Alþjóðlegt: Rannsókn á misbeitingu kylfa og svipaðra skaðminni vopna lögreglunnar

Alltof oft er lögreglan of fljót að grípa til valdbeitingar, oft gegn friðsömum mótmælendum sem eru einungis að nýta rétt sinn til að koma saman með friðsömum hætti. Á undanförnum árum og á tímum heimsfaraldursins hafa stjórnvöld víðs vegar um heim takmarkað tjáningarfrelsið og réttinn til friðsamlegrar samkomu, oft með ofbeldisfullum hætti.

Lögreglu ber skylda til að greiða fyrir opinberu samkomuhaldi ásamt því að vernda rétt einstaklingsins til að mótmæla. Almennt séð skal gera ráð fyrir friðsamlegri samkomu. Beiting valds getur verið nauðsynleg í löggæslu, en aðeins í undantekningartilvikum! Beita skal eins litlu valdi og mögulegt er og vopn skulu einungis notuð þar sem lagaheimild er til staðar, í algjörri nauðsyn og meðalhófs skal ávallt gætt.

Lestu meira um réttinn til að mótmæla hér.

Amnesty International hefur rannsakað misbeitingu á skaðminni vopnum lögreglunnar í áratugi. Þann 9. september kom út skýrslan Blunt Force sem snýr að misbeitingu á lögreglukylfum.

Skaðminni vopn

Skaðminni vopn, eins og kylfur, eiga að gera lögreglunni kleift að beita lágmarks valdi og eru ekki hönnuð til að deyða.Notkun þessara vopna er lögmæt í einhverjum tilvikum samkvæmt mannréttindalögum. Hins vegar er þessum vopnum oft misbeitt af lögreglu, sem getur valdið miklum líkamlegum og andlegum skaða og brýtur á réttindum mótmælenda.

Lögreglan skal ætíð hafa í huga að beiting skaðminni vopna getur mögulega valdið alvarlegum miska og jafnvel dauða. Skaðminni vopnum skal einungist beitt hóflega og þar sem nauðsyn krefur. Kylfur eru algengustu vopn lögreglunnar og er þeim oft beitt óhóflega. Önnur vopn eins og ein tegund af stífri svipu (e. sjambok) ættu að vera bönnuð við löggæslu því þau valda óþarfa sársauka og meiðslum og eru í eðli sínu skaðleg.

Rannsóknin

Rannsóknin um barefli snýr að misbeitingu á lögreglukylfum og öðrum svipuðum skaðminni vopnum, eins og prikum og svipum.

Hundruð ljósmynda og myndbanda staðfesta 188 tilfelli um misbeitingu á þessum vopnum í 35 löndum. Þar eru dæmi um óhóflega valdbeitingu lögreglu í fjöldamótmælum í Hvíta-Rússlandi, Kólumbíu, Frakklandi, Indlandi og Mjanmar. Rannsóknin sýnir að lögreglukylfur hafa ýmist verið beitt til að berja fólk í refsingarskyni, á fólk sem er nú þegar yfirbugað og á höfuð og háls fólks. Eitt kylfuhögg getur verið það öflugt að viðkomandi fellur til jarðar. Dæmi eru um það að kylfum sé beitt í kynferðisofbeldi.

Skortur er á reglugerðum vegna viðskipta með lögregluvopn og búnað. Á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna á næsta ári munu ríki greiða atkvæði um ályktun er varðar alþjóðlegan lögbundinn samning um mannréttindamiðaðar reglugerðir á viðskiptum með lögmæt lögregluvopn og búnað en hægt að nota sem tól til að beita pyndingum og annarri illri meðferð. Samningurinn myndi einnig banna viðskipti með búnað sem er í eðli sínu skaðlegur.

Ríkjum ber skylda til að virða, vernda og uppfylla réttinn til að mótmæla og efla fólk til þátttöku í friðsamlegum samkomum.

Dæmi um mannréttindabrot vegna misbeitingu skaðminni lögregluvopna

Tegund ofbeldis: Óréttmæt og hættuleg högg á höfuð og háls

Staðsetning: Hong Kong

Dagsetning: September 2019

Ungur mótmælandi í Hong Kong er ítrekað barinn með kylfu af nokkrum óeirðarlögreglumönnum í fullum búnaði á neðanjarðarlestarstöð. Einn af lögreglumönnunum ber hann í höfuðið. Honum er haldið föstum á jörðinni á meðan hann er handjárnaður. Hann er blóðugur á höfðinu þar sem hann var sleginn.

Greining Amnesty International: 

  • Höfuðhögg eru hættuleg, hægt er að beita öðrum hóflegum leiðum við handtöku.
  • Það telst til pyndinga þegar lögregla beitir afli í þeim tilgangi að valda verulegum sársauka eða þjáningu.

Tegund ofbeldis: Óhófleg valdbeiting

Staðsetning: Kólumbía

Dagsetning: Apríl 2021

Mótmælandi í Kólumbíu er umkringdur a.m.k. fimm lögreglumönnum upp við vegg fyrir utan útibú bankans Bancolombia og á enga undankomuleið. Einn af lögreglumönnunum tekur upp kylfu og byrjar að berja mótmælandann. Enginn lögreglumaður grípur inn í til að stöðva barsmíðarnar. Lögreglumaðurinn ber mótmælandinn ítrekað með kylfu  og stuttu síðar byrjar annar að sparka í hann.

Greining Amnesty International:

  • Það er við afar takmarkaðar aðstæður sem yfirvöld geta með réttmætum hætti beitt kylfum á samkomum. Í raun má aðeins beita kylfum til að bregðast við ofbeldi eða tafarlausrar hættu á ofbeldi.
  • Högg á höfuð eða háls með kylfu fela í sér hættu á alvarlegum meiðslum og ber að forðast.
  • Valdbeiting var ónauðsynleg og óhófleg miðað við aðstæður og er því brot á alþjóðalögum.

Tegund ofbeldis: Barinn á meðan honum er haldið

Staðsetning: Hvíta-Rússlands

Dagsetning: Desember 2020

Þrír óeirðarlögreglumenn leiða mótmælanda niður stiga. Lögreglumaður lemur aftan í fótleggi mótmælendans jafnvel þó að hann sé ekki að streitast gegn handtöku. Hann er barinn í höfuðið með kylfu og kýldur í andlitið og magann á meðan annar lögreglumaður heldur honum.

Greining Amnesty International:

  • Kylfuhögg á einstakling sem lætur vel að stjórn er ónauðsynleg og óhófleg.
  • Höggin voru ætluð til refsingar sem jafngildir pyndingum og annarri illri, ómannlegri og niðurlægjandi meðferð. Það telst sem mannréttindabrot.

Tegund ofbeldis: Kynferðisofbeldi

Staðsetning: Frakkland

Dagsetning: Maí 2019

Nokkrir lögreglumenn umkringja mótmælanda sem liggur á jörðinni. Mótmælandi er ósamvinnuþýður við lögreglu. Á einum tímapunkti stingur lögreglumaður kylfunni aftan frá ofan í buxur mótmælandans.

Greining Amnesty International:

Kynferðisofbeldi með kylfu telst til pyndinga og annarrar illrar, ómannlegrar og niðurlægjandi meðferðar. Það er ólöglegt og brot á mannréttindum.

Tegund ofbeldis: Barsmíðar sem refsing

Staðsetning: Mjanmar

Dagsetning: Mars 2021

Upptaka öryggismyndavélar frá mótmælum eftir valdarán í Mjanmar sýnir lögreglumann reka fólk út úr sjúkrabíl sem lítur út fyrir að vera heilbrigðisstarfsfólk. Hann lætur svo fólkið krjúpa og ber það í höfuðið með riffilskefti. Seinna í upptökunni mæta fleiri lögreglumenn sem berja fólkið með kylfum.

Greining Amnesty International:

  • Barsmíðar, með kylfum eða vopnum eins og riffilskefti, sem refsing telst til pyndinga og annarrar illrar, ómannlegrar og niðurlægjandi meðferðar .
  • Högg á höfuð eða háls með kylfu er ávallt hættuleg. Högg með riffilskefti geta að sama skapi valdið alvarlegum áverkum. Þetta er mannréttindabrot.

Tilmæli

Amnesty International kallar eftir því að ríki innleiði reglugerðir í eigin landi og styðji gerð alþjóðlegs og skuldbindandi samnings um viðskipti með lögregluvopn og búnað sem eru notuð sem tól til að beita pyndingum og annarri illri meðferð. Einnig ætti að banna og hindra öll viðskipti með lögregluvopn og búnað sem eru í eðli sínu ætlað að valda skaða, t.d. gaddakylfur, stífar svipur (e. sjambok), ýmis rafstuðstól og niðurlægjandi eða sársaukafullir fjötrar.

Öll ríki verða að setja reglur um útflutning og innflutning á lögmætum lögreglubúnaði sem auðvelt er að misnota, t.d. kylfur, táragas, piparúði og gúmmíkúlur. Leyfi til útflutnings má aðeins gefa út eftir ítarlegt áhættumat á mögulegri misbeitingu búnaðarins sem leiðir til mannréttindabrota. Leyfi skal hafnað ef talin er hætta á misbeitingu.