Alþjóðadagur horfinna: þvinguð mannshvörf í Pakistan

Þetta er það versta sem hent getur nokkra manneskju. Ef ástvinur deyr þá syrgir þú og góðvinir hughreysta þig.

„Þetta er það versta sem hent getur nokkra manneskju. Ef ástvinur deyr þá syrgir þú og góðvinir hughreysta þig. Smám saman lærir þú að sætta þig við missinn. Allt öðru máli gegnir hins vegar um ástvin sem horfið hefur sporlaust… það er sárasta kvölin.“

Þannig lýsir Amina Masood Janjua frá Pakistan þeirri lamandi angist sem fylgir því þegar ástvinur er látinn hverfa og ættingjum gert að lifa í algerri óvissu um afdrif hans. Eiginmaður Aminu, Masood Ahmed Janjua, „hvarf“ í júlí 2005 fyrir tilverknað Pervez Musharraf, fyrrum forseta landsins, og ekkert hefur spurst til hans síðan. Talið er að Masood sé enn í haldi leyniþjónustu Pakistan en ekki er vitað um dvalarstað eða afdrif hans. Engin réttarhöld hafa heldur átt sér stað í máli Masood. Leyniþjónustan hefur endurtekið neitað allri vitneskju um hvar hann er niðurkominn.

Taktu þátt í aðgerð okkar og þrýstu á pakistönsk stjórnvöld: http://www.netakall.is/adgerdir/hvar-er-masood-janjua/

Tilfelli Masood er eitt af 50.000 þvingaðra mannshvarfa sem vinnuhópur á vegum Sameinuðu þjóðanna hefur haldið skráningu yfir allt frá árinu 1980. Það þýðir að fimm einstaklingar eru að meðaltali fórnarlömb þvingaðra mannshvarfa á degi hverjum í um 90 löndum.

Í tilefni þess að 30. ágúst er alþjóðadagur til minningar um horfna og ættingja þeirra, er vert að vekja athygli á þessu grófa mannréttindabroti sem teygir anga sína um allan heim.

Allt frá því að Pakistan tók saman höndum við Bandaríkjastjórn í hinu svokallaða stríði gegn hryðjuverkum árið 2001 hafa hundruða ef ekki þúsunda einstaklinga horfið í landinu sem afleiðing af þvinguðum mannshvörfum. Ekki er aðeins um innlenda ríkisborgara að ræða heldur jafnframt erlenda. Aðgerðir yfirvalda beinast ekki einungis gegn grunuðum hryðjuverkamönnum heldur jafnframt pólitískum andstæðingum pakistanskra stjórnvalda. Börn allt niður í níu ára aldur hafa jafnfram sætt þvinguðum mannshvörfum í landinu. Langflestir, ef ekki allir, hafa þurft að þola pyndingar eða aðra illa og ómannúðlega meðferð. Margir hafa látið lífið af þessum völdum.

Hinum „horfnu” er haldið í leynilegu varðhaldi og stjórnvöld neita að upplýsa um örlög þeirra eða dvalarstað. Lagaleg vernd nær því ekki til horfinna fanga sem eru einangraðir frá umheiminum og algerlega á valdi gæslumanna sinna. Þeir hafa engan aðgang að lögfræðingum, ættmennum eða læknum. Leyndin sem hvílir yfir varðhaldinu greiðir aftur fyrir yfirhylmingu á frekari mannréttindabrotum sem þeir líða fyrir, m.a. pyndingum eða illri meðferð og gerir stjórnvöldum kleift að skorast undan ábyrgð.