afglæpavæðing vændis

Spurningar og svör


Vændisfólk í hættu

Vændisfólk er í aukinni hættu á að sæta margvíslegum mannréttindabrotum, þar á meðal nauðgunum, ofbeldi, kúgun og mismunun. Allt of oft nýtur það engrar eða mjög takmarkaðrar verndar í lögum og hefur litla möguleika á að fá úrlausn mála sinna.

Stefna Amnesty International um verndun vændisfólks gegn mannréttindabrotum og misnotkun var birt í maí 2016 ásamt því að birta fjórar rannsóknarskýrslur um stöðu þessara mála í Papúa Nýju-Gíneu, Hong Kong, Noregi og Argentínu.

Stefna okkar útlistar hvernig stjórnvöld verða að gera meira til þess að vernda vændisfólk gegn brotum og misnotkun. Rannsóknirnar beina athygli að vitnisburði vændisfólks og erfiðleikum þess.

Afglæpavæðing vændis

Rannsókn Amnesty International

Spurt og svarað

Hvað felur afglæpavæðing vændis í sér?

Afglæpavæðing þýðir ekki afnám laga sem gera misneytingu, mansal eða ofbeldi gegn vændisfólki refsivert. Þessi lög verða að vera til staðar og þarf að efla þau. Afglæpavæðing þýðir afnám laga og stefna sem gera vændi saknæmt eða refsivert er varða kaup og sölu eða skipulagningu vændis.

Það getur falið í sér að falast eftir vændi, leigja aðstöðu, „reka vændishús“ og afla sér tekna með vændi.

Amnesty notar hugtakið vændi eingöngu þegar um er að ræða gagnkvæmt samþykki fullorðinna aðila.

Hvernig er lögleiðing vændis öðruvísi en afglæpavæðing?

Lögleiðing þýðir að innleidd yrðu sértæk lög til að setja reglur um vændi. Amnesty er í sjálfu sér ekki á móti lögleiðingu en stjórnvöld verða fyrst og fremst að tryggja mannréttindi vændisfólks. Sláandi dæmi um hvernig lögleiðing vændis getur farið úrskeiðis er að finna í Túnis.

Þarlent vændisfólk sem vinnur í viðurkenndum vændishúsum en óskar eftir að yfirgefa störf sín þarf að verða sér úti um heimild frá lögreglunni og sýna fram á að það geti unnið fyrir sér á „heiðarlegan hátt“. Vændisfólk sem starfar utan þessarar reglugerðar er enn gert saknæmt og er án lagaverndar.

Hvers konar misnotkun á vændisfólk hættu á að verða fyrir?

Vændisfólk á hættu á að sæta margvíslegum mannréttindabrotum, þar á meðal:

  • Nauðgunum
  • Ofbeldi
  • Mansali
  • Kúgun
  • Handtökum og gæsluvarðhaldi að geðþótta
  • Útburði af heimili sínu
  • Áreitni
  • Mismunun
  • Útilokun frá heilbrigðisþjónustu
  • Þvinguðum HIV-prófum
  • Eiga ekki kost á að fá lagalega úrlausn mála sinna

Amnesty International hefur skráð mörg tilfelli þar sem lögregla, viðskiptavinir og aðrir einstaklingar hafa brotið á vændisfólki án refsingar.

Leiðir afglæpavæðing vændis ekki til aukins kynjamisréttis í heiminum?

Kynjamisrétti getur haft mikil áhrif á það hvort konur leiðist út í vændi. Glæpavæðing tekst ekki á við þann vanda heldur dregur aðeins úr öryggi þeirra. Sama á við um trans og karlkyns vændisfólk, sem margt hvert er samkynhneigt eða tvíkynhneigt, sem upplifir mismunun og ójöfnuð. Ríki þurfa að berjast gegn mismunun og skaðlegum staðalímyndum kynjanna, valdefla konur og aðra jaðarsetta hópa og tryggja að fólk hafi val á hvern hátt það aflar sér tekna.

Ýtir afglæpavæðing ekki undir mansal?

Afglæpavæðing vændis þýðir ekki að mansal sé án viðurlaga. Mansal er gróft mannréttindabrot. Ríki verða að hafa til staðar lög sem gera mansal refsivert. Beita þarf lögunum til að vernda þolendur og draga aðila sem standa að mansali fyrir dóm.

Engin áreiðanleg gögn benda til þess að afglæpavæðing vændis ýti undir mansal.

Glæpavæðing vændis getur hindrað baráttuna gegn mansali. Til dæmis geta þolendur verið tregir til að stíga fram af ótta við að lögreglan grípi til aðgerða gegn þeim fyrir að vera í vændi.

Á stöðum þar sem vændi er refsivert nýtur vændisfólk ekki verndar frá vinnustað sem gæti hjálpað til við að bera kennsl á og koma í veg fyrir mansal.

Ýmis samtök sem berjast gegn mansali eins og Freedom Network USA, the Global Alliance Against Traffic in Women og La Strada International telja að afglæpavæðing vændis myndi hafa jákvæð áhrif á baráttuna gegn mansali.

Af hverju ekki norræna leiðin í stað afglæpavæðingu?

Norræna leiðin felur í sér bann við kaupum á vændi og kaupum á vændi í gegnum þriðja aðila. Óháð ásetningi þá geta slík lög skaðað vændisfólk. Vændisfólkið þarf að taka aukna áhættu til að vernda kaupendur frá því að upp um þá komist. Til dæmis hefur vændisfólk tjáð Amnesty að það sé þvingað til að sækja kaupendur heim svo þeir geti forðast lögregluna. Það þýðir að vændisfólk missir ákveðna stjórn á aðstæðum og gæti þurft að stefna öryggi sínu í hættu.

Í norrænu leiðinni er vændisfólki enn refsað fyrir að vinna saman eða skipuleggja sig saman til þess að gæta að öryggi sínu. Það getur einnig staðið frammi fyrir erfiðleikum þegar kemur að því að tryggja sér húsnæði þar sem húsráðendur gætu átt yfir höfði sér kæru fyrir það eitt að leigja þeim húsnæði. Þetta getur leitt til þess að vændisfólk sé borið nauðugt út af heimilum sínum.

Verndar afglæpavæðing ekki „dólgana“?

Stefna Amnesty um afglæpavæðingu vændis snýst ekki um að vernda „dólga“. Einstaklingar sem misnota eða notfæra sér vændisfólk þurfa að svara til saka fyrir gjörðir sínar. Það fylgja lögum um „dólga“ veruleg vandamál. Þau skaða iðulega vændisfólkið vegna þess að þau eru of almenn og ekki nógu skýr. Sem dæmi er í mörgum löndum er það talið vera rekstur á hóruhúsi vinni tveir einstaklingar í vændi saman til þess að bæta öryggi sitt. Slík samvinna er því ólögleg. Amnesty International telur að lögin eigi að takast á við misneytingu, misnotkun og mansal í vændi en ekki gera líf vændisfólks óöruggara en ella.

Hvaða gögn styðja afglæpavæðingu vændis?

Amnesty International þróaði á rúmlega tveggja ára tímabili stefnu um verndun mannréttinda vændisfólks sem er byggð á traustum rannsóknum og ráðfæringum við fjölda samtaka og einstaklinga.

Litið var til þeirrar umfangsmiklu vinnu sem samtök eins og World Health Organisation, UNAIDS og aðrar stofnanir innan Sameinuðu þjóðanna hafa innt af hendi. Við horfðum einnig til þeirrar afstöðu sem önnur samtök hafa tekið, eins og Global Alliance Against Traffic in Women.

Amnesty International gerði ítarlegar rannsóknir í Argentínu, Hong Kong, Noregi og Papúa Nýju-Gíneu og ráðfærði sig við rúmlega 200 manneskjur í vændi víða um heim.

Deildir Amnesty um allan heim lögðu einnig sitt af mörkum til stefnunnar eftir samtal við hópa vændisfólks, hópa í forsvari fyrir fólk sem losnað hefur úr vændi, samtök sem styðja glæpavæðingu, femínista og aðra fulltrúa kvenréttindabaráttunnar, hinsegin aðgerðasinna, umboðsskrifstofur sem berjast gegn mansali, aðgerðasinna vegna HIV/alnæmis og marga aðra. Einnig var stuðst við fyrri rannsóknir Amnesty International þar sem komið var inn á misnotkun á vændisfólki.

Má þar nefna:

  • Skýrslu um ofbeldi gegn konum í Úganda sem greindi frá konum sem var tjáð að þær hefðu „beðið um það“ fyrst þær væru í vændi og að „konu í vændi gæti ekki verið nauðgað“.
  • Skýrslu um pyndingar í Nígeríu þar sem greint var frá vændisfólki sem var skotmark lögreglu og sætti nauðgunum og fjárkúgun.
  • Skýrslu um Túnis sem greindi frá viðkvæmri stöðu vændisfólks þar sem það sætti kynferðislegu ofbeldi, fjárkúgunum og þvingunum, fyrst og fremst af hálfu lögreglu.
Styður afglæpavæðing ekki vændisiðnaðinn?

Amnesty International hvorki styður né fordæmir vændi heldur fordæmir harðlega mannréttindabrot gegn vændisfólki og þá mismunun sem það stendur frammi fyrir. Afglæpavæðing er mikilvægt skref í áttina að því að tækla þennan vanda.

Afglæpavæðing vændis

Rannsókn Amnesty International

Papúa Nýja-Gínea

Í Papúa Nýju-Gíneu er ólöglegt að skipuleggja og hafa viðurværi sitt af vændi. Samkynhneigð er einnig refsiverð og er karlkyns vændisfólk einna helst sótt til saka á grundvelli þess.

Rannsókn Amnesty International leiddi í ljós að þessi hegningarlög gerðu lögreglunni kleift að hóta, kúga og handtaka vændisfólk að geðþótta. Vændisfólk í Papúa Nýju-Gíneu þarf að þola gífurlega útskúfun, mismunun og ofbeldi, þar á meðal nauðganir og morð.

Könnun sem framkvæmd var af rannsakendum árið 2010 leiddi í ljós að á sex mánaða tímabili hafði 50% vændisfólks í höfuðborg Papúa Nýju-Gíneu, Port Moresby, verið nauðgað af viðskiptavinum eða lögreglu. Amnesty International hlýddi á átakanlega vitnisburði frá vændisfólki sem var nauðgað og kynferðislega misnotað af lögreglu, viðskiptavinum og öðrum einstaklingum en var of óttaslegið til að tilkynna þessa glæpi þar sem það sjálft yrði álitið „ólöglegt“.

Lögreglan í Papúa Nýju-Gíneu hefur notað smokka sem sönnunargögn gegn vændisfólki, sem er oft útskúfað og ásakað um að vera „smitberar“. Það hindrar vændisfólk að afla sér upplýsinga og leita sér þjónustu varðandi kynheilbrigði, þar með talið HIV/alnæmi.

„Lögreglan byrjaði að berja vin minn [viðskiptavin] og mig… sex lögreglumenn komu vilja sínum fram við mig, einn af öðrum. Þeir voru vopnaðir byssum svo ég varð að láta undan. Ég hef engan stuðning til þess að leita til dómstóla og kæra þá. Þetta olli mér svo miklum sársauka en svo sleppti ég takinu. Ef ég leita til réttvísinnar er enga hjálp að finna þar sem að vændi er ólöglegt í Papúa Nýju-Gíneu.“

Mona, heimilislaus manneskja í vændi.

Hong Kong

Í Hong Kong er vændi ekki ólöglegt ef um er að ræða eina manneskju sem starfar í eigin íbúð. Að starfa eitt setur vændisfólk í viðkvæma stöðu og í aukna hættu á að verða fyrir ráni, líkamsárás eða nauðgun.

Vændisfólk í Hong Kong nýtur ekki aðeins takmarkaðrar verndar lögreglu heldur er það stundum skotmark hennar. Rannsókn Amnesty International sýnir að lögreglufulltrúar misbeita oft valdi sínu til þess að koma sök á og refsa vændisfólki með tálbeitum, fjárkúgunum og valdbeitingu. Leynilögreglu er veitt leyfi í starfi sínu til að fá ákveðna kynlífsþjónustu frá vændisfólki til þess að afla sönnunargagna.

Amnesty International skráði einnig tilvik þar sem lögreglumenn eða einstaklingar sem sögðust vera í lögreglunni sögðu vændisfólki að það gæti komist hjá viðurlögum með því að gefa þeim peninga eða „frítt“ kynlíf.

Trans fólk í vændi verður oft fyrir barðinu á hrottafengnum aðgerðum lögreglunnar, þar á meðal ágengri og niðurlægjandi líkamsleit sem lögreglumenn framkvæma á trans konum. Í kjölfar handtöku geta trans konur í vændi verið sendar í gæsluvarðhald ætlað körlum og á sérstakar deildir fyrir fanga með geðraskanir.

,,Ég hef aldrei kært nokkurn glæp eins og nauðgun þar sem ég er hrædd um að verða ákærð fyrir að selja vændi.“

Queen, í vændi.

Noregur

Í Noregi er ólöglegt að kaupa kynlíf en ekki selja. Annað sem tengist vændi er refsivert eins og að „stuðla vændi“ og leigja húsnæði undir vændi. Þrátt fyrir að algengt sé að vændisfólk verði fyrir ofbeldi og nauðgunum af hálfu viðskiptavina og skipulagðra glæpagengja þarf mikið til að það kæri ofbeldi til lögreglu.

Amnesty International fékk vitneskju um að sumt vændisfólk sem tilkynnt hefur ofbeldi til lögreglunnar í Noregi hafi verið borið út af heimili sínu eða rekið úr landi í kjölfarið.

Samkvæmt norskum lögum á vændisfólk á hættu að vera borið út nauðugt þar sem húsráðandi getur átt yfir höfði sér ákæru fyrir að leigja húsnæði til þess ef það er svo nýtt til að selja vændi. Ef húsráðendur bera fólk ekki út þá höfðar lögreglan mál á hendur þeim.

Fólk sem stundar vændi getur ekki ákveðið að starfa saman til að auka öryggi sitt eða leigt sér þjónustu, eins og öryggisgæslu frá þriðja aðila, þar sem slíkt myndi falla undir það að „stuðla að vændi“.

,,Ég fór heim til manns. Hann kýldi mig tvisvar í kjálkann. Ég sagði lögreglunni ekki frá. Ég vil ekki að það komi fram í skránum mínum.“

Viðmælandi í vændi.

Buenos Aires, Argentína

Formlega séð eru sala eða kaup á vændi ekki ólögleg í Buenos Aires í Argentínu en í reynd er það gert refsivert með beitingu annarra laga sem tengjast slíku athæfi og ekki er gerður greinarmunur á milli vændis með samþykki og mansals.

Rannsókn Amnesty International leiddi í ljós að það þyrfti mikið til að vændisfólk í Buenos Aires kærði ofbeldi til lögreglunnar. Ein sem stundar vændi sagði það tímasóun því ekki yrði hlustað á sig.

Vændisfólk er oft stöðvað á götum úti vegna geðþóttaákvarðana lögreglu og sumir sæta síendurteknum sektum og skilorðum. Vændisfólk sem starfar í eigin húsnæði sætir oft ofsafengnum og tímafrekum rannsóknum af hálfu lögreglunnar í Buenos Aires auk fjárkúgana.

Vændisfólk í Buenos Aires greindi einnig frá vandamálum varðandi aðgang að heilbrigðisþjónustu vegna mismunuar sem leiddi til þess að sumt vændisfólk forðaðist að sækja sér slíka þjónustu.

,,Við höfðum engan raunverulegan aðgang að heilbrigðisþjónustu þar sem að í hvert skipti sem við fórum á sjúkrahús var hlegið að okkur eða við vorum þau síðustu sem komumst að hjá læknunum.“

Viðmælandi sem var eitt sinn í vændi.

FYLGDU OKKUR Á SAMFÉLAGSMIÐLUM