið lausn sinna mála. Nýjasta dæmisagan um árangur Amnesty International í baráttunni fyrir þolendur pyndinga er saga Moses Akatugba frá Nígeríu. Árið 2005, þegar Moses var sextán ára, tóku hermann hann fanga og ásökuðu um að stela þremur farsímum og öðrum fjarskiptabúnaði. Hann sætti hrottalegum pyndingum í framhaldinu, bæði af hálfu hersins og lögreglu í Nígeríu. Eftir átta ár í fangelsi var hann dæmdur til dauða með hengingu. Á síðasta ári tók fjöldi Íslendinga þátt í alþjóðlegri aðgerð þar sem þrýst var á fylkisstjóra á óseyrum Nígerfljóts að náða Moses. Alls söfnuðust rúmlega 16.000 undirskriftir frá Íslandi í gegnum sms-aðgerðanetið, netákallið og á bréfamaraþoni samtakanna. Þann 28. maí síðastliðinn bárust Íslandsdeildinni stórkostlegar fréttir af náðun Moses og var hann leystur úr haldi nokkrum dögum síðar.
Alþjóðlegur samningur gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannúðlegri og vanvirðandi meðferð
Samtökin börðust einnig í áratugi fyrir gerð samnings gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri og vanvirðandi meðferð eða refsingu og tók hann gildi í júní árið 1987 á vettvangi allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna. Mikill meirihluti ríkja heims hefur fullgilt samninginn, eða 157 ríki, auk þess sem 10 önnur hafa skrifað undir hann en ekki fullgilt hann. Enn á þó baráttan gegn pyndingum og annarri illri meðferð mjög á brattann að sækja. Víða um heim er fólk pyndað í fangelsum, á lögreglu-, varðhalds- og herstöðvum, í yfirheyrslubúðum og á öðrum stöðum á vegum yfirvalda. Víða um heim misnota fulltrúar ríkisins vald sitt og pynda varnarlaust fólk. Þetta á ekki aðeins við um ríki þar sem harðstjórar og einræðisherrar ráða ríkjum enda þótt pyndingar séu tíðar undir slíku stjórnarfari. Ríkisstjórnir sem gerast sekar um að stunda pyndingar spanna allt litróf stjórnmálaafla og þrífast í öllum heimsálfum. Samkvæmt nýlegri könnun sem Amnesty International lét gera kom í ljós að nærri helmingur íbúa heimsins óttast að sæta pyndingum eða annarri illri meðferð í eigin landi.
Sorglegar staðreyndir um pyndingar koma fram ár eftir ár í ársskýrslum Amnesty International. Í ársskýrslu samtakanna frá 2011 er að finna upplýsingar frá 101 ríki þar sem pyndingar og önnur grimmileg, ómannleg og vanvirðandi meðferð viðgengst. Árið 2012 skrásetti Amnesty pyndingar í 112 ríkjum. Frá janúar 2009 til mars 2014 skráði Amnesty International pyndingar og aðra illa meðferð í 141 ríki. Pyndingar af hálfu ríkisvaldsins eru því hvergi nærri á undanhaldi þrátt fyrir að alþjóðlegur samningur gegn pyndingum hafi víða verið samþykktur. Fyrr á árinu komst frétt af lögreglumönnum á Filippseyjum á forsíðu heimspressunnar. Þeir höfðu komið á laggirnar „lukkuhjóli“ sem þeir léku sér með við ákvarðanir um það hvernig ætti að pynda fanga á þeirra vakt. Pyndingar þrífast enn, því þrátt fyrir nærri 30 ára alþjóðlegt bann við þessu grimmilega athæfi og loforð ríkisstjórna um að stöðva það er hyldýpisgjá á milli loforða og efnda. Amnesty International ýtti því úr vör nýrri herferð þann 13. maí sem nefnist Stöðvum pyndingar. Með herferðinni verður lögð áhersla á að ríki tryggi öfluga varnagla gegn pyndingum og grípi til fyrirbyggjandi aðgerða til að sporna við því að pyndingar og ill meðferð þrífist í eigin landi. Ríkisstjórnir allra landa verða að sýna í verki að þær líði ekki pyndingar eða illa meðferð undir nokkrum kringumstæðum. Amnesty International mun vinna að öflugri vernd gegn pyndingum með ýmsu móti. Til að mynda með því að krefjast þess að óháðir læknar skoði fanga og lögfræðingar fái að heimsækja fangelsi og séu ávallt viðstaddir yfirheyrslur. Barist verður fyrir því að einangrunarvist og varðhald á leynilegum stöðum verði ekki leyft. Þrýst verður á um að varðhaldsstofnanir fái reglulegar, ótilkynntar og ótakmarkaðar eftirlitsheimsóknir frá sjálfstæðum og óháðum aðilum. Tilkynna á öllum föngum réttindi sín þegar í stað, m.a. að þeir geti kvartað við yfirvöld yfir slæmri meðferð og fengið þegar í stað úrskurð dómara um lögmæti handtökunnar. Allar kvartanir varðandi pyndingar og illa meðferð skulu rannsakaðar af óháðum aðilum á skjótan, hlutlægan og árangursríkan hátt. Hinir ábyrgu skulu dregnir fyrir rétt og þolendur skulu eiga rétt á skaðabótum. Við þjálfun ætti að gera embættismönnum ljóst að ill meðferð og pyndingar verði aldrei liðnar. Skipun frá yfirmanni ætti aldrei að réttlæta pyndingar eða illa meðferð. Yfirlýsingar, upplýsingar eða játningar sem fengnar eru með pyndingum og illri meðferð ætti aldrei að nota sem sönnunargögn í réttarhöldum og föngum ætti að verða gert kleift að hitta fjölskyldu sína og lögfræðing með reglulegu millibili.
Staðan á Íslandi
Árið 1985 undirritaði Ísland samning gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri og niðurlægjandi meðferð og refsingu og fullgilti hann árið 1996. Valfrjáls bókun við samninginn hefur hins vegar enn ekki verið fullgilt. Bókunin sem var undirrituð 24. september 2003 felur m.a. í sér að komið verði á alþjóðlegri eftirlitsnefnd sem er heimilað að skoða aðstæður í þeim löndum sem fullgilda bókunina. Einnig er gert ráð fyrir að þau ríki sem fullgilda bókunina grípi til fyrirbyggjandi aðgerða til að koma í veg fyrir pyndingar, m.a. með því að setja á fót sjálfstæða stofnun sem annast eftirlit. Með sjálfstæðu eftirliti aðildarríkjanna er átt við að þau setji á fót stofnun sem sér um eftirlit með stöðum þar sem einstaklingar dveljast á vegum hins opinbera og almennt eftirlit með störfum lögreglunnar. Reynslan hefur sýnt að reglubundnar heimsóknir til slíkra stofnana eru mikilvægar til þess að koma í veg fyrir pyndingar og ómannlega meðferð. Fyrirbyggjandi heimsóknir á varðhaldsstaði eiga því bæði að vera í höndum undirstofnunar Sameinuðu þjóðanna og stofnunar á vegum aðildarríkjanna. Á Íslandi hefur umboðsmaður Alþingis gegnt slíku eftirlitshlutverki en hann skortir fjármagn svo hann geti sinnt því sem skyldi. Engin stofnun á Íslandi hefur því burði til að hafa viðunandi eftirlit með varðhaldsstöðum og en brýnt er að bæta úr þessu. Nefnd gegn pyndingum á vegum Sameinuðu þjóðanna hefur hvatt íslensk stjórnvöld til að fullgilda bókunina um eftirlit og setja sjálfstæða eftirlitsstofnun á fót. Auk þess hefur hún lagt til að umsvif umboðsmanns Alþingis verði aukin með tilheyrandi mannauði og fjármagni þannig að embættið geti betur haft eftirlit með varðhaldsstöðum.
Amnesty International mun halda baráttunni áfram þar til við búum í heimi þar sem pyndingar heyra sögunni til. Samtökin munu standa við hliðina á öllum þeim sem eiga á hættu að sæta pyndingum og styðja þá sem sætt hafa pyndingum í því að leita réttar síns. Þolendur pyndinga munu vita að félögum Amnesty International stendur ekki á sama um örlög þeirra, a
