Alþjóðlegt: Helstu lyfjaframleiðendur Covid-19 bóluefnanna ýta undir mannréttindaneyð

Ný skýrsla Amnesty International, A Double Dose of Inequality: Pharma companies and the Covid-19 vaccines crisis, greinir frá því hvernig sex helstu lyfjaframleiðendur Covid-19 bóluefnanna ýta undir mannréttindaneyð. Fyrirtækin hafa ekki forgangsraðað dreifingu bóluefnanna til fátækari landa og neita að afsala hugverkaréttindum og deila tækniþekkingu.

Fyrirtækin sem voru skoðuð í skýrslunni eru AstraZeneca plc, BioNTech SE, Johnson & Johnson, Moderna, Inc., Novavax, Inc. og Pfizer, Inc.

„Að bólusetja heimsbyggðina er eina leiðin út úr þessum faraldri. Nú hefði átt að vera tíminn til að fagna lyfjafyrirtækjunum sem hetjum fyrir skjóta framleiðslu á bóluefnum. En raunin er önnur, stóru lyfjafyrirtækin neita að deila þekkingu og forgangsraða dreifingu bóluefnanna til ríkari landa sem hefur leitt til bóluefnaskorts í öðrum fátækari löndum með hrikalegum afleiðingum, sem er þeim til skammar og okkur öllum til ama.“

Agnès Callamard, aðalframkvæmdastjóri Amnesty International.

Mannréttindaskyldur fyrirtækja

Amnesty International skoðaði eftirfarandi hjá ofangreindum lyfjafyrirtækjum til að kanna viðbrögð þeirra við kórónuveirufaraldrinum:

  • Mannréttindastefnur
  • Verðlagningu bóluefna
  • Skráningar á hugverkaréttindum
  • Deilingu þekkingar og tækni
  • Sanngjarna dreifingu bóluefnaskammta
  • Gagnsæi

Öll fyrirtækin sem voru skoðuð í skýrslunni hafa hingað til neitað að taka þátt í alþjóðlegum framtaksverkefnum sem sett hafa verið af stað til að auka framboð á bóluefni á heimsvísu með því að miðla þekkingu og tækni. Þau hafa einnig neitað tillögum um tímabundið afsal hugverkaréttinda, eins og t.d. tillaga frá Suður-Afríku og Indlandi um tímabundna undanþágu frá samningi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar um hugverkaréttindi í viðskiptum (TRIPS) fjallaði um.

„Neyðin versnar í Suður-Ameríku, Afríku og Asíu. Veikburða heilbrigðiskerfi eru að hruni komin sem veldur tugþúsundum dauðsfalla vikulega sem hægt væri að koma í veg fyrir. Í mörgum lágtekjulöndum hafa hvorki heilbrigðisstarfsfólk né áhættuhópar verið bólusett.“

Agnès Callamard, aðalframkvæmdastjóri Amnesty International.

Niðurstöður

  • Pfizer og BioNTech hafa úthlutað níu sinnum fleiri skömmtum til Svíþjóðar eingöngu en til allra fátækra ríkja heimsins samanlagt. Aðeins 1% af framleiðslu þeirra hefur verið dreift til þessara ríkja. Áætlað er að fyrirtækin hagnist um 86 milljarða dollara í lok árs 2022.
  • Moderna hefur ekki enn úthlutað einum einasta skammti til fátækra ríkja og aðeins 12% af skömmtunum hefur farið til lægri-meðaltekjulanda. Fyrirtækið úthlutar ekki meirihlutanum af COVAX pöntunum fyrr en árið 2022. Áætlað er að fyrirtækið hagnist um 47 milljarða dollara í lok árs 2022.

„Á meðan þessi ójöfnuður á sér stað er áætlað að fyrirtækin BioNTech, Moderna og Pfizer muni hagnast um 130 milljarða bandaríkjadollara í lok árs 2022. Hagnað á ekki að setja ofar lífi fólks.“

Agnès Callamard, aðalframkvæmdastjóri Amnesty International.
  • Johnson & Johnson selur bóluefnið á kostnaðarverði en mun ekki uppfylla skuldbindingar sínar við COVAX og Afríkusambandið fyrr en árið 2022. Fyrirtækið hefur neitað að veita kanadískum framleiðanda leyfi til að framleiða milljónir skammta til viðbótar.
  • AstraZeneca hefur úthlutað flestum skömmtum til lágtekjulanda, selur bóluefnið á kostnaðaverði og hefur veitt öðrum framleiðsluleyfi. Hins vegar neitar fyrirtækið að deila þekkingu sinni og tækni í verkefnum á vegum Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar og hefur andmælt tillögu um undanþágu frá samningi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar um hugverkaréttindi í viðskiptum (TRIPS).
  • Novavax bóluefnið hefur ekki verið samþykkt til notkunar en fyrirtækið Novovax stefnir á að úthluta 2/3 af framleiðslu sinni til COVAX-verkefnisins. Hins vegar, eins og hin fyrirtækin, hefur það neitað að deila þekkingu og tækni sinni ásamt því að hafa andmælt tillögu um undanþágu frá samningi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar um hugverkarétt í viðskiptum (TRIPS).

100 dagar til stefnu

„Í dag eru 100 dagar til lok ársins 2021. Við köllum eftir því að ríki og lyfjafyrirtæki geri allt í sínu valdi til að úthluta 2 milljörðum bóluefnaskammta til lág- og lægri-meðaltekjulanda án tafar. Enginn ætti að þurfa að þjást enn eitt árið og lifa í ótta,“ segir Agnès Callamard.

100 dagar til stefnu: Tveir milljarðar bóluefnaskammta núna! er yfirskrift herferðar Amnesty International með stuðningi Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar og Mannréttindastofnunar Sameinuðu þjóðanna. Herferðin krefst þess að:

  • Markmiði Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar um að hafa bólusett 40% af fólki í lágtekjulöndum og lægri-meðaltekjulöndum í lok árs verði mætt. Sem þýðir úthlutun 2 milljarða bóluefnaskammta til þessara landa.
  • Að ríki dreifi hundruðum milljóna umframbirgða af bóluefnaskömmtum sem þau hafa sankað að sér og að lyfjaframleiðendurnir tryggi að a.m.k. helmingi skammtanna  sé dreift til þessara landa.

„Bólusetningar gegn Covid-19 verða að vera fáanlegar og aðgengilegar öllum. Stjórnvöld og lyfjafyrirtæki þurfa að tryggja það. Leiðtogar heims, þar á meðal Biden Bandaríkjaforseti, þurfa að leggja fram milljarða skammta og tryggja afhendingu vörunnar. Annars er þetta bara enn eitt tómt loforð og fleiri líf munu glatast.“

Agnès Callamard, aðalframkvæmdastjóri Amnesty International.