Í gegnum tíðina hefur Íslandsdeild Amnesty International staðið fyrir kvikmyndasýningum eða átt í samstarfi við kvikmyndahátíðir í þeim tilgangi að sýna fólki raunveruleika mannréttindabrota og fá það til að taka afstöðu gegn brotunum.
Í gegnum tíðina hefur Íslandsdeild Amnesty International staðið fyrir kvikmyndasýningum eða átt í samstarfi við kvikmyndahátíðir í þeim tilgangi að sýna fólki raunveruleika mannréttindabrota og fá það til að taka afstöðu gegn brotunum. Með því að mannréttindabrot verða sýnileg vaknar krafan um aðgerðir sem leitt geta til úrbóta.
Íslandsdeild Amnesty International og RIFF hafa nú blásið til samstarfs í tengslum við sýningu á tveimur kvikmyndum á hátíðinni:
Kallið mig Kuchu (http://www.riff.is/films%23film=/content/call-me-kuchu) og Ai Weiwei: Engin eftirsjá (http://www.riff.is/films%23film=/content/ai-weiwei-never-sorry).
Fyrri myndin fjallar um David Kato sem er fysti maðurinn til að koma út úr skápnum í Úganda. Hann hefur lagt áherslu á að samkynhneigðir – „kuchu“ fólk – séu sýnilegir svo ekki sé litið fram hjá þeim, en lagafrumvarp sem leggur til að hommar sæti dauðarefsingu og að þeir sem ekki segi til samkynhneigðra séu læstir inni er til umfjöllunar í landinu. Ári eftir að upptökur á Kallið mig kuchu hófust var David myrtur á heimili sínu. Hér kynnumst við baráttu hans og annarra kuchu eftir andlát hans. Síðari myndin fjallar um Ai Weiwei en hann er þekktur sem arkitekt, róttækur listamaður og aðgerðarsinni. Á bloggi sínu afhjúpar hann blekkingar stjórnvalda og hann gagnrýndi Ólympíuleikana í Kína sem hefur leitt til lögregluafskipta, en honum tekst þó að sinna vinnunni jafnt sem fjölskyldu. Við fylgjum Ai í þrjú ár á meðan hann undirbýr sýningar, gagnrýni hans eykst og árekstrar við kínversk stjórnvöld verða tíðari, þar til kemur að handtöku hans í apríl 2011 sem vakti heimsathygli.
Sjálfboðaliðar á vegum Íslandsdeildar Amnesty International munu mæta á sýningu Kallið mig Kuchu sunnudaginn 7. október í Bíó-paradís klukkan 16:00 og Ai Weiwei: Engin eftirsjá 7. október í Háskólabíó klukkan 20:00. Þeir munu safna undirskriftum á aðgerðakort til stuðnings samkynhneigðum manni í Kamerún sem afplánar þriggja ára fangelsisdóm vegna kynhneigðar sinnar og vegna virts mannréttindalögfræðings í Kína sem hlaut þriggja ára skilorðsbundin fangelsisdóm fyrir „undirróðursstarfssemi”.
Íslandsdeild Amnesty International vill einnig benda áhugasömum á málþingið, Frá hinu persónulega til hins hnattræna, sem fram fer í dag 5. október á Center Hótel Plaza (Aðalstræti 6-8) frá 16:00-17:30. Þar munu leikstjórarnir Brenda Davis, leikstjóri kvikmyndarinnar Sister (http://www.riff.is/films#film=/content/sister)og Ilian Metev, leikstjóri kvikmyndarinnar Sofia’s Last Ambulance (http://riff.is/films#film=/content/sofias-last-ambulance)leiða fyrirlestur og umræður í kringum spurninguna hvort hægt sé að gera myndir um einstaklinga sem endurspegla hagsmuni heildarinnar?
Brenda Davis hefur gert heimildarmyndina Systir um hjálparstarfsmenn í Kambódíu, Haítí og Eþíópíu, á meðan Ilian Metev hefur gert kvikmyndina Síðasti sjúkrabíll Sofiu þar sem fjallað er um vandamál starfsmanna sjúkrabíls í Búlgaríu.
