Amnesty International fagnar frestun réttarhalda í Gvantanamó

Amnesty International fagnar ákvörðun Barack Obama um að fresta öllum réttarhöldum sem fyrirhuguð voru fyrir herdómsstól í Gvantanamó. Samtökin binda miklar vonir við að þessi fyrstu skref forsetans við stjórnvölin gefi vísbendingar um fyrirætlun hinnar nýju ríkisstjórnar að hverfa frá öllum ólögmætum aðgerðum sem fráfarandi stjórn hefur beitt sér fyrir. Blikur eru á lofti um mikilvæga stefnubreytingu í mannréttindamálum Bandaríkjanna.

Amnesty International  lýsti  því yfir á þriðjudaginn síðastliðinn að þessi fyrstu skref nýrrar ríkisstjórnar lofuðu góðu. Þau vonuðust til að þeim yrði fylgt eftir með lokun Gvantanamó fangabúðanna og að horfið yrði að fullu frá þessum ólögmætu réttarhöldum.

Amnesty International benti á að Barack Obama hafi undirstrikað í innsetningarræðu sinni að skýr þörf væri á að segja skilið við fortíðina. „Forsetinn kvað valið á milli þjóðaröryggis og hugsjóna byggt á fölskum forsendum, og fagna samtökin því.“

 

Í tilskipun sem gefin var út þann 20. janúar er kveðið á um hundrað og tuttugu daga frest á fyrirhuguðum réttarhöldum í Gvantanamó yfir fimm föngum sem sætt hafa leynilegu gæsluvarðhaldi undir eftirliti Leyniþjónustu Bandaríkjanna.

Fram kom í fyrrgreindri tilskipun að fresturinn væri nauðsynlegur til að ný ríkisstjórn gæti vandlega farið yfir mál Gvantanamó-fanga sem ekki verða leystir úr haldi í bráð, fluttir til síns heima eða til þriðja lands. Meta þarf hvort lögsókn á hendur þessum föngum eigi rétt á sér og hvaða vettvangur hentar lögsókn af þessu tagi í framtíðinni.

 

Framkvæmdastjóri Amnesty International, Irene Khan sagði „að opinber tilskipun Barack Obama um lokun Gvantanamó fangabúðanna væri stórt stökk fram á við og „ merki um að ný ríkisstjórn væri viljug að hverfa frá misgjörðum fortíðarinnar. Með því að láta lokun Gvantanamó hafa algeran forgang á fyrstu fjörtíu og átta stundunum í embætti, sendir Barack Obama, þau mikilvægu skilaboð til heimsins, að nú séu Bandaríkin að loka á myrkan kafla í sögu þjóðarinnar.“

 

Í tilskipun forsetans, sem var undirrituð í dag kemur fram að fangabúðunum „skuli lokað eins skjótt og framkvæmanlegt er, og eigi síðar en að ári liðnu frá undirritun þessarar tilskipunar.“

Að sögn Amnesty International vísar tilvísunin; „eins skjótt og framkvæmanlegt er“, til brýnnar nauðsynjar og sendir út þau skilaboð að þeim föngum sem ekki hafa sætt ákæru hefði átt að leysa úr varðhaldi fyrir mörgum árum.

 

Bandarísk stjórnvöld hafa varið umtalsverðu fjármagni í starfrækslu Gvantanamó fangabúðanna á undanförnum sjö árum og ættu nú að verja orku sinni og fjármunum í að tryggja skjóta og lögmæta lokun þeirra. Sú barátta sem Amnesty International og önnur mannréttindasamtök hafa háð á undanförnum árum fyrir lokun Gvantanamó hefur loks borið ávöxt. Við treystum á ríkisstjórn Obama að halda áfram á sömu braut og bæta upp fyrir þau mörgu mistök sem fráfarandi ríkisstjórn hefur framið á undanförnum árum í nafni baráttunnar gegn hryðjuverkum.

Barack Obama undirritaði aðra tilskipun í dag sem mælir fyrir um að allir starfmenn sem starfa í umboði ríkisins skuli fara að ákvæðum í handbók bandaríska hersins frá árinu 2006, en þau leggja blátt bann við tilteknum aðferðum „ef þær eru notaðar samhliða yfirheyrslu; þar með talið „pyndingaraðferðir í vatni (pyndingaraðferð sem líkist drukknun og var hleypt á stokkana af Leyniþjónustu Bandaríkjanna) þvinguð nekt eða kynferðislega niðurlægjandi aðferðir, barsmíðar, rafmagnsstuð, notkun á kuflhettum, öfgar í hitastigi eða sviðsettar líflátsaðgerðir.

Fyrrgreind tilskipun mælir jafnframt fyrir um að Leyniþjónusta Bandaríkjanna loki öllum leynifangelsum, hvar sem þau kunna að vera niðurkominn og leggur bann við starfrækslu slíkra fangelsa í framtíðinni.