Amnesty International hvetur öryggisráð Sameinuðu þjóðanna til að krefjast þess að Ísrael, Hamas og vopnaðir palestínskir hópar komi tafarlaust á vopnahléi á Gasa og heimili brýna mannúðaraðstoð til íbúa svæðisins.
Amnesty International hvetur öryggisráð Sameinuðu þjóðanna til að krefjast þess að Ísrael, Hamas og vopnaðir palestínskir hópar komi tafarlaust á vopnahléi á Gasa og heimili brýna mannúðaraðstoð til íbúa svæðisins. Slíkt vopnahlé þarf einnig að tryggja að særðum verði komið undir læknishendur og að óbreyttir borgarar geti yfirgefið átakasvæðið og komist í öruggt skjól.
Mannfall og eignaspjöll á Gasa eiga sér ekki fordæmi. Neyð almennings á Gasa er slík að grípa verður til aðgerða nú þegar. Öryggisráðið má ekki þaga þunnu hljóði. Það getur og verður að bregðast tafarlaust við ástandinu.
Áhyggjur af óbreyttum borgurum á svæðinu fara vaxandi, sérstaklega þeim 1.5 milljónum Palestínumanna sem eru innilokaðir á Gasa-svæðinu. Neyðarástand hefur skapast vegna látlausra árása Ísraela og margra mánaða viðskiptabanns.
Ljóst er að allar fylkingar í átökunum hafa vanvirt alþjóðleg mannúðarlög. Öryggisráðinu ber skylda til að sjá til þess að stríðandi aðilar virði alþjóðleg mannréttinda- og mannúðarlög. Áríðandi er að það samþykki þegar í stað ályktun þar sem fordæmdar eru árásir bæði Ísraelsmanna og Hamas á óbreytta borgara og þess krafist að slíkum árásum linni tafarlaust, enda líða óbreyttir borgarar á Gasa hörmungar vegna ástandsins.
Amnesty International hvetur öryggisráðið til að krefjast þess að Ísrael aflétti takmörkunum á mannúðaraðstoð inn á Gasa – lyfjum, mat, eldsneyti og öðrum brýnum nauðsynjum fyrir almenning – og leyfi fólki er starfar við mannúðar- og mannréttindastörf sem og fjölmiðlafólki að komast inn á svæðið. Tafarlaust vopnahlé myndi að minnsta kosti gefa færi á að koma brýnum nauðsynjum til Gasa, tryggja brottflutning óbreyttra borgara, aðhlynningu særðra og greftrun látinna.
Með örfáum undantekningum hefur fjölmiðlafólki og þeim er starfa að mannúðar- og mannréttindamálum verið meinað að fara til Gasa frá því snemma í nóvember. Brýnt er að þeim verði hleypt þangað tafarlaust svo hægt sé að gera óháða úttekt á þörfinni fyrir neyðaraðstoð og skýra frá aðstæðum á vettvangi, þar á meðal brotum á alþjóðalögum.
Bakgrunnur
Meira en 500 Palestínumenn hafa látist í loftárásum og öðrum árásum Ísraelsmanna frá 27. desember. Þeirra á meðal eru yfir 100 óvopnaðir borgarar, þar á meðal tugir barna, sem og um 165 lögreglumenn, sem tóku engan þátt í bardögunum. Yfir 2.000 óbreyttir borgarar hafa særst í árásum Ísraelsmanna. Margar árásir Ísraela hafa beinst að palestínskum vígamönnum og leiðtogum Hamas, en aðrar árásir að byggingum sem ekki tengjast hernaði. Þær hafa snúist að óbreyttum borgurum eins og lögregluskólanemum, eða verið óhóflegar og sett íbúa í bráða hættu með þeim afleiðingum að tala óbreyttra borgara sem látast í innrásinni vex stöðugt. Talið er að fjöldi muni einnig falla í árásum landhers Ísraelsmanna, sem hófust þann 3. janúar og með notkun þungavopna á þéttbýlissvæðum.
Fimm Ísraelsmenn hafa látist í árásunum, þar á meðal þrír einstaklingar sem létust þegar palestínskum eldflaugum var skotið frá Gasa.
Meðal þeirra sem látist hafa í loftárásum Ísraelsmanna eru:
Abed Rabbo al-Astal, 8 ára, bróðir hans Muhammad, 12 ára, og tíu ára frændi þeirra, Abd-al-Sattar, sem voru drepnir þann 2. janúar þegar þeir léku sér nálægt heimili sínu í þorpinu al-Qarara, fyrir austan Khan Yunis (á sunnanverðu Gasa).
Sujud Dardsawi, 13 ára, lést af sárum sínum eftir árás á heimili hennar í Gasa-borg þann 2. janúar.
Læknirinn Ihab al-Madhoun og bráðaliðinn Muhammad Abu Hasida voru drepnir þann 31. desember þegar þeir reyndu að flytja burt fólk sem særðist í árás í austanverðri Gasa-borg. Sjúkrabifreið þeirra skemmdist líka í loftárásinni.
Næturvörður var drepinn þann 3. janúar þegar Alþjóðaskólinn í norður-Gasa var eyðilagður í loftárás Ísraelsmanna. Skólinn þykir ein best menntastofnun í Gasa og þar sækja hundruð skólabarna frá leikskólaaldri að 12 ára aldri menntun sína.
Ísraelski herinn hefur notað stórskotaliðsárásir, en vitað er að slíkar árásir eru ákaflega ómarkvissar og ætti aldrei að nota á þéttbýlissvæðum.
Ísraelskar flugvélar hafa varpað dreifiritum þar sem íbúar Gasa eru hvattir til að yfirgefa svæðið, þó þeir geti það ekki, og valdið ofsahræðslu og uppnámi meðal íbúanna. Dreifitunum virðist hafa verið varpað af handahófi og sama á við um símtöl frá ísraelska hernum til Palestínumanna þar sem þeir eru hvattir til að yfirgefa heimili sín til að forðast árásir.
Einn íbúi Gasa, sem styður Fatah hreyfingu palestínska forsetans, Mahmoud Abbas, sagði Amnesty International:
„Börnin mín sjá dreifiritin og verða frávita af ótta, þau vilja yfirgefa heimilið, en við getum ekkert farið. Fjölskylda mín og fjölskylda konunnar minnar búa nálægt landamærunum, þar sem ástandið er jafnvel enn alvarlegra, og við getum einfaldlega ekki farið og haldið okkur á víðavangi, það er jafn hættulegt, börn hafa verið drepin þar sem þau eru á gangi eða að leik á götum úti. Við höfum ekkert rafmagn, við getum ekki einu sinni fundið mat og við erum ekki einu sinni óhult á heimilum okkar. Við erum ekkert tengd Hamas, þau samtök hafa áreitt okkur og handtekið, en árásir Ísraelsmanna eru handahófskenndar. Enginn er óhultur.“
Ísrael ber skýr skylda samkvæmt alþjóðalögum að heimila mannúðaraðstoð til almennra borgara og verður veita slíka heimild þegar í stað. Þess í stað hefur Ísrael komið í veg fyrir að nauðsynleg lyf, matvæli, eldsneyti og rafmagn berist til íbúa og þannig brotið gegn skyldum sem hernámsríki.
Neyðarástandið, sem skapaðist vegna viðskiptabanns Ísrael gagnvart Gasa frá júní 2007, hefur magnast undanfarnar tvær vikur. SÞ og alþjóðlegar hjálparstofnanir greina frá því að alvarlegur matarskortur sé á svæðinu. Alþjóðlegi Rauði krossinn segir að árásir Ísraela hafi skemmt vatnsdreifikerfið og að sumar fjölskyldur eigi erfitt með að fá hreint vatn og sjúkrastofnanir skorti ýmis nauðsynleg læknagögn og þurfi að reiða sig á rafmagn frá rafölum, sem séu ótryggir. Barnaspítali Gasa greinir frá því að flestar rúður í spítalanum séu farnar vegna höggbylgna frá sprengingum og að plast hafi verið sett í þeirra stað til að verjast gegn kulda. Í loftárás sem gerð var þann 2. janúar skemmdist vatnslögn til 30.000 íbúa Nuseirat flóttamannabúðanna fyrir sunnan Gasa-borg. Loftárásir Ísraela torvelda mjög viðgerðir á innviðum.
