„Ríkisstjórnir um heim allan leika tveimur skjöldum þegar kemur að pyndingum – þær banna pyndingar í lögum en stuðla að þeim í framkvæmd“.
Frá janúar 2009 til mars 2014 skráði Amnesty International pyndingar og aðra illa meðferð í 141 ríki heims.
Ný könnun sem Amnesty International lét gera og tekur til 21.000 einstaklinga í 21 ríki í öllum heimsálfum, leiðir í ljós að nærri helmingur aðspurða óttast að sæta pyndingum í eigin landi.
Rúmlega 80% aðspurðra vill skýr lög sem vernda fólk gegn pyndingum
Rúmlega þriðjungur telur að pyndingar geti stundum verið réttlætanlegar
Amnesty International sakar stjórnvöld á heimsvísu um að svíkja loforð sín um að binda enda á pyndingar, þremur áratugum eftir að alþjóðlegur samningur gegn pyndingum tók gildi á vettvangi Sameinuðu þjóðanna árið 1984.
„Ríkisstjórnir um heim allan leika tveimur skjöldum þegar kemur að pyndingum – þær banna pyndingar í lögum en stuðla að þeim í framkvæmd“, sagði Salil Shetty framkvæmdastjóri Amnesty International. Hann hleypti nýrri herferð samtakanna úr vör í gær sem hefur það að markmiði að berjast gegn pyndingum sem eru mjög útbreiddar á heimsvísu. Pyndingar þrífast ekki aðeins á mörgum stöðum í heiminum heldur vex þeim ásmegin með hverju árinu. Um leið og fleiri ríkisstjórnir réttlæta pyndingar í nafni þjóðaröryggis verður sá árangur sem náðst hefur í baráttunni undangengin 30 ár, smám saman að engu.
Frá árinu 1984 hefur mikill meirihluti ríkja heims eða 155 ríki fullgilt samning Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum, þar af hafa 142 sætt rannsókn Amnesty International. Árið 2014 leiddi rannsókn samtakanna í ljós að 79 þessara ríkja stunda enn pyndingar. 40 ríki Sameinuðu þjóðanna til viðbótar hafa enn ekki samþykkt samninginn en þrátt fyrir það er bannið við pyndingum algilt. Það nær til alla ríkja, óháð því hvort þau hafa samþykkt alþjóðasáttmála sem kveða á um banniðeður ei. Það á við um allar kringumstæður, án nokkurra undantekninga, og ekki er hægt að afnema bannið þó að um stríðsástand ræðir eða þegar almennt neyðarástand ríkir. Pyndingar eru aldrei réttlætanlegar. Þær eru villimannslegar og siðlausar, og ein stærsta smán mannkyns.
Sorglegar staðreyndir um pyndingar koma fram ár eftir ár í ársskýrslum Amnesty International. Í ársskýrslu samtakanna frá 2011 er að finna upplýsingar frá 101 ríki þar sem pyndingar og önnur grimmileg, ómannúðleg og vanvirðandi meðferð viðgengst. Árið 2012 skrásetti Amnesty pyndingar í 112 ríkjum. Frá janúar 2009 til mars 2014 skráði Amnesty International pyndingar og aðra illa meðferð í 141 ríki sem er nánast hvert einasta ríki sem Amnesty hafði til rannsóknar. Sú leynd sem hvílir alls staðar yfir ástundun pyndinga þýðir að fjöldi ríkjanna er að öllum líkindum mun meiri. Meðal sumra þessarra ríkja eru pyndingar stundaðar reglulega og kerfisbundið. Annars staðar hefur Amnesty skráð einangruð tilfelli. Að mati samtakanna er jafnvel eitt einangrað tilfelli pyndinga og annarrar illrar meðferðar með öllu ólíðandi.
Sem hluti af herferðinni lét Amnesty gera könnun til að mæla viðhorf fólks til pyndinga. Í ljós kom m.a. að nærri helmingur aðspurðra (44%) í 21 landi óttast að sæta pyndingum í varðhaldi í eigin landi. Mikill meirihluti aðspurða telur skýra þörf fyrir lögum til að vernda fólk gegn pyndingum. Engu að síður telur rúmlega þriðjungur að pyndingar megi réttlæta undir tilteknum kringumstæðum.
Hér má lesa sér meira til um könnunina.
Þau ríki sem taka skuldbindingar sínar gagnvart alþjóðlega samningnum gegn pyndingum alvarlega hafa gripið til ýmissa ráðstafana sem draga úr tíðni pyndinga. Dæmi um slíkar ráðstafanir fela í sér eftirlit með varðhaldsstöðum af óháðum aðilum, að pyndingar eru refsiverðar í landslögum og myndbandsupptökur eru tryggðar í öllum yfirheyrslum.
Amnesty International skorar á ríkisstjórnir allra landa að grípa til fyrirbyggjandi aðgerða til að sporna við pyndingum og annarri illri meðferð og draga þá til ábyrgðar sem gerast sekir um slík mannréttindabrot. Leiðin að því marki felst t.d. í að tryggja læknisskoðun fanga af óháðum aðila, skjótan og greiðan aðgang að lögfræðingum, lögsókn gegn ábyrgum aðilum og viðhlítandi bætur fyrir þolendur pyndinga.
Næstu tvö árin munu samtökin berjast fyrir vernd gegn pyndingum og horft verður sérstaklega til fimm landa þar sem pyndingar eru útbreiddar og Amnesty International telur að unnt sé að ná árangri í baráttunni.
Í Mexíkó halda stjórnvöld því fram að pyndingar heyri til undantekninga en reyndin er sú að ill meðferð meðal lögreglu og öryggissveita landsins er mjög útbreidd og er sjaldan refsiverð. Miriam López Varges er 31 árs, fjögurra barna móðir, sem var numin á brott af tveimur óeinkennisklæddum hermönnum í heimabæ sínum Ensenada og flutt á herstöð. Þar var henni haldið í heila viku, þrisvar nauðgað og gefið rafstuð, allt í þeim tilgangi að þvinga fram játningu á að tengjast eiturlyfjamáli. Þrjú ár eru liðin frá því Miriam sætti pyndingum í Mexíkó en enginn hefur verið sóttur til saka.
Á Filippseyjum er réttlætið sjaldan innan seilingar fyrir þolendur pyndinga. Fyrr á árinu komst frétt af lögreglumönnum á Filippseyjum á forsíðu heimspressunar. Þeir höfðu komið á laggirnar „lukkuhjóli“ sem þeir léku sér með við ákvarðanatöku um hvernig ætti að pynda fanga á þeirra vakt. Umfjöllun fjölmiðla af málinu leiddi til rannsóknar af innra eftirliti lögreglunnar og var nokkrum lögreglumannanna sagt upp störfum. Amnesty International kallar hins vegar eftir ítarlegri og óhlutdrægri rannsókn sem leiðir til ákæru á hendur lögreglumönnunum sem í hlut áttu.
Í Marokkó og Vestur-Sahara rannsaka yfirvöld sjaldan pyndingarmál. Ali Aarrass var framseldur frá Spáni til Marokkó í desember árið 2010. Honum var haldið af leyniþjónustunni í einangrun í leynilegu varðhaldi í 12 daga, þar sem hann sætti pyndingum og annarri illri meðferð. Hann var barinn á iljum, rafstraumur leiddur í gegnum kynfærin, hengdur upp á úlnliðum í lengri tíma og brenndur með sígarrettum. Að sögn Ali var hann þvingaður til að játa á sig aðild að hryðjuverkastarfssemi. Hann var dæmdur í 12 ára fangelsi en dómurinn byggði á játningu sem fengin var með pyndingum. Mál hans hefur aldrei verið rannsakað.
Í Nígeríu eru pyndingar notaðar á kerfisbundinn hátt af lögreglu og hermönnum. Þegar Moses var handtekinn af lögreglu var hann aðeins 16 ára gamall. Að eigin sögn var hann barinn og skotinn í hendina við handtöku. Þegar hann var síðar færður á lögreglustöðina var hann hengdur upp á höndum í yfirheyrsluherbergi og notast var við töng til að draga neglur af höndum og fótum. Hann var síðan þvingaður til að játa á sig símaþjófnað. Í nóvember 2013 eftir átta ár bið eftir dómi var Moses dæmdur til dauða. Dómurinn byggði á játningu sem fengin var með pyndingum.
Í Úsbekistan eru pyndingar mjög útbreiddar en fáir gerendur eru dregnir til ábyrgðar. Amnesty International fær ekki að heimsækja landið. Dilorom Abdukadirova 49 er ára gömul kona frá Úsbekistan sem afplánar nú 18 ára dóm í Tashkent kvennafangelsinu í heimalandi sínu. Hún tók þátt í mótmælum í landinu 13. maí 2005. Umræddan dag tók stjórnarherinn að skjóta á mótmælendur og talið er að hundruðir hafi legið í valnum. Hún flúði land og næstu fimm árin var hún í útlegð. Þegar hún snéri aftur heim var hún handtekin, meinað að hitta fjölskyldu sína og ákærð fyrir að gera tilraun til að velta ríkisstjórninni úr sessi. Þegar réttarhöldin yfir henni fóru fram var hún orðin grindhoruð og blá og marin á andlitinu. Fjölskylda hennar er sannfærð um að hún sætti pyndingum.
„Fyrir þrjátíu árum ýtti Amnesty International úr vör herferð til að binda enda á pyndingar sem fæddi af sér samning Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum og annarri illri meðferð. Margt hefur áunnist frá þeim tíma en það er þyngra en tárum taki að við þurfum enn á alþjóðlegri herferð að halda til tryggja að loforðin sem samningurinn gaf af sér verði að veruleika“ segir Salil Shetty
Hér má finna greinargerð sem ber heitið, Pyndingar árið 2014: 30 ár af sviknum loforðum (Torture in 2014: 30 years of broken promises) en í henni er að finna upplýsingar um beitingu pyndinga í heiminum í dag. Einnig fjallar greinargerðin um fjöldan allan af pyndingaraðferðum, allt frá svefnsviptingu til rafstuðs á kynfærum sem beitt er gegn þeim sem liggja undir grun um glæpsamlegt athæfi, pólitískum andstæðingum og öðrum.
