Ályktun Íslands og Þýskalands í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna er fagnaðarefni

Íslandsdeild Amnesty International fagnar ályktun Íslands og Þýskalands í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna um að stofnuð verði sjálfstæð og óháð rannsóknarnefnd sem safna á upplýsingum og gögnum sem nýst geta til að draga gerendur til ábyrgðar sem hafa brotið á mannréttindum friðsamra mótmælenda í Íran undanfarnar vikur. Ályktunin var lögð fram á sérstökum aukafundi mannréttindaráðsins um hríðversnandi stöðu mannréttinda í Íran.

Undanfarnar vikur hafa fjölmenn mótmæli geisað í Íran þar sem konur og stúlkur í broddi fylkingar hafa krafist þess að njóta grundvallarmannréttinda vegna dauðsfalls konu sem lést í kjölfar varðhalds siðferðislögreglunnar. Siðferðislögreglan hefur reglubundið handtekið konur og stúlkur af geðþótta, pyndað og beitt illri meðferð fyrir að fylgja ekki svívirðilegum, niðr­andi og óréttlátum lögum um skyldunotkun höfuðslæða. Írönsk yfirvöld hafa ekki þurft að sæta ábyrgð vegna morða á hundruðum mótmælenda eða illrar meðferðar á þúsundum þeirra.

Framganga Íslands mikilvæg

Ísland og Þýskaland fóru fram á að sérstakur aukafundur yrði haldinn á vettvangi mannréttindaráðsins sem á sjötta tug aðildarríkja Sameinuðu þjóðanna studdi. Á aukafundinum lögðu Ísland og Þýskaland fram ályktun um að stofnuð yrði rannsóknarnefnd í þeim tilgangi að safna upplýsingum og gögnum um þau mannréttindabrot sem eiga sér enn stað í Íran til að hægt verði að draga gerendur til ábyrgðar. Ályktunin var samþykkt með 25 atkvæðum gegn 6 en 16 sátu hjá.

Með samþykkt ályktunarinnar lýsir mannréttindaráð yfir áhyggjum sínum af ástandinu í Íran og sendir skýr skilaboð um að alþjóðasamfélagið líti ekki undan refsileysi vegna alvarlegra mannréttindabrota.

Framganga Íslands í mannréttindaráðinu er afar mikilvæg og góð hvatning til annarra smáríkja. Íslensk stjórnvöld sýndu ábyrgð í verki með því að leggja fram ályktunina og þar með fylgja eftir fyrri gagnrýni sinni á írönsk stjórnvöld.

Íslandsdeild Amnesty International hvetur Ísland til að halda áfram að sýna leiðtogafærni, standa vörð um mannréttindi á alþjóðavettvangi með því að fylgja ályktuninni eftir og styðja við aðgerðir til að tryggja ábyrgðarskyldu stjórnvalda í Íran vegna mannréttindabrota.

Ályktunin fylgir í kjölfar áralangrar herferðar Amnesty International sem kallað hefur eftir því að alþjóðasamfélagið grípi til aðgerða vegna versnandi stöðu mannréttinda í Íran. Nýlega söfnuðust 1948 undirskriftir í ákalli til utanríkisráðherra Íslands þar sem krafist var að Ísland beitti sér á vettvangi Sameinuðu þjóðanna um að setja af stað óháða rannsókn á alvarlegustu mannréttindabrotunum gegn mótmælendum í Íran til að tryggja að gerendur verði dregnir til ábyrgðar.

Því er afar ánægjulegt að Ísland og Þýskaland hafi með þessari ályktun sýnt mikilvægt frumkvæði á alþjóðavettvangi þar sem tími var kominn til að ríki Sameinuðu þjóðanna brugðust við refsileysi íranskra yfirvalda.