Amnesty International samþykkir tillögur um afstöðu til þungunarrofs og vímuefnamála

Amnesty International hefur samþykkt nýjar tillögur
til að takast á við skelfileg mannréttindabrot vegna nálgunar af hálfu ríkja sem
glæpavæða og takmarka þungunarrof og refsa vímuefnaneytendum.

Amnesty International hefur samþykkt nýjar tillögur til að takast á við skelfileg mannréttindabrot vegna nálgunar af hálfu ríkja sem glæpavæða og takmarka þungunarrof og refsa vímuefnaneytendum. Fulltrúar frá deildum samtakanna víða að úr heiminum komu saman á Heimsþingi Amnesty International í Varsjá í Póllandi dagana 6.-8. júlí þar sem samþykktar voru tillögur um afstöðu Amnesty International er snýr að öruggu og löglegu þungunarrofi og því hvernig ríki hafa stjórn á framleiðslu, sölu og neyslu á vímuefnum.

„Við viljum vera viss um að við séum vel undir það búin að berjast fyrir mannréttindum þeirra milljóna sem hafa orðið fyrir barðinu á stjórnvöldum sem glæpavæða eða takmarka þungunarrof og banna vímuefni. Bæði málin krefjast mannúðlegrar nálgunar stjórnvalda til að vernda réttindi þeirra sem eru viðkvæmastir,“

Tawanda Mutasah, yfirmaður laga- og stefnumörkunardeildar Amnesty International.

Aðgengi að þungunarrofi

Fulltrúar greiddu atkvæði til stuðnings uppfærðrar afstöðu samtakanna um þungunarrof. Ekki er lengur einungis kallað eftir því að stjórnvöld afglæpavæði þungunarrof heldur einnig að þau tryggi löglegar og öruggar leiðir þar sem tekið er fullt tillit til réttinda kvenna, stúlkna og fólks sem getur orðið barnshafandi. Nýja tillagan mun koma í stað fyrri afstöðu um þungunarrof frá árinu 2007 þar sem kallað var eftir afglæpavæðingu þungunarrofs og aðgengi að þungunarrofi í sértækum tilfellum. Óöruggt þungunarrof er enn þá ein algengasta orsök mæðradauða í heiminum og áætlað er að heildarfjöldi óöruggra þungunarrofa í heiminum sé um 25 milljónir á ári hverju.

Nálgun í vímuefnamálum

Fulltrúar greiddu að auki atkvæði með fyrstu afstöðu samtakanna um nálgun í vímuefnamálum sem beinist að því hvernig stjórnvöld þurfi að takast á við krefjandi vanda vímuefna út frá mannréttindasjónarmiðum. Tillagan kallar eftir því að horfið verði frá glæpavæðingu og tekin verði upp nálgun þar sem þungamiðjan er að vernda heilsu og réttindi fólks. Amnesty International hefur nú þegar framkvæmt rannsóknir í nokkrum löndum sem hafa orðið illa fyrir barðinu á vímuefnabanni, þar á meðal í Brasilíu, á Filippseyjum og í Bandaríkjunum þar sem fórnarkostnaður mannréttinda er gífurlegur vegna núverandi stefnu í vímuefnamálum.

Ný stefna

Atkvæðagreiðsla um helstu lykilatriðin fór fram á Heimsþingi Amnesty International en verðandi stefna samtakanna mun síðan byggja á þeim. Heimsþingið er haldið árlega og er tækifæri fyrir fulltrúa Amnesty International um heim allan að hittast og taka þátt í lýðræðislegum kosningum um
stefnumótun hreyfingarinnar. Amnesty International mun þróa ítarlegar stefnur er lúta að þungunarrofi og vímuefnum sem hafðar verða að leiðarljósi í herferðum og starfi samtakanna. Haft verður samráð við aðila jafnt innan sem utan Amnesty International um sértæk atriði í þessum stefnumálum.