Eftir rúmlega tveggja áratuga baráttu tók alþjóðlegur vopnaviðskiptasamningur loks gildi eftir að 130 lönd höfðu skrifað undir og 62 lönd fullgilt hann. Ísland varð fyrst ríkja heims til að fullgilda samninginn.
Á alþjóðavettvangi
Eftir rúmlega tveggja áratuga baráttu tók alþjóðlegur vopnaviðskiptasamningur loks gildi eftir að 130 lönd höfðu skrifað undir og 62 lönd fullgilt hann. Ísland varð fyrst ríkja heims til að fullgilda samninginn. Samningurinn skapar umgjörð sem stuðlar að því að vopn verði ekki seld til landa þar sem mannréttindabrot eru mikil og hætta er á vopnuðum átökum. Þannig eru takmörk sett á flutninga á vopnum og skotfærum með þeim afleiðingum að hægt verður að bjarga ótal mannslífum.
Í desember 2014 samþykktu 117 lönd ályktun frá allsherjaþingi Sameinuðu þjóðanna um að koma á aftökuhléi með það takmark að afnema dauðarefsingu í heiminum. Frá því að síðasta ályktunin var lögð fram í desember 2012 hafa Miðbaugs-Gínea, Erítrea, Fídjieyjar, Níger og Súrínam breytt atkvæði sínu og styðja nú ályktunina og Barein, Mjanmar, Tonga og Úganda kusu ekki lengur á móti heldur sátu hjá.
Í desember kom út skýrsla nefndar á vegum öldungadeildar Bandaríkjaþings um varðhaldsmiðstöðvar leyniþjónustu Bandaríkjanna CIA. Skýrslan afhjúpaði ekki aðeins sláandi upplýsingar um illa meðferð heldur einnig um hlut Evrópulanda sem voru samsek með því að útvega staði fyrir leynilegar varðhaldsmiðstöðvar eða aðstoðuðu bandarísk stjórnvöld með ólöglega flutninga, þvinguð mannshvörf, pyndingar og aðra illa meðferð á fjölda fanga.
Mið-Austurlönd
Í janúar 2014 samþykkti marokkóska þingið einróma að fylla í lagaglufu sem leyfði mönnum sem nauðguðu stúlku undir 18 ára aldri að komast hjá refsingu ef þeir lofuðu að giftast fórnarlambi sínu.
Ný stjórnarskrá tók gildi í Túnis í febrúar 2014. Fyrstu drög stjórnarskrárinnar voru lögð fram í júlí 2012 en síðan þá hafa verið gerðar verulegar endurbætur og eru nú þar nokkur ákvæði er tryggja mannréttindi. Meðal annars voru tillögur frá Amnesty International og fleiri aðilum, um að styrkja vernd mannréttinda innleiddar.
Í maí var samviskufanginn Jabeur Mejri frá Túnis leystur úr haldi eftir að hafa eytt tveimur árum í fangelsi fyrir að birta greinar á netinu og teiknimyndir sem voru taldar móðgun við íslam. Dómur hans og sakfelling hafa þó ekki verið felld niður.
Asía
Í desember 2014, stuttu eftir útgáfu skýrslu Amnesty International sem beinir athygli að pyndingum lögreglu á Filippseyjum, tilkynnti öldungarráð landsins að úttekt yrði gerð á umfangi pyndinga af hálfu lögreglu.
Í nóvember, þrjátíu árum eftir að rúmlega hálf milljón manna í Bhopal urðu fyrir eitrun eftir eitt stærsta iðnaðarslys í heiminum, samþykktu indversk stjórnvöld að endurskoða skaðabótamál sitt gegn Union Carbide út frá læknisfræðilegum og vísindalegum gögn.
Afríka
Meriam Ibrahim, ófrísk kona sem var dæmd til dauða fyrir trúvillu og neyddist til að fæða barn sitt fjötruð í fangelsi, var leyst úr haldi í júní 2014.
Sex árum eftir að tveir olíulekar eyðilögðu lifibrauð þúsunda á Bodo-svæðinu á óseyrum Nígerfljóts, varð lögsókn í Bretlandi til þess að Shell gerði dómsátt að upphæð 55 milljóna punda fyrir samfélagið sem hlaut skaða af vegna lekans.
Friðargæslusveit Sameinuðu þjóðanna var send til Mið-Afríkulýðveldisins og alþjóðadómstóllinn hóf forrannsókn á alþjóðaglæpum sem framdir hafa verið í landinu.
Lög gegn samkynhneigð í Úganda voru gerð ógild.
Evrópa
Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hóf málsmeðferð gegn Tékklandi vegna brots á banni við mismunun, en þar er Róma-börnum mismunað í skólakerfinu.
Eftir þrjú ár í fangelsi var hvítrússneski mannréttindafrömuðurinn Ales Bialiatski leystur úr haldi í júní 2014.
Í júlí, tveimur árum eftir að hann var fangelsaður fyrir hlut sinn í mótmælum gegn stjórnvöldum á Bolotnaya-torginu í Moskvu sem voru friðsamleg að mestu leyti, var Mikhail Kosenko leystur úr haldi af lokaðri geðdeild en sakfelling hans var þó ekki felld niður.
Frumvarp, sem lagt var fram á Spáni og hefði þýtt fjölmargar hindranir á aðgangi að öruggri og löglegri fóstureyðingu og sett líf og heilsu kvenna og stúlku í hættu, var dregið til baka.
